Antónío Guterres, aðalritari Sameinu þjóðanna, segir Covid-19 faraldurinn hafa afhjúpað marþætta bresti í samfélögum víðsvegar um heiminn og samhliða hefði loftslagsvandinn aukist verulega. Til þess að takast á við þær hættur sem af þessu kunna að verða segir hann mikla þörf á nýju og skilvirkara samstarfi þjóða.
Guterres sat fjarfund með forsætisráðherrum norðurlandanna og þingmönnum í þingviku Norðurlandaráðs og ræddi hvers konar áhrif Covid-19 gæti haft á hamfarahlýnun.
Guterres sagði alþjóðasamfélagið vera farið illa út af sporinu hvað varðar það markmið að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráður á celsíus fyrir árið 2050. Á fundinum lagði hann mikla áherslu á að lönd myndu skuldbinda sig til að leggja meira af mörkum til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins og að Norðurlöndin gegni þar mikilvægu hlutverki.
Græn endurbygging efnahagslífsins
Guterres vísaði því á bug að farsóttin hafi haft jákvæð áhrif þegar kæmi að loftslagsmálum, eins og haldið hefði verið fram í sumum fjölmiðlum. Hann sagði að vegna farsóttarinnar hafi þurft að fresta mikilvægum ráðstöfunum í þágu loftslagsins.
Þá sagði hann mikilvægt að endurbygging efnahagslífsins í kjölfar faraldursins verði að miða að því að takast á við loftslagsvandann. „Það er lykilatriði að við byggjum upp efnahagslífið að lokinni farsótt með árángursríkum aðgerðum í loftslagsmálum sem skapa mörgum milljónum manna eftirsótt störf, greiðir fyrir hreinni og skilvirkri tækni og leiðir til betra heilsufars um allan heim,“ segir António.
Sameinuðu þjóðirnar hafa vakið athygli á aðgerðum á sviði loftslagsmála sem ríki og aðrir hagsmunaaðilar geta nýtt sér til að stuðla að sjálfbærri efnahagslegri endurreisn eftir farsóttina. Aðgerðirnar snúa að því að fjárfesta í sjálfbærri atvinnu og fyrirtækjum, að efnahagsaðgerðir stjórnvalda styrki ekki mengandi iðnað eða niðurgreiðslur á orkugjöfum úr jarðefnaeldsneyti, að meta þurfi loftslagsáhættu við allar efnahagslegar og pólitískar ákvarðanir og vinna þurfi saman að sameiginlegum málum.
Athugasemdir