Samfélagið sem við búum í er stöðugt í mótun. Það er eins og við viljum hafa það vegna þess að það erum við sem sköpum það. Við erum auðvitað misjöfn, með mismunandi áherslur og gildi í lífinu, við búum yfir mismunandi þekkingu, reynslu og sýn á lífið og við höfum mismikla getu til að finna hugmyndum okkar farveg. Við höfum hins vegar það hlutverk í lýðræðisríki að veita valdhöfum aðhald og berum ábyrgð samkvæmt því. Við getum öll haft áhrif á og tekið þátt í að móta samfélagið.
Stundum höfum við sett viðmið um hvað við viljum eða viljum alls ekki að þrífist í íslensku samfélagi og unnið markvisst að því að framfylgja því. Slík viðmið mótast gjarnan af siðferðislegum forsendum, óháð stjórnmálaskoðunum eða samfélagsstöðu fólks. Þrátt fyrri alla gráu tóna lífsins er sumt einfaldlega rétt og annað rangt að mati flestra vel meinandi manneskja. Lagaramminn nær utan um margt af því sem við höfum tekið afgerandi afstöðu til, en ekki alls. Siðferði mótast nefnilega ekki alfarið af lagabálkum og lögin endurspegla ekki alltaf siðferðislega vitund samfélagsins alla leið. Sumt þykir einfaldlega rangt, jafnvel þótt það feli ekki í sér brot á lögum.
Afstaða gegn spillingu
Sem dæmi þá hafa Íslendingar verið að móta afstöðu gegn spillingu á undanförnum árum, sem hefur birst með vaxandi kröfu um að ráðamenn axli ábyrgð þegar upp kemst um spillingarmál. Í búsáhaldabyltingunni fjölmennti fólk á mótmæli dögum, vikum og mánuðum saman. Áður en áratugur var liðinn olli afhjúpun á aflandsfélögum ráðherra fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar. Ríkisstjórnir hafa fallið og ráðherrar hafa þurft að biðjast afsökunar eða víkja vegna kröfu almennings um að þeir axli ábyrgð. Jafnvel börn hafa staðið fyrir vikulegum mótmælum mánuðum saman.
Enn á ný birtist þessi afstaða þjóðarinnar í gegnum undirskriftasöfnun til stuðnings nýrri stjórnarskrá. Yfir 43 þúsund Íslendingar skrifuðu nýlega undir þá kröfu að tillögur stjórnlagaráðs – sem skilað var árið 2011 en svæft af Alþingi, yrðu lagðar til grundvallar stjórnarskrárbreytingum. Nokkuð afgerandi niðurstaða.
Þetta er það sem gerðist þegar viðmiðin voru sett. Fólk valdefldist og fór að krefjast þess að önnur gildi yrðu í hávegum höfð. Heiðarleiki, frelsi, réttlæti – voru þau gildi sem þjóðfundur kom sér saman um að leggja áherslu á, ásamt fleiri grunngildum á borð við mannréttindi, jafnrétti, lýðræði, virðingu, ábyrgð og öryggi. Á undanförnum árum hefur reynt á flest þau gildi sem skilgreind voru sem leiðarvísir að réttlátara samfélagi. Skortur á heiðarleika felldi síðustu ríkisstjórn, samkvæmt skýringum þeirra sem sátu í stjórninni en völdu frekar að fella hana heldur en að sitja áfram í ríkisstjórn með fólki sem það vantreysti af ofangreindum ástæðum.
Afstaða gegn brottsendingum barna
Af öðrum ástæðum hefur umræðan um mannréttindi, ábyrgð og öryggi verið hávær á undanförnum árum, umræðan um virðingu, réttlæti og frelsi. Hvaða ábyrgð berum við sem samfélag gagnvart því fólki sem leitar hér skjóls á flótta frá hörmungum heimsins? Viðbrögð samfélagsins og andstaðan við framkomu stjórnvalda gagnvart þessu fólki, hafa sent skýr skilaboð. Við berum heilmikla ábyrgð gagnvart fólki sem hefur þurft að flýja heimaland sitt af einhverjum ástæðum.
Afstaða almennings gagnvart ákvörðun Útlendingastofnunar í máli lítils drengs, sem stóð í dyragættinni með bangsann sinn og starði út í myrkrið á meðan hann beið þess að vera sóttur af lögreglunni og fluttur nauðugur aftur til heimalandsins ásamt fjölskyldunni sinni, þar sem útilokað var að veita honum nauðsynlega læknisaðstoð við langvinnum og lífshættulegum sjúkdómi, varð til þess að Alþingi ákvað að veita fjölskyldunni ríkisborgararétt og bjóða henni aftur til landsins. Myrkrið beið litla drengsins, en vegna þess að við sem samfélag gátum ekki sætt okkur við að svona væri komið fram við börn hér á landi fékk hann loks skjólið sem hann bæði þurfti og þráði.
Nokkrum árum síðar skrópuðu allir nemendur í Hagaskóla í tíma til þess að ganga fylktu liði á milli stofnana til að berjast fyrir rétti skólasystur sinnar til að setjast að á Íslandi. Lögunum var breytt og fjölskyldan fékk dvalarleyfi.
Mýmörg dæmi eru um að almenningur hafi knúið fram breytingar á samfélaginu.
„Sumt er einfaldlega rangt og það er vont að lifa með ranglæti án þess að gera nokkuð í því“
Afstaða gegn fátækt
Stundum þarf bara að taka skýra afstöðu. Vegna þess að sumt er einfaldlega rangt og það er vont að lifa með ranglæti án þess að gera nokkuð í því.
Það væri til dæmis vonandi að samfélagið gæti sammælst um eftirfarandi:
1. Ekkert barn á að fara svangt að sofa vegna þess að það eru ekki til peningar fyrir mat.
Um tíu prósent íslenskra barna búa á heimilum þar sem tekjur eru undir lágtekjumörkum. Þetta eru um 8.500 börn. „Stundum er ég svöng og það er enginn matur til,“ sagði sextán ára stelpa í Reykjavík. Móðir hennar fékk krabbamein og endaði á örorkubótum, einstæð þriggja barna móðir. Þar með var fjölskyldan dæmd til þess að lifa af tekjum sem eru langt undir þeim framfærsluviðmiðum sem félagsmálaráðuneytið hefur sett. Sjálf ólst hún upp við fátækt, hjá foreldrum sem unnu báðir úti en áttu samt ekki alltaf til peninga fyrir mat. Móðuramman hafði alist upp í bragga. Fátæktin erfðist á milli kynslóða, því þegar eitthvað kom upp var baklandið ekkert. Langvarandi lágar tekjur valda því að fólki tekst hvorki að koma sér upp sparifé né eignum og lánamöguleikar til að mæta óvæntum útgjöldum eru takmarkaðir. Jafnvel þótt fólk mælist aldrei fyrir neðan lágtekjumörk geta þessar aðstæður leitt til fátæktar. Til að rjúfa þennan vítahring stefnir dóttir hennar á að verða læknir. Hún hefur ekki tök á að fylgja vinum sínum eftir og biður aldrei um neitt því hún veit að það eru ekki til peningar fyrir neinu, en segir erfiðast þegar hún er svöng.
Jafnaldra hennar í Grafarholtinu þekkir þá tilfinningu að vera svöng og eiga ekki mat. Hún hætti að halda upp á afmælið sitt tíu ára því hún veit að það kostar peninga sem eru ekki til.
2. Engin móðir á að þurfa að vinna fulla vinnu án þess að ná endum saman.
„Á meðan ég var ein þá var ég í tveim vinnum. En þegar ég eignaðist son minn þurfti ég að fá mér bíl og gat ekki unnið svona mikið,“ segir kona sem vinnur við umönnun á Hrafnistu. Hún segir ekki hægt að líkja því saman fjárhagslega að vera ein eða vera orðin móðir. Einstæðir foreldrar í neðri helmingi tekjudreifingarinnar eru í sérlega viðkvæmri stöðu, sem eina fyrirvinna heimilisins, sem bera í ofanálag aukna umönnunarbyrði sem hamlar þeim frá því að afla aukatekna.
Önnur einstæð móðir sem starfar á hjúkrunarheimili, Stephanie Rósa Bosma, hefur um 258 þúsund í ráðstöfunartekjur og greiðir 126 þúsund krónur í leigu. Framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara gera ráð fyrir því að einstæð móðir með eitt barn þurfi 211.428 krónur fyrir utan húsnæðiskostnað. Fátæktin rænir hana gleðinni á hátíðarstundum. Jól, páskar og afmæli valda streitu og þunglyndi. Getan til að takast á við streitu og þunglyndi takmarkast síðan af fátæktinni. Sérfræðilæknar eru allt of kostnaðarsamir, lyf kaupir hún helst ekki og tannlæknar eru lúxus sem hún myndi seint leyfa sér. Samhliða fullri vinnu stundar hún nú fjarnám í von um að komast út úr fátæktargildrunni sem felst í því að vinna láglaunastörf á Íslandi.
Þegar fólk hefur þrælað sér út alla ævi getur líkaminn gefið sig. Stoðkerfissjúkdómar eru helsta ástæða þess að fólk yfir fertugu lendir á örorku. Við vitum öll hvað það þýðir.
3. Ekkert barn á að þurfa að búa í iðnaðarhúsnæði vegna þess að það eru ekki til peningar fyrir öruggu húsaskjóli.
Um 860 börn búa í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar sem leikvellirnir eru bílakirkjugarðar. Eftir því sem neyðarástand á leigumarkaði harðnar leita sífellt fleiri skjóls í atvinnu- og iðnaðarhúsnæði. Samkvæmt kortlagningu slökkviliðsins varð 84% aukning á því að atvinnuhúsnæði væri nýtt til útleigu á tíu ára tímabili eftir hrun.
Guðrún Ágústa Ágústsdóttir, einstæð móðir með þrjár háskólagráður, lýsti því hvernig íslenskur leigumarkaður væri að murka úr henni lífið. Að búa í leiguhúsnæði felur í sér auknar líkur á fjárhagsþrengingum, en munurinn á lágtekjuhlutföllum barna fyrir og eftir húsnæðiskostnað er með meira móti hér í samanburði við önnur Evrópulönd. Í örvæntingu sinni leitar fólk skjóls í iðnaðarhúsnæði. Þegar Guðrún Ágústa sá fram á að missa leiguhúsnæðið sá hún tvo möguleika í stöðunni, að flytja úr landi eða í ósamþykkt iðnaðarhúsnæði með fimmtán ára son sinn.
Brunavörnum er oftar en ekki ábótavant og lítið um flóttaleiðir ef eldar kvikna. Erfitt er að skrá lögheimili á þessum slóðum, sem gerir það að verkum að fólk fær ekki húsaleigubætur og barnafólk getur lent í vanda við að skrá börnin sín í skóla eða leikskóla. Íbúar iðnaðarhverfa lenda utan kerfisins og lýsa ótta, vonleysi og depurð. Par sem gekk út úr lagerhúsnæði með barnavagn lýsti ótta sínum í örstuttu samtali við blaðamann. Það óttaðist að missa jafnvel þetta húsnæði.
Valið er okkar
Þrjú atriði sem væri hægt að laga til að tryggja réttlátara samfélag, sett fram í von um að fæstir séu þeirrar skoðunar að aðstæður þessara barna séu ásættanlegar, í trú um að okkur myndi flestum líða betur ef þær væru allavega aðeins betri. Við höfum val, því samfélagið er okkar.
Samkvæmt skýrslu sem unnin var um lífskjör og fátækt barna á Íslandi fyrir Velferðarvaktina er vandinn ekki óyfirstíganlegur ef grípa á til aðgerða til að draga úr fátækt á meðal barna. Það er bara spurning um vilja. Stefna stjórnvalda hefur hins vegar ýtt undir vandann á síðustu árum. Eftir efnahagshrunið var hvorki lögð áhersla á að vernda börn fyrir áhrifum kreppunnar né að bæta lífskjör þeirra þegar hagur þjóðarbúsins fór að vænkast. Lífskjör barna versnuðu meira hér en í öðrum Evrópulöndum, að Grikklandi undanskildu.
Sorglegast er að hugsa til þess að þeir sem þurfa mest á breytingum að halda eru síst í stöðu til að berjast fyrir þeim. Aðrir þurfa því að rísa upp fyrir þeirra hönd. Það er undir okkur komið að knýja fram breytingar.
Athugasemdir