Fyrir rétt rúmu ári tók ég við starfi safnstjóra Gerðarsafns. Ég er Kópavogsbæ þakklát fyrir tækifærið til að sinna hlutverki safnstjóra og ná í gegnum það starf fram markmiðum og breytingum sem hafa reynst nauðsynlegar fyrir Gerðarsafn. Þó eflaust megi alltaf gera betur eru óvenju mörg þeirra verka sem ég vildi sinna í þágu safnsins nú leyst af hendi, í samræmi við þær áherslur sem kynntar voru fyrir lista- og menningarráði bæjarins fyrir um ári síðan.
„Ég er sterk“
Arfleifð og minning Gerðar Helgadóttur er eitt af mörgu fögru sem prýðir Kópavogsbæ. Þær fórnir sem hún færði í nafni listar, hennar aðferðir og verk, eru uppistaða safns sem á sér engan líka hér á landi. Sveitarfélagið nýtur góðs af frumkvöðlastarfi Gerðar og einkunnarorðum hennar sem komu fram í tengslum við notkun hennar á járni við gerð skúlptúra: „Ég er sterk.“ Þessi kjarnyrtu skilaboð tjá það sem við þráum öll– að vera sterk.
Að sjá vandamál en velja meðvitað að hampa þeim
Þrátt fyrir frjó og skapandi misseri hjá Gerðarsafni frá því að ég tók við er því miður of margt sem hefur varpað skugga á þennan góða tíma. Óheilindi og baktjaldamakk hefur fengið grassera í hljóði þannig að ekki verður lengur við unað. Það er eitt að þurfa að þola háðung í áheyranda hljóði. Annað að þola það ítrekað, fyrir framan eigið starfsfólk, af hálfu fólks sem er vart hægt að kalla öðru nafni en ofbeldisfólk. Það þriðja að þola að sama fólk fremji lögbrot í húsi sem maður ber persónulega ábyrgð á. Það fjórða að njóta hvorki áheyrnar né stuðnings yfirmanna gagnvart ofbeldi og lögbrotum. Það fimmta að yfirmaður minn vinni gegn mér og safninu. En það síðasta, og það sem ég neita að bera ábyrgð á, er að lögbrot séu framin með samþykki stjórnvalda sem með þögninni studdu ekki einungis umrædd lögbrot heldur verðlaunuðu þau með auknu húsrými í safninu sem ber nafn Gerðar Helgadóttur - rými sem ætlað var fyrir dýrmætt fræðslu- og barnastarf safnsins til frambúðar
Gott að búa, vont að ljúga - verst að brjóta lög
Einhvers staðar verður að draga línu og setja skýr mörk. Það á engin/n að geta hagnast á lögbroti. Hvergi, nokkurs staðar.
Eins og sagt er; „Það er gott að búa í Kópavogi“.
Það þýðir ekki að það sé gott að ljúga í Kópavogi.
Og engan veginn að nokkur maður eigi að komast upp með að brjóta lög í Kópavogi.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Höfundur er myndlistarmaður og forstöðumaður Gerðarsafns
Athugasemdir