Árið 2020, árið sem ég varð móðir, árið sem Covid-19 dundi yfir okkur öll, alla heimsbyggðina.
Óhætt er að segja að áherslubreytingar hafi einkennt árið hjá flestum þar sem ógnvaldur tók völdin og herjaði á okkar venjubundna líf. Við gátum ekki lengur hagað okkur líkt og við vorum vön og sátum uppi með okkur sjálf þar sem samskipti við aðra voru takmörkuð. Einangrun, hvað gerir hún fólki í raun og veru? Veldur einmanaleika, feitletrar allt í fari þeirra sem maður er með öllum stundum og leiðir vanalega hjá sér, þvingar mann til þess að hlusta, hlusta á það sem maður annars þykist hvorki sjá né heyra því það er of mikið að gera, nógu mikið að gera.
Eitt af því fjölmörgu sem á sér stað við það að verða foreldri er að þú berð ekki lengur eingöngu ábyrgð á sjálfum þér. Sem er frábært. Í annars mjög sjálfhverfum heimi er lífsnauðsynlegt að geta einbeitt sér að öðru en eigin hugsunum og fyrirætlunum um stund.
Um leið og árið gaf mér því tækifæri til þess að loksins hafa um aðra manneskju að hugsa en mig sjálfa, þvingaði það mig einnig til einveru, sérstaklega á seinni hluta meðgöngunnar þegar faraldurinn skall á. Það var erfitt. Maður er berskjaldaður þegar maður er óléttur. Það er líkt og tilfinningar manns dvelji ekki lengur undir nokkrum lögum af skráp heldur eru þær orðnar ysta lagið sem tekur á móti öllu því sem fram fer. Tilfinningar geta því orðið yfirþyrmandi á þessum tíma, maður verður svolítið barnslegur, kaldhæðnislegt.
Í rauninni urðum við öll berskjölduð vegna faraldursins. Hann afvopnaði okkur, það er að segja hann leiddi huga okkar frá því sem venjulega étur upp allan okkar tíma og færði okkur nær kjarnanum. Hann tók af okkur stjórnina.
Að geta ekki stjórnað umhverfi sínu reynist okkur í mörgum tilfellum erfitt. Þannig er manneskjan í okkar nútímasamfélagi. Við viljum geta stjórnað. Það reynist hins vegar eiginlega í öllum tilvikum ekki hægt, þar sem við sitjum uppi með sömu niðurstöðu, við getum ekki stjórnað neinu, nema okkur sjálfum og líðandi stund. Það er þessi stjórn sem við viljum hafa og okkur finnst við hafa þegar það er brjálað að gera. Við erum ekki til nema það sé brjálað að gera. Hvar erum við þá, þegar allt í einu er ekki hægt að grípa í þetta brjálæði? Við grípum í tómt, við neyðumst til að vera bara, þar sem við erum.
Það er ef til vill hluti af okkur einhvers staðar innst inni sem vill eignast afkvæmi til þess að hafa stjórn einhvers staðar. En börnin okkar koma með svo fallega eiginleika inn í þennan heim sem við getum hæglega tekið til fyrirmyndar og tileinkað okkur. Þau eru alltaf nákvæmlega þar sem þau eru hverju sinni og njóta þess, það er nefnilega þetta með að njóta þess staðar sem við erum á hverju sinni sem er lykilatriði, þar er eina mögulega stjórnin sem við höfum.
Athugasemdir