Brynjar Níelsson. Þarf ég að segja meira? Líklega. Brynjar segir svo margt að maður þarf að tiltaka hvaða framlag hans til þjóðmálaumræðunnar maður er að taka fyrir. Brynjari tókst til dæmis nýlega að bulla sig út í horn vegna COVID-19. Svo gortaði hann sig af því að sinna ekki vinnunni sinni. Ég ætla að fjalla um hvorugt, þótt seinna dæmið sé skemmtilega írónískt í ljósi þess að innleggið sem ég ætla að fjalla um er sú hugmynd Brynjars að umtalsverður hluti örorkulífeyrisþega séu í raun bara að svíkjast um á kostnað skattgreiðenda.
Jamm, ég er að tala um fabúleringar Brynjars í nýlegu hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Það var að minnsta kosti þrennt sem Brynjar sagði sem stenst ekki skoðun: 1) Það er nánast veldisvöxtur í örorku; 2) flestir öryrkjar hafa hærri ráðstöfunartekjur en tekjulægsta fólkið; 3) fjöldi öryrkja drýgir tekjur sínar með svartri vinnu.
Veldisvöxtur öryrkja?
Hugtakið „veldisvöxtur“ ætti að vera orðið flestum okkar kunnugt vegna kórónuveirufaraldursins. Veldisvöxtur þýðir að eitthvað vex í hlutfalli við stærð sína. Því stærra sem fyrirbærið er, því hraðar vex það. Ein af þeim myndum sem fylgir þessari grein sýnir dæmi um veldisvöxt.
Við getum borið myndina af veldisvexti saman við mynd af nýgengi örorku frá 2010 sem má finna á nýlega endurreistu mælaborði TR (og fylgir þessum pistli). Myndin af nýgenginu sýnir engin merki um veldisvöxt. Raunar er nýgengið svipað árin 2019-20 og það var 2010-11. Að vísu hækkaði nýgengið tímabundið eftir 2014 og náði hámarki 2016. Forstjóri Tryggingastofnunar útskýrði hátt nýgengi það árið með því að stofnunin hafi lagt áherslu á að stytta afgreiðslutíma umsókna. Frá 2016 hefur dregið úr nýgenginu, var 1.790 einstaklingar árið 2016 en er 1.141 það sem af er þessu ári. Þetta styttra tímabil er klárlega ekki dæmi um veldisvöxt. Það er ekki einu sinni dæmi um vöxt.
Auðlegð öryrkja?
Það er erfitt að sjá hvernig ráðstöfunartekjur flestra örorkulífeyrisþega gætu verið hærri en tekjulægsta fólksins, sem býr þó sannarlega við þröngan kost. Hámarksupphæðir örorkulífeyris drógust aftur úr lægstu launum fyrir fullt starf á almennum vinnumarkaði á milli 2007 og 2015. Staðan batnaði lítillega fyrir þá örorkulífeyrisþega sem bjuggu einir eftir 2015 – sem eru þó aðeins um þrír af hverjum tíu örorkulífeyrisþegum – sem og hjá þeim sem voru ung þegar þau fengu örorkumat. Hins vegar hafa hámarksupphæðir örorkulífeyris þeirra sem fengu örorkumat 40 ára eða seinna á lífsleiðinni – alls um 45% örorkulífeyrisþega – haldið áfram að dragast aftur úr lægstu launum.
Það hefur hins vegar orðið sífellt erfiðara fyrir örorkulífeyrisþega að bæta tekjur sínar með vinnu.
Örorkulífeyrisþegar geta auðvitað bætt ráðstöfunartekjur sínar með vinnu. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru næstum þrír af hverjum tíu örorkulífeyrisþegum starfandi á vinnumarkaði árið 2017, flestir í hlutastörfum. Því miður hafa þær tölur ekki verið uppfærðar. Það hefur hins vegar orðið sífellt erfiðara fyrir örorkulífeyrisþega að bæta tekjur sínar með vinnu. Skerðingarmörk greiðslna TR vegna örorku hafa lítið sem ekkert breyst frá árinu 2009, sem þýðir að þau hafa hvorki haldið í við verðlag – né launaþróun. Á síðustu árum hefur vægi framfærsluuppbótarinnar einnig aukist í greiðslum vegna örorku, en það er sá greiðsluliður vegna örorku sem skerðist mest vegna annarra tekna og skerðist frá fyrstu krónu. Í stuttu máli, skerðingarnar rista sífellt dýpra og gera örorkulífeyrisþegum stöðugt erfiðara fyrir að bæta kjör sín með vinnu. Örorkulífeyrisþegi sem nýtur ekki heimilisuppbótar sem er í hlutastarfi sem skilar launum sem nema 50% af læstu launum fyrir fullt starf á almennum vinnumarkaði heldur eftir rúm 34% af þeim tekjum sem hann vinnur sér inn þegar tekið er tillit til skatta og skerðinga. Hlutfallið sem örorkulífeyrisþeginn heldur eftir lækkar svo jafnt og þétt ef atvinnutekjurnar hækka alveg upp að 407.033 krónum á mánuði. Ef atvinnutekjur örorkulífeyrisþega hækka hins vegar um eina krónu umfram þá fjárhæð þá er grunnlífeyrir vegna örorku að fullu skertur og viðkomandi missir allar greiðslur frá TR sem leiða af grunnlífeyrinum sem þýðir að ráðstöfunartekjurnar beinlínis lækka og það umtalsvert.
Það segir líka sína sögu um meinta leti örorkulífeyrisþega að þrátt fyrir að skerðingar örorkulífeyris séu mjög vinnuletjandi er umtalsverður hluti þeirra á vinnumarkaði. Ef við viljum auka virkni fólks með skerta starfsgetu er mun vænlegra til árangurs að aðlaga vinnumarkaðinn að þörfum þess fremur en að tönnlast í sífellu á meintri hyskni ómælds hluta örorkulífeyrisþega.
Undanskot öryrkja?
Svört vinna er auðvitað ein leið fyrir örorkulífeyrisþega til að bæta kjör sín. Í ljósi skerðinga kæmi í sjálfu sér ekki á óvart ef einhver hluti hópsins stundaði svarta vinnu. Ég hef hins vegar ekki hugmynd um hvað hópurinn er stór og það hefur Brynjar Níelsson ekki heldur. Hann fullyrðir að hann viti um fjölda öryrkja sem drýgi tekjur sínar með svartri vinnu. Þetta er svokölluð atvikssaga eða anekdóta sem er mjög erfitt að taka alvarlega. Í fyrsta lagi er engin leið til að sannreyna að Brynjar viti í raun um marga örorkulífeyrisþega sem stunda svarta vinnu, en jafnvel þó hann þekki dæmi um slíkt er ekki hægt að draga neinar ályktanir út frá því þar sem það er ekki sjálfgefið að „þekking“ Brynjars endurspegli raunveruleikann. Það er ástæða til að taka fram að þetta er ekki sérstakt vandamál Brynjars. Upplifanir okkar og þær upplýsingar sem við fáum stjórnast að miklu leyti af því félagslega umhverfi sem við erum í. Ég þekki til dæmis engin dæmi um örorkulífeyrisþega í svartri vinnu. Get ég dregið þá ályktun af því að engir öryrkjar stundi svarta vinnu? Augljóslega ekki. Það gæti einfaldlega verið að þeir örorkulífeyrisþegar sem ég þekki sé óvenju heiðarlegt fólk eða kjósi að segja mér ekki frá því að þeir séu að vinna svart.
Það að upplifanir okkar og þær upplýsingar sem við fáum úr okkar félagslega umhverfi séu mjög skekktar er þar með sagt að við getum ekki fengið rétta mynd af félagslegum veruleika. Til þess höfum við vísindi og mælingar. Það er hins vegar mjög erfitt að mæla svarta vinnu. Eðli málsins samkvæmt eru ekki haldnar neinar skrár um svarta vinnu. Þá hefur fólk sem vinnur svart ríkar ástæður til að segja ekki öðrum frá því. Aukið eftirlit með örorkulífeyrisþegum, eins og Brynjar boðar, væri auðvitað ein leið til að búa til slíkar upplýsingar. Eftirlitið sem þyrfti myndi þó nánast örugglega stangast á við persónuverndarsjónarmið og valda þeim sem vinna ekki svart umtalsverðum óþægindum í formi innistæðulausra ásakana og sífelldum kröfum um upplýsingar og útskýringar.
Grundvallaratriðið hérna er að ef maður hefur engar haldbærar upplýsingar er ekki ásættanlegt að fullyrða eitthvað á grundvelli atvikssagna. Í slíkum aðstæðum er betra að fullyrða ekki yfirhöfuð. Það er sérstaklega ljótur leikur að fullyrða innistæðulaust um hóp fólks sem stendur hvað verst í íslensku þjóðfélagi.
Tröllasögur um öryrkja
Tröllasögur um fjölgun öryrkja, plat-öryrkja, skattsvikula öryrkja og meint óhóflegt örlæti örorkulífeyris eru ekki nýjar af nálinni. Eins lengi og ég hef fylgst með þjóðmálaumræðunni virðist ákveðinn hópur stjórnmálafólks nánast líta á það sem hluta af starfslýsingunni að segja slíkar sögur. Vandamálið er að ef tröllasögurnar stjórna stefnumótun er hætt við að lausnirnar sem leiða af þeim leysi ekki þau vandamál sem eru raunverulega til staðar.
Ef við viljum fækka öryrkjum þá þurfum við fyrst að ráðast á rót vandans, þá þætti í samfélagsgerðinni okkar sem valda því að fólk missi starfsgetu. Það þarf líka að efla ýmis meðferðarúrræði sem auka líkurnar á að starfsendurhæfing gagnist fólki. Þá þarf að draga úr skerðingum örorkulífeyris og þar með þeim vinnuletjandi áhrifum sem þær hafa. Að lokum þarf að aðlaga vinnumarkaðinn í meira mæli að þörfum fólks með skerta starfsgetu. Slíkar aðgerðir eru mun vænlegri til árangurs en eftirlitsríkið sem Brynjar virðist vilja bjóða örorkulífeyrisþegum upp á.
Athugasemdir