Íslendingar hafa töluvert miklar áhyggjur af Covid-19 faraldrinum og hafa þær aukist er líður á faraldurinn. Þeir höfðu þá meiri áhyggjur í annarri og þriðju bylgju faraldursins en í þeirri fyrstu þó svo að vitneskja um eðli sjúkdómsins sé nú meiri en í fyrstu bylgju.
Þetta kom fram í máli Sigrúnar Ólafsdóttur, prófessors í félagsfræði, á streymis viðburði Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og félags stjórnmálafræðinga: „Heilbrigðiskerfið og áhyggjur á tímum Kóvíd,“ þann 14. desember síðastliðinn.
Auk Sigrúnar kom fram á viðburðinum Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, en saman fjölluðu þær um viðbrögð stjórnvalda og almennings við Covid-19 faraldrinum.
Erum við öll í þessu saman?
Í erindi sínu: „Erum við öll í þessu saman? Áhyggjur almennings af kóvíd-19 faraldrinum“, kynnti Sigrún niðurstöður úr spurningakönnunum sem hafa verið í gangi síðan í fyrstu bylgju faraldursins og eru enn í gangi og fjallaði um þær út frá sjónarhorni félagsfræðinnar.
Niðurstöðurnar byggja á daglegum könnunum frá því í apríl byrjun þar sem spurningalistar með tíu til tólf spurningum voru sendir á tæplega tvö hundruð manns en eins og áður kemur fram stendur könnunin enn yfir.
Rannsóknin var gerð í samstarfi fræðafólks og Félagsvísindastofnunar en þeir sem komu mest að rannsókninni ásamt Sigrúnu voru þau Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði, Magnús Þór Torfason, dósent í viðskiptafræði og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar en Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur undanfarið kannað afstöðu Íslendinga til ýmissa mála tengdum Covid-19 faraldrinum.
Sigrún ræddi hluta af sínum niðurstöðum í samtali við Stundina.
Bylgja varð að bylgjum
Hún segir þó að gert hafi verið hlé á könnunum á ákveðnum tímapunkti. „Við sendum út kannanir frá 1.apríl og þangað til 10.júní með tíu til tólf spurningum er varða meðal annars áhyggjur fólks af faraldrinum. Við tókum svo hlé í sumar en byrjuðum aftur þegar önnur bylgjan skall á í júlí. Ætlunin var að hætta í september en þá kom þriðja bylgjan svo við héldum áfram. Þannig að við eigum dagleg gögn frá því í apríl og til dagsins í dag,“ segir hún.
Spurningarnar voru margvíslegar en til dæmis var spurt um hversu miklar áhyggjur fólk hefði af faraldrinum, hverjar væntingar þeirra til aðgerða væru, hversu mikið það fór eftir fyrirmælum, hversu mikið það upplifði að þeir sem stæðu þeim næst færu eftir fyrirmælum og svo hvernig þeir upplifðu að Íslendingar almennt færu eftir fyrirmælum.
Algengast var að hundrað til tvö hundruð kæmu inn á degi hverjum, en þegar minnst var voru svörin 6 á einum degi og þegar mest var 435 svör.
Miklar áhyggjur af faraldrinum
Niðurstöður kannananna leiddu í ljós að Íslendingar hafa töluvert miklar áhyggjur af faraldrinum en Sigrún segir það ekki koma sér mikið á óvart. „Ef við tökum saman þá sem hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur, sjáum við að á hápunkti fyrstu bylgju, eða í apríl byrjun, þá eru upp undir 70% þeirra sem svara sem hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur. Svo, eins og við mátti búast, minnkuðu áhyggjurnar eftir því sem smitum fækkaði í samfélaginu og í byrjun maí eru það um það bil 50% sem hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur og í byrjun júní um 40%“
Það sem kom henni þó á óvart var sú staðreynd að fólk hafði meiri áhyggjur í bylgju tvö og þrjú en það hafði í bylgju eitt. „Það er óvænt að því leiti að með tímanum förum við að þekkja veiruna betur, í apríl var mikil óvissa og almenningur vissi ekki alveg hvað væri í gangi. Skilaboðin sem almenningur fékk frá þríeykinu voru einnig á þá leið að við séum farin að þekkja veiruna og vitum hvað við eigum að gera til að bregðast við ástandinu og fækka smitum. Sömuleiðis vitum við meira um meðferð við alvarlegri veikindum en samt haldast áhyggjurnar stöðugar og í ágúst eru þeir sem hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur 70% af heildarhlutfallinu jafnvel þó að séu smitin tiltölulega fá miðað við í apríl,“ segir Sigrún.
„Við sjáum núna á nýjustu mælingum að hlutfallið helst svona hátt þó smitum sé að fara fækkandi“
Hlutfall þeirra sem höfðu miklar eða frekar miklar áhyggjur fór lækkandi þegar september bar að garði en þá var hlutfallið komið niður í 40% en um leið og faraldurinn fór aftur á skrið hækkaði hlutfallið og var það hæst 73% í október. „Við sjáum núna á nýjustu mælingum að hlutfallið helst svona hátt þó smitum sé að fækka. Það gæti tengst skilaboðum þríeykisins til almennings að nú séum við að sigla inn í hættulega tíma, aðventan sé komin og við eigum að passa okkur rosalega vel og þó svo smitin séu nú fá erum við engu að síður í hörðustu aðgerðum sem við höfum séð hér á landi,“ segir hún þá.
Hvað skýrir áhyggjurnar?
Sigrún hefur ekki einungis kannað hvernig áhyggjur landsmanna þróast heldur einnig hvað skýrir þær. „Þar erum við sérstaklega að velta fyrir okkur annars vegar hvernig þeir félagslegu þættir sem einkenna okkur, hafa áhrif og hins vegar stærri samfélagslegir þættir. Varðandi það fyrrnefnda, vitum við til dæmis að það getur verið munur eftir félagslegri stöðu, til dæmis eftir kyni og aldri, en við verðum auðvitað líka fyrir áhrifum frá því sem er að gerast í samfélaginu. Þar tölum við um samhengi dagsins og það vísar til þess hvernig faraldurinn er á hverjum tíma fyrir sig og hvað er í gangi á þeim tímapunkti.“
Niðurstöðurnar leiða i ljós að þeir sem eldri eru og konur, hafa meiri áhyggjur af faraldrinum en þeir sem yngri eru og karlar. Þá er ekki sjáanlegur munur á tíðni mikilla áhyggja eftir menntun eða fjölskyldustöðu og og almennt ekki munur á milli landshluta. „Það sem við sjáum þó er að þeir sem búa á Suðurnesjum hafa meiri áhyggur en þeir sem búa á Höfuðborgarsvæðinu,“ bætir Sigrún við.
Þar að auki segir Sigrún að það hafi einnig komið henni á óvart að ekki var marktækur munur á milli þeirra sem þurfa að vera í návígi á vinnustað og þeirra sem þurfa þess ekki.
Aðgerðir stjórnvalda hafa áhrif
Hvað varðar áhrif opinberra sóttvarnaráðstafana á áhyggjur fólks af faraldrinum segir Sigrún aðgerðir stjórnvalda hafa greinileg áhrif. „Þegar samkomubann er miðað við 20 eða 100 hefur fólk meiri áhyggjur en þegar það er miðað við 200 einstaklinga. Það gæti tengst þeim skilaboðum sem þjóðinni eru send með því að minnka hópana sem mega koma saman en það sýnir alvarleika aðstæðna og leiðir væntanlega til þess að almenningur hefur auknar áhyggjur af faraldrinum.“
Tvær ólíkar sögur
Að lokum skoðuðum við líka huglæga þáttinn eða hvernig einstaklingar upplifa faraldurinn. Þá segir Sigrún að annarsvegar sé skoðað nærumhverfi einstaklingsins og svo hvernig hann eða hún upplifir faraldurinn í samhengi við samfélagið í heild sinni. „Þar fáum við fram að sumu leiti tvær ólíkar sögur,“ segir Sigrún og heldur svo áfram.
„Það er þá annars vegar einstaklinssagan og svo samfélagssagan. Varðandi þá fyrrnefndu sjáum við að því meiri væntingar sem einstaklingur hefur um árangur aðgerðanna og því meira sem hann eða hún telur að þeir nánustu séu að taka þátt í aðgerðunum því meiri eru áhyggjurnar.“
„Við erum kannski hrædd og óttaslegin sem einstaklingar en þegar við upplifum að við séum öll í þessu saman, þá dregur það úr áhyggjum.“
„Við erum kannski hrædd og óttaslegin sem einstaklingar en þegar við upplifum að við séum öll í þessu saman þá dregur það úr áhyggjum“
En samfélagssagan er önnur. „Þar sjáum við að því meira sem þú heldur að Íslendingar almennt séu að hlýða eða fara eftir tilmælum og aðgerðum og því meira sem þú upplifir væntingar um árangur aðgerða í samfélaginu almennt því minni áhyggjur hefur þú. Þannig að þetta eru eins og tvær sögur, sem kannski virðast mótsagnakenndar í fyrstu,“ segir Sigrún.
Sigrún segir félagsfræðina koma sterka inn til að útskýra stöðuna. „Þegar við hugsum um einstaklinginn og hans nánasta félagsnet sjáum við að eftir því sem að fólk fylgir reglunum meira því meira er það með hugann við ástandið, það talar meira um það við þá sem eru í nærumhverfinu og áhyggjurnar verða því meiri í þeirra nánasta umhverfi og hjá einstaklingnum sjálfum,“ segir hún og heldur svo áfram.
„Hins vegar má velta þessu fyrir sér út frá hugmyndinni sem haldið hefur verið á lofti hérlendis um að við séum öll í sama bátnum, að við stöndum í þessu saman. Þegar andrúmsloftið í samfélaginu er á þann hátt að þú upplifir að aðrir séu að fylgja fyrirmælum vel og þeir séu með þér í þessu færðu trú á að það sé hægt að sigrast á faraldrinum í sameiningu og það dregur úr áhyggjum. Þá sjáum við vel þetta samspil einstaklings og samfélags, við erum kannski hrædd og óttaslegin sem einstaklingar en þegar við upplifum að við séum öll í þessu saman þá dregur það úr áhyggjum.“
Athugasemdir