Þann 7. febrúar síðastliðinn sagði Donald Trump í símaspjalli við blaðamanninn Bob Woodward að kórónaveiran, sem þá var byrjuð að breiðast út um heiminn, væri stórhættuleg. Hann sagðist jafnframt mundu gera lítið úr hættunni opinberlega til að „valda ekki ofsahræðslu [panic]“.
Í margar vikur þar á eftir hélt Trump áfram að gera lítið úr hættunni og viðbrögð stjórnar hans voru öll í skötulíki.
Fólk fór að hrynja niður.
Öruggt má telja að ef bandaríska stjórnin hefði strax brugðist við af þeirri snerpu sem til dæmis ýmis Evrópuríki sýndu, þá hefði dauðsföllum fækkað og jafnvel umtalsvert.
Skylda blaðamanns?
Spurningin er þá sú: Ef blaðamaðurinn Woodward vissi strax í byrjun febrúar að Trump færi með ósannindi um veiruna og COVID-19 væri ekki „eins og hver önnur flensa“ heldur stórhættuleg, bar honum þá ekki skylda til að upplýsa almenning um þessa vitneskju sína?
Þetta er ansi merkileg spurning í sjálfu sér. Má blaðamaður halda leyndri vitneskju um mál sem snertir líf og dauða og setja hana bara fram hálfu ári seinna í bók?
Þegar uppljóstrunin mun – í þessu tilfelli – ekki koma að neinu praktísku gagni í baráttunni við veiruna en mun að sjálfsögðu auka áhuga og sölu á bók Woodwards.
Trump krafðist ekki trúnaðar
Woodward hefur vissulega verið spurður að þessu.
Hefði uppljóstrun hans ekki hvatt almenning til að krefjast aðgerða strax í byrjun febrúar og stjórnvöld til að horfast í augu við hættuna? Og hafði almenningur ekki í sjálfu sér rétt til að vita strax sannleikann um svo alvarlegt mál?
Í viðtali við sitt gamla blað Washington Post færir Woodward fram ýmsar ástæður fyrir því að bíða í hálft ár.
Í fyrsta lagi kemur þar fram að Trump hafði ekki krafist trúnaðar um neitt í samtölum þeirra svo ekki var það ástæðan.
Engu breytt?
Í öðru lagi segist Woodward sjálfur ekki hafa gert sér grein fyrir hve þýðingarmikil orð Trumps um veiruna væru. Þegar þau voru sögð gerðu fáir sér grein fyrir því hve hættan yrði mikil og til dæmis gerði hinn rómaði „doctor Fauzi“ heldur lítið úr hættunni í margar vikur enn.
Því hefði það eflaust ekki breytt neinu þótt Woodward hefði strax 8. febrúar upplýst að Trump hefði sagt sér að veiran væri „deadly“.
Þessi skýring virkar í sjálfu sér þunnildisleg, vægast sagt. Ef blaðamaður heyrir æðsta valdamann þjóðar segja að yfirvofandi sé mikil hætta, á þá að skipta máli hvort hann sjálfur eða aðrir í umhverfinu hafa hingað til áttað sig á því? Ber honum ekki sama skylda til að upplýsa almenning?
En Woodward ber blak af sér með því að hann hafi í þriðja lagi ekki vitað hverjar heimildir hann hafði fyrir skoðun sinni og í fjórða að meðhöndlun Trumps á sannleikanum sé „vandamál“.
Hann hafi því þegar hann heyrði þetta í byrjun febrúar ekki getað gert sér grein fyrir því hvort Trump væri bara að bulla eða ljúga.
Þunnar í roðinu
Þessar skýringar eru líka þunnar í roðinu.
Látum vera þótt Woodward hafi ekki áttað sig á mikilvægi upplýsinganna í byrjun febrúar – hefði hann samt ekki átt að birta þær, til dæmis mánuði síðar, þegar Trump hélt enn áfram að gera lítið úr hættunni, þótt öllum öðrum hafi hún verið orðin augljós?
Þá hefði uppljóstrunin enn getað skipt máli til að neyða stjórnvöld til aðgerða.
Þá hefði uppljóstrunin enn getað skipt máli til að neyða stjórnvöld til aðgerða. Það er reyndar ólíklegt en það hefði getað gerst.
Í fyrrnefndu viðtali bendir Woodward á að hlutverk hans sé ekki lengur að skrifa daglegar fréttir heldur draga upp heildarmynd atburða fyrir lesendur sína og veita þeim sem gleggstar upplýsingar þegar það skiptir mestu máli, það er að segja fyrir forsetakosningarnar sem í hönd fara.
Besta fáanlega útgáfa af sannleikanum
Með því á hann ekki við að hann vilji í sjálfu sér hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna, heldur að fólk eigi rétt á að vita allt sem máli skiptir um frammistöðu sitjandi forseta.
Hlutverk hans var að skila í bókarformi „bestu fáanlegu útgáfu af sannleikanum“, sagði hann enn fremur.
Blaðamaðurinn Margaret Sullivan, sem tók viðtalið við Woodward, er bersýnilega í vandræðum með þetta. Annars vegar ber hún ljóslega mikla virðingu fyrir Woodward og hann hefur sosum unnið fyrir því. Hins vegar bendir hún á að ef uppljóstrunin um orð Trumps hefði komið fram til dæmis í maí, þá hefði Trump bara þyrlað upp moldviðri í mótmælaskyni og málið gleymst fljótlega í því flóði stöðugra skandala sem ganga yfir Bandaríkin.
Núna muni upplýsingarnar skipta máli.
Próf
Hún bendir líka á að þetta sé fráleitt í fyrsta sinn sem spurningar vakna þegar blaðamenn leyna mikilvægum upplýsingum í sínu daglega amstri en birta þær svo í bókum seinna.
En sjaldan hefðu þær upplýsingar þó hugsanlega getað bjargað mannslífum, eins og í þessu tilfelli. Það er, skrifar Sullivan, „öflug röksemd gegn því að bíða svona lengi“.
Vissulega. Burtséð frá því að málið snýst um Trump og kórónaveiruna, þá sýnist mér að Bob Woodward hafi undirgengist mikið próf í þessu máli – ekki fyrst og fremst sem blaðamaður, heldur sem manneskja.
Og mér sýnist að Bob Woodward hafi fallið á prófinu.
Athugasemdir