Ég varð einhvern tíma veik og varð öryrki, það var alls ekki gaman. Reynsla sem ég óska engum, en veit að ég er ekki ein um að hafa þurft að sætta sig við að skrokkur klikki og tólfur týnist þegar maður á sér einskis ills von.
Nema þessi pistill minn er ekkert um hvernig og hvers vegna ég varð öryrki, heldur hvernig og hvers vegna ég varð örvirki. Ég er 56 ára og hef unnið alls lags vinnu síðan ég varð 8 ára, var líka svona krakki sem fylgdist með öllu og vildi prófa allt, ég er enn þá þannig. Samt langaði mig aldrei að verða sjúklingur, hvað þá heldur útundan fátæklingur, það bara passar ekki við bjartsýnisbrjálæðinginn sem ég líka er. Sá sem er veikur á hverjum degi verður að gera eitthvað á hverjum degi, röfla ég oft við sjálfa mig til að halda peppinu í gangi, og það virkar stundum.
Fyrir nokkrum árum reyndi ég að gera atlögu að því að komast út á vinnumarkaðinn aftur, varð örvirki og var í tímavinnu, sem var sveiflótt, en ég borgaði fullan skatt af hverri mínútu og tókst, vegna veikleika minna, að keyra mig gersamlega á vegg og var tekjulaus og réttlítil eftir eins árs brölt og heilsan alónýt. Það var ekki gaman heldur.
Þannig að öryrkinn/örvirkinn komst að því að bjartsýnisbrjálæðingurinn þyrfti að hafa strúktúr sem gengi ekki af áhöfninni dauðri, en af því að vinna jú göfgar mann og er líka spennandi og áhugaverð og er óumræðanlega góð endurhæfing ef vel gengur, þá ákvað ég að gerast allra handa sjálfboðaliði. Og örvirkinn má helst ekki segja nei við neinu sem hann hefur ekki gert áður og bara mæta í auðmýkt með þá krafta sem eru í boði í það sinnið og reyna. Örvirkinn er vinur vina sinna og aðstoðar þá hvenær sem hægt er af því bara að það er gaman. Þannig er nefnilega hægt að fá að gera eitthvað af þeim hlutum sem ekki hafa verið gerðir áður.
Þannig að ég tók þátt í sjálfboðavinnu hjá Rauða krossinum, sem liðsmaður flóttamanns og á Vin, hvort tveggja nokkuð sem kenndi mér meira en mig grunaði að gerði. Og ég hef fengið að taka þátt í æskulýðsstarfinu á hjúkrunarheimilinu Grund með því að hjálpa til á morgunfundum, það er gaman en ég verð bara að bíða á meðan ákveðin álög ganga yfir til þess að sinna þeim störfum áfram.
En heppin var ég þó að ramba á að bjóða mig fram sem sjálfboðaliða í Hólavallagarð, þann umvefjandi stað tímans og tilverunnar, þegar lokanir hófust alls staðar annars staðar. Þar hef ég fengið að koma, þegar ég get, og rjátla við alls konar, innan um fugla og tré og heyrt sögur frá fólki sem kemur að annast um leiði ástvina, hitt fólk að leita og hitt fólk sem finnur og hitt fólk með hunda og fólk með börn og ketti sem koma bara sjálfir og drekk te með honum Heimi sem er sagnabrunnur og gróðurvitringur og leyfir mér að dingla þarna með sér við þau störf sem sinna þarf.
Og út frá þessari reynslu fékk ég þá hugmynd að komast að sem sjálfboðaliði á Sólheima í Grímsnesi síðasta sumar og það var hreint út sagt frábært, eignaðist vini fyrir lífstíð og lærði lifandis ósköp um ræktun á grænmeti og trjám, en mest um vináttuna.
Og núna er ég í Garðinum, Hólavallagarði, þar sem ég hékk sem unglingur með vinum mínum að reykja og fatta lífið en hefði aldrei getað logið því að mér að ég yrði þarna nákvæmlega aftur að hreinsa stubba og safna laufum og bera sand í stíga og þusa aðeins við unga fólkið sem kemur þarna til að reykja og fatta lífið, já, sumt af þessu fólki er ekki ungt lengur en er enn að reyna að fatta lífið. Ég er hætt að reykja en er enn þá að reyna að fatta lífið og það er svo gott að fá að reyna og ég ætla að halda því áfram, því það er lífið.
Athugasemdir