Ef einhver hefði beðið mig um að lýsa því þegar ég var í tíunda bekk hvernig ég sæi annað árið mitt í menntaskóla fyrir mér hefði ég ekki giskað á margt rétt. Ég er ekki einu sinni í sama skóla og ég hélt að ég yrði.
Að vera framhaldsskólanemi í heimsfaraldri er alls ekki það sem ég sá fyrir mér. Eftir þrjár annir í Kvennó er ég búin að eyða mestum tíma við skrifborðið mitt inni í herbergi að læra. Það er eins og lélegur brandari að stelpan sem vaknaði á hverjum degi frá 5. upp í 10. bekk og hugsaði um hvað hún hataði mikið að fara í skólann vilji núna ekkert meira en að mæta í skólann.
Þegar ég var í tíunda bekk héldum við fullveldishátíð í skólanum mínum, til að fagna 100 ára fullveldi. Við lærðum líka um spænsku veikina. Ég man svo eftir samræðu sem ég átti við pabba minn um þennan tíma, að svona lagað gæti vissulega ekki gerst núna, við erum sko bólusett fyrir öllu og þannig. Mér finnst þetta svaka fyndið, ákveðin íronía í þessu hvað við höfðum rangt fyrir okkur. Tveimur árum seinna er þetta bara raunveruleikinn minn.
En nóg um það, ég var beðin um að skrifa um það sem ég lærði á árinu. Ég lærði að keyra og ég las Brennu-Njálssögu í íslensku (engin Njáluferð samt), og fór hálfan hringinn í kringum landið. Skrifaði fyrstu heilu smásöguna mína líka.
Ég lærði að það er ekki sjálfsagt að fá að fara í skólann og hitta vini sína á hverjum degi, fara út að borða, fara í sund með pabba eftir vinnu og fara í ræktina. Lærði líka að maður á ekki að klippa hárið sitt sjálfur um miðja nótt, endar alltaf illa. En þrátt fyrir allt, að mega ekki hitta vini og fara í skólann og allt, er ég samt ótrúlega þakklát að þetta sé það eina sem breytist í mínu lífi.
Það eru svo margir aðrir sem hafa það milljón sinnum verr en ég akkúrat núna. Þetta ár er búið að opna augu mín enn meira fyrir heiminum í kringum mig. Stundum bý ég í lítilli búbblu þar sem allt er í toppstandi og ekkert slæmt er að gerast. Búbblan er svaka kósí en ekki til lengri tíma. Forréttindabúbblan sko, tek aldrei eftir henni fyrr en einhver sprengir hana og það er alltaf jafn vont þegar einhver sprengir hana. Eins og þegar ég horfði á Hotel Rwanda í skólanum og vildi ekki tala í heilan dag því mér fannst hún svo ógeðsleg.
Mér líður líka þannig í hvert skipti sem einhver spyr mig hvort ég eigi kærasta, það er alltaf ákveðinn skellur þar sem ég er lesbía og gleymi oft að það stendur ekki utan á mér. Ég held samt að það mikilvægasta sem ég hef lært á þessu ári sé að gefa sjálfri mér tíma til að vera, hugsa um hvað er gott fyrir mig og sálina mína. Kannski er það bara eitthvað sem fylgir því að eldast, ég er bara sautján ára svo ég veit ekki neitt um það hvernig þetta á eftir að þróast.
Það sem ég vona að gerist á næsta ári er ekkert svakalega mikið, mig langar bara að fara í skólann, borða í matsalnum með vinum mínum, kannski fara á ball. Skrifa eitthvað flott. Vona samt mest að þá verði ekkert Covid og allt verði venjulegt. Ef það verður einhvern tímann þannig aftur. Kannski verður ekkert eins, en ég get hreinlega ekki beðið eftir því að komast að því.
Athugasemdir