Árið 2020 var eins og einn stór rússíbani. Allt frá Covid og takmörkunum til jarðskjálfta, kosninga, ferminga og alls kyns vesens. Við erum mjög hressar og okkur finnst gaman að dansa og sprella, við erum eining frábærar í ástarmálum.
Ingunn og Hrafnhildur
Sælir félagar, árið 2020, þá lærðum við margt og mikið.
Árið var mjög flókið og erfitt, eins og þegar við fengum að heyra að við, Iðunn og Hrafnhildur, værum ekki að fara á neinar æfingar, og þegar við fengum að vita að grímuskylda væri komin á í skólum. Grímuskyldan er örugglega eitt það skrítnasta sem margir hafa upplifað. Það tók okkur mjög langan tíma að venjast því að nota hana í skólanum. Þess vegna voru bestu dagarnir þegar maður fékk að fara út, taka grímuna af sér og standa í tveggja metra fjarlægð.
Danstímarnir voru samt verri en skólinn. Í danstímum vorum við að hreyfa okkur svo mikið, það var ekki neinn opinn gluggi og maður kafnaði alveg.
Fjölskyldur urðu nánari
Einnig var margt jákvætt við árið líka. Fjölskyldurnar urðu nánari og út af æfingaleysi þá var maður mjög duglegur að finna upp á nýjum, skemmtilegum leiðum til þess að hreyfa sig. Við fórum til dæmis út að tína rusl, fórum mikið út að hlaupa með mömmum okkar, fórum mikið í bíltúra og gengum á nýjum stöðum.
Það var líka mikið um ný trend árið 2020. Margir lituðu á sér hárið og klipptu það, en það varð því miður ekki að veruleika hjá okkur. Við vorum mjög duglegar að prófa okkur áfram í eldhúsinu og urðum mjög hooked á TikTok.
Herdís
Fyrir mig, Herdísi, var árið lengi að líða og var ég oft að vona að það væri búið, þótt ég viti að 2021 verði ekkert endilega betra.
Á árinu fór ég í fyrstu vinnuna mína. Ég eignaðist mikið af vinum þar og fattaði að þú getur unnið við að gera eitthvað sem þér finnst skemmtilegt, einhvern veginn fannst mér það ótrúlegt. Sumarið leið hratt en ég eyddi því með vinum mínum og fjölskyldu, en vegna Covid gat ég ekki farið til fjölskyldunnar minnar í Frakklandi. Það var mjög skrítið vegna þess að vaninn er að fara árlega.
Þetta árið eyddi ég miklum tíma með pabba mínum í djúpar umræður um bandarísk stjórnmál og var það með mikilli gleði að Trump fór.
Fyrsta bylgjan, fyrir mig, var verri vegna óvissunnar og ég eyddi oft tímanum heima að horfa á sjónvarpið, en í annarri og þriðju bylgju fann ég upp á rútínu með blöndu af hreyfingu og að Facetime-a vini mína. Vegna Covid vorum við alltaf í sömu stofunum í skólanum og urðum við stelpurnar í bekknum góðar vinkonur, sem var ánægjulegt vegna þess að við höfum aldrei verið mjög nánar.
Fermdust í miðjum faraldri
Í ár fermdumst við allar, sem var mjög eftirminnilegt þar sem fermingin var ekki í apríl eins og vanalega, heldur í ágúst og september. Fermingarveislan gat heldur ekki verið venjuleg og það þurfti að skipta henni í tvennt, eða eitthvað þannig, og síðan var ekki hægt að vera með klassískt hlaðborð heldur þurfti að hafa þetta þannig að allir væru ekki að kássast í sama matnum.
Þótt við allar séum spenntar að árið sé að verða búið var 2020 samt bæði gott og slæmt ár. Við eignuðumst margar æðislegar og vondar minningar. Á árinu lærðum við að það er ekki sjálfsagður hlutur að fá að fara á æfingar og hitta alla sem þú vilt og að það skiptir miklu máli að vera með fjölskyldunni.
Athugasemdir