Hvernig skrifar maður eitthvað um árið 2020 sem er ekki bara hundleiðinleg umfjöllun um áskoranir og erfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins?
Ég veit það ekki alveg.
Margir hafa fundið fyrir innri frið, slakað betur á en hlakka samt til að geta stundað öflugra félagslíf. Við höfum mörg áttað okkur á hversu mikilvægt það er að geta spjallað við vinnufélagana við kaffivélina og hvað samvistir við aðra eru mikilvægur þáttur lífs okkar.
Ég er þakklát fyrir margt í lok þessa skrýtna árs, rétt eins og önnur ár. Ég á góða að, heimili þar sem mér líður vel og æskuheimili þar sem dyrnar standa mér alltaf opnar. Ég gat haldið veglega upp á 31 árs afmælið mitt (af því ég var upptekin með nýfæddri dóttur minni þegar þriðji tugurinn tók á móti mér í fyrra) þar sem Hreimur Örn Heimisson kom og söng fyrir mig – rétt eins og hann gerði þegar ég varð 16 ára. Mér hlýnar um hjartaræturnar við tilhugsunina, þótt geðshræringin hafi verið töluvert minni í ár en fyrir 15 árum. Vinahópurinn minn sem ég kynntist í Röskvu í Háskólanum rétt marði líka að halda „ættarmót“ áður en veiran breytti lífi okkar til frambúðar. Ég er enn að velta fyrir mér hvort ég sé nörd fyrst ég leik mér í hlutverkaleikjum við og við á fullorðins aldri.
Ég fékk að taka þátt í viðbrögðum við faraldrinum strax í upphafi í starfi mínu hjá Rauða krossinum og vann með frábæru fólki í samhæfingarstöð almannavarna í vor. Það var ómetanleg reynsla og gott að geta lagt eitthvað af mörkum. Ég verð þó að viðurkenna að það er líka ágætt að horfa á alla þeirra vinnu úr fjarlægð.
Ég fór ekki í skemmtiferð til Spánar með bestu vinkonum mínum í vor. Ég hef hugsað alltof oft um það þegar ég sagði við aðstoðarmann landlæknis að ég vonaði að veiran færi fljótt frá Ítalíu til Spánar svo ég kæmist í ferðina. Þá vorum við búin að vera að vinna saman í nokkrar vikur en ég gerði mér samt augljóslega ekki grein fyrir aðstæðum. Ekki frekar en þegar önnur samstarfskona mín sagðist vera ráðin til almannavarna til áramóta. Ég gerði bara ráð fyrir því að hún væri að fara að klára einhverja formlega skýrslugerð sem þyrfti að skila til ríkisins en ekki að hún stæði á upplýsingafundi almannavarna númer enginn veit hvað í lok árs að kynna litakóða fyrir hættustig veirunnar, eflaust með framlengdan ráðningarsamning í vasanum.
Ég hitti vini mína svo miklu minna en ég hefði viljað, fór í færri partí og bauð minna heim á nýja heimilið mitt í Laugarnesinu. Ég er svo heppin að tveggja ára dóttir mín litar lífið með öllum regnbogans litum með því einu að vera til. Það er ómetanlegt að fylgjast með einstaklingi vaxa og dafna og ég er spennt og þakklát fyrir barnalán komandi árs. Þetta ár hefði verið erfiðara án Krumma og Yrsu. Og mömmu og pabba.
Ég held að þegar ég líti til baka muni mér finnast þetta vera óraunverulegt ár. Ég mun átta mig á andlegu þyngslunum sem við flest finnum eflaust fyrir, eins og utan um mig sé vafin silkislæða sem mig langar að losna við en ég get aldrei losað almennilega. Eins og einn daginn fái ég að anda. Þegar hulunni verður svipt og ég dreg andann djúpt ætla ég að halda áfram að lesa jafn mikið og ég hef gert, bjóða oftar heim, spila meira, borða betri mat, skrifa meira, fara í borgarferð, horfa jákvætt á áskoranir sem upp koma í einkalífi og vinnu og faðma þá sem mér þykir vænt um.
Athugasemdir