Tólf ár eru langur tími. Ég var 24 ára gamall þegar þú komst inn í líf mitt. Ég hafði lýst því yfir að næst þegar ég flytti að heiman þá ætlaði ég að fá mér hund og við Krummi, meðleigjandi minn, höfðum meðal annars haft það til hliðsjónar þegar við völdum leiguíbúðina okkar við Bankastræti að þar mætti halda hunda. En Krummi sagði að það yrði þá að vera alvöru hundur, ekki eitthvert smákvikindi, og ég sem hafði verið að skoða stórfyndna pulsuhunda, þurfti því að taka u-beygju og leita að stærri hundum. Vikum saman las ég mér til um hinar ýmsu tegundir, keypti hundasálfræðibækur og hékk á síðu sem mig minnir að hafi heitið hundaspjall.is, en þetta var fyrir þann tíma þegar Facebook hafði étið allt internetið.
Á svipuðum tíma og Geir Haarde bað Guð að blessa Ísland kom þangað inn auglýsing um labrador-got á sveitabæ rétt fyrir utan Selfoss. Þegar það gerðist var ég nánast búinn að negla það að labradorar eða golden retrieverar væru málið, þeir væru svo ljúfir og góðir, duglegir að læra og með eindæmum dásamlegir. Auk þess hafði ég ekki mikið á milli handanna á þessum tíma og þessir hvolpar voru sagðir ekki með ættarbók, sem gerði þá umtalsvert ódýrari heldur en hreinræktaða hvolpa. Í símanum var mér sagt að þeir væru allir seldir nema einn og ég mætti sækja hann þegar mér hentaði, svo við dúndruðumst upp í bíl, nokkrir ógæfulegir gaukar, og brunuðum austur.
Þú varst síðastur eftir úr gotinu, líklega af því þú hafðir litla hvíta stjörnu á snoppunni, sem þykir „ræktunargalli“ eða eitthvað álíka fráleitt, og þannig æxlaðist það að þú varðst hundurinn minn. Þetta var fyrsta skiptið sem þú hafðir setið í bíl, og skyndilega var verið að taka þig frá eina heimilinu sem þú þekktir, frá mömmu þinni, ekki orðinn 4 mánaða gamlan, upp í bíl með nokkrum ógæfumönnum, rakleiðis í miðbæ borgar óttans. Og þú varst svo bílveikur að þú gubbaðir yfir alla strákana í aftursætinu, en á sama tíma svo lítill og mjúkur og krúttlegur að þér var samstundis fyrirgefið.
Þegar ég fæddist í Stykkishólmi árið 1984 áttu foreldrar mínir gulan labrador, alveg eins og þig. Hann hét einmitt Varði, en ég á engar minningar af þeim hundi þar sem hann lést áður en ég man eftir mér. En ég gaf þér nafnið hans, fannst það viðeigandi. Hann hafði víst verið lífsglaður vitleysingur, sem þú svo sannarlega varst, svo nafnið fékkstu. Þótt hvorugur ykkar hafi verið neinn einasti varðhundur, nema vissulega þetta eina bofs sem þið gáfuð gestum og gangandi.
Fyrstu vikurnar vældirðu stöðugt allar nætur og sama hvað ég reyndi
Snemma varð ljóst að það að eiga hund var margfalt flóknari framkvæmd en mig hafði grunað. Reyndar hafði mamma varað mig við því að þetta væri meiri háttar vesen, en eins og venjulega á þessum tíma hlustaði ég ekkert á hennar ráðleggingar, og skyndilega varst þú þarna, bjargarlaus lítil lífvera á heimili mínu og mitt hlutverk var að halda í þér lífinu og reyna að stöðva stöðugt flæði þvags og skíts um öll gólf. Það gekk misvel. Fyrstu vikurnar vældirðu stöðugt allar nætur og sama hvað ég reyndi að syngja og gefa þér að éta og klappa þér og venja þig á búr, þá tautaði hvorki né raulaði. Þegar ég var svo farinn að sofa við hliðina á þér á gólfinu, til þess eins að ná einhverjum svefn, gerðist það að ég braut frumregluna og leyfði þér bara að sofa upp í hjá mér, sem var bara krúttlegt, enda pínkuponsulítill hvolpur bara kósí kúrufélagi. Þegar þú varst svo orðinn 60 kílóa skepna nokkrum árum seinna og enn sannfærður um að þinn rétti staður væri uppi í rúminu hjá mér og þáverandi kærustu minni, varð það aðeins minna krúttlegt. Kannski bara öðruvísi krúttlegt.
Fyrstu tvö árin var orkan botnlaus. Þú hljópst í kringum sófaborðið. Stöðugt. Þrátt fyrir að búið væri að fara með þig út í tveggja klukkustunda göngutúr. Svo ég tók upp á því að fara með þig á Arnarhól og henda þar frisbí og spýtum klukkutímum saman þar til ég var kominn með verk í hendurnar og mér fannst þú vera orðinn þreyttur og þá fór ég með þig heim, þar sem þú hélst áfram að hlaupa eins og brjálæðingur í kringum sófaborðið. Á þessum árum var farið með þig í útreiðartúra, hjólatúra, hlaupatúra, en alltaf var næg orka í prakkarastrik þegar heim var komið. Mér var sagt að labradorar væru hvolpar í tvö ár, svo færu þeir að róast. Ég held að þú hafir verið hvolpur í öll tólf, það var bara líkaminn sem brást þér.
Á þessum fyrstu árum vann ég á búsetukjarna við Reykjalund, dásamlegum stað. Ég gat aldrei hugsað mér að skilja þig einan eftir í íbúðinni þegar ég færi til vinnu, svo ég tók þig með í vinnuna. Stundum fékkstu að vera inni, starfsfólki og þjónustuþegum (oftast) til mikillar gleði, en stundum leyfði ég þér að vera úti í bílnum mínum, sem var lítill þýskur smábíll. Þar var ég með vatn og mat fyrir þig, og heimsótti á hverjum klukkutíma, en þér tókst samt að nota tímann á milli heimsókna til þess að naga í sundur belti, rústa handbremsunni, slátra aftursætunum af því matur hafði dottið á milli þeirra, og fóðra bílinn gjörsamlega að innan í hvítum hárum sem mér tókst aldrei almennilega að losa úr og fylgdu með honum þegar hann var seldur 8 árum seinna.
Heima fyrir varstu líka duglegur að naga, þó ég eyddi fúlgu í vönduð nagleikföng sem þú vildir ekki sjá. Á meðal þeirra verðmæta sem þú nagaðir, og eyðilagðir, voru gleraugun mín, leðurstígvél, Star Trek DVD safnið mitt, allir sokkar og nærbuxur sem þú komst í, spariskórnir mínir, hurðakarmar, bækur, buxur og svo mætti lengi telja. Allt brytjað niður. Sumt étið. Ég sé ekki eftir neinu af því.
Svo fer það að gerast að ég næ mér í kærustur sem eru með hundaofnæmi. Fyrst eina sem reyndi að búa með okkur, en bæði leigusalar og hún komust að þeirri niðurstöðu á endanum að þú værir ekki inni í framtíðarplönum þeirra. Smám saman fluttir þú því á þitt lokaheimili, Steinahlið uppi í hlíðum Helgafells, heimili móður minnar og fóstra, sem svo heppilega vill til fyrir þig að er dýralæknir. Mamma hefur alla tíð verið mikil hundakona, og tók þessum óvænta sambýlingi fagnandi, en dýralæknirinn tautaði og fussaði, eins og hann reyndar gerir talsvert af. En það tók þig ekki langan tíma að vinna hug og hjörtu þeirra, litlu systkina minna sem enn bjuggu þá heima, og allra sem þangað komu. Þvílíkur gleðibolti og ljúflingur. Svo falleg sál. Svo góður strákur. En eftir þennan aðskilnað okkar hefur mér aldrei tekist að losna við helgarpabba-samviskubitið. Strákurinn minn búandi hjá öðrum en mér. Þetta stóð ekki til. En þú erfðir það aldrei við mig. Alltaf jafn sturlaður af gleði að sjá mig. Elsku kallinn minn.
Þannig hættum við að mestu að búa saman. Þessi kærasta hætti með mér, svo ég flutti brotinn heim í nokkra mánuði og þar varst þú þá til að hugga mig. Kúra uppí hjá mér með öll 60 plús kílóin. Sleikjandi tárin mín.
Sumarið 2013 var ég kominn með skipstjórnarréttindi og fór með Valda vini þínum á makríl (manstu eftir Valda? Hann er svolítið eins og labrador, bara manneskja.) Og þú komst með okkur á makríl. Fyrstu tvo sólarhringana varstu bara inni í lúkar, hreyfðir þig ekki, með hræðilega sjóveiki. Svo staulaðistu upp á dekk og pissaðir því allra mesta pissi sem ég hef séð, og varst eftir það hinn allra kátasti sjóhundur.
Stuttu seinna náði ég að plata aðra stelpu til þess að vera kærastan mín og þessi var með helmingi meira hundaofnæmi en sú síðasta. Eftir humm og ha og eina litla stelpu (manstu eftir Úu? Hún er búin að gráta mikið með mér í dag) þá fluttum við í kjallarann í Steinahlið. Þú fórst einmitt með okkur í mikinn maraþon-göngutúr þegar kærastan var enn bara ólétt og við vorum að reyna að telja litlu stelpuna á að koma í heiminn. En þetta ár sem við bjuggum í kjallaranum hjá þér var eins og ekkert hefði breyst. Þú stalst til þess að troðast inn til okkar þegar við gleymdum hurðinni opinni, fórst með mæðgunum í göngutúra, leyfðir litlu stelpunni að hnoðast í þér, toga í eyrun, geyma á þér dúkkur, pota í munninn á þér, allt með svera og flotta skottinu þínu dillandi. Þú varst svo mikill barnakall. Minni hundar hefðu glefsað, staðið upp og labbað í burtu, ekki nennt þessari meðferð, en þú bara varst þarna og leyfðir henni að leika klaufalega við þig í öll þessi ár, knúsast og kjassast, án þess að kvarta eða kvabba. Elsku kallinn, þú varst einmitt svona, svo ótrúlega góður strákur.
Svo fluttum við út. Komum jú öðru hvoru í heimsókn, og þú alltaf hoppandi kátur, ég alltaf með nagandi samviskubit, en engar daglegar samvistir. Þú hafðir vissulega köttinn framan af, þennan fjörgamla fýlupúka sem hvæsti á þig þegar þú reyndir að leika við hann. Og jú, það var þarna tautandi dýralæknirinn sem var stöðugt að gefa þér svo svakalegt magn af afgöngum að sumir dirfðust jafnvel að segja að þú værir í yfirþyngd. Svo var þarna mamma mín, sem gekk með þig hring eftir hring í kringum Helgafellið og fór með þig í hesthúsið og útreiðartúra. En samt fannst mér eins og ég hefði brugðist þér, af því við bjuggum ekki saman. Það er bara mitt.
Síðustu 3–4 ár hef ég svo fylgst með þér eldast. Stigar urðu hindrun, að komast upp í bíla varð erfitt, líklega var heyrnin farin að sljóvgast. Alltaf dillaðist skottið. Svo kom ég með annað barn í heimsókn til þín, sköllóttan lítinn strák, bara fyrir nokkrum mánuðum, og hann fékk líka að hnoðast í þér eins og Úa, toga í mjúku stóru eyrun þín, klípa í skottið sem þá hætti að dillast í smá stund. Elsku kallinn minn.
Fyrir viku var ég svo að koma af sjó og mamma sagði mér að þú værir orðinn slappur.
Fyrir viku var ég svo að koma af sjó og mamma sagði mér að þú værir orðinn slappur. Nánast hættur að borða, mikið að kasta upp, það væri líklega að „koma að þessu“. En ég gat ekki hugsað þá hugsun til enda. Alla þessa viku, þegar þetta samtal við mömmu hefur komið upp í höfuðið á mér, hef ég sett það niður í kassa og lokið á. Það hef ég gert frá því ég hitti þig fyrst, og vissi jafnvel þá og nú að þessi stund væri óhjákvæmileg.
Í nótt svaf litla barnið illa. Við erum að hætta að gefa honum mjólk í pela á næturnar og hann er ekki að taka því með neinu sérstöku jafnaðargeði og í nótt var ég á vakt. Þegar ég sat í morgun á nærbuxunum með fyrsta kaffisopann í maganum hringdi mamma. Hún gat ekki sagt það. Rétti fóstra símann. Hann sagði mér að ég þyrfti að koma. Uppköstin væru orðin svo mikil hjá þér, og þú værir alveg hættur að snerta mat, þannig það eina rétta væri að gefa þér frið. Ég lagði á og tárin byrjuðu að flæða. Nú sit ég hérna tólf tímum síðar og þau eru enn að flæða. Ég er búinn að gráta svo mikið í dag að ég var kominn með dúndrandi hausverk upp úr hádegi.
Þannig ég setti á mig sólgleraugu og keyrði upp í Mosó. Grét svo mikið á leiðinni að ég átti erfitt með akstur. Og í Steinahlið lástu á púðanum þínum, horaður og máttvana, en um leið og þú sást mig fór skottið að slást til, eins og alltaf. Ég lagðist hjá þér og nuddaði þig allan sundur og saman, nuddaði eyrun þín, sem þér fannst alltaf svo þægilegt, svo þú rumdir, klóraði hrygginn og mallann. Fann lyktina af magasýrunum, því þú hafðir verið gubbandi undanfarna daga. Knúsaði þig samt. Einhverju seinna kom svo dýralæknirinn, sem hafði fussað þegar þú fluttir inn fyrir mörgum árum en varð svo á endanum einn besti vinur þinn. Hann hélt á nokkrum sprautum. Sú fyrsta gerði þig rosalega þreyttan, en þú sleiktir á mér lófann og hélst áfram að rymja þegar ég nuddaði á þér eyrun. Ég veit ekki nákvæmlega hvað næstu sprautur gerðu, en þarna sofnaðirðu á endanum í fanginu á mér, við báðir liggjandi hlið við hlið eins og í gamla daga og þú fórst að hrjóta svo hátt og fallega og ég grét og horið og tárin láku inn í feldinn þinn. Ég strauk mjúku stóru eyrun þín, stóra fallega skrokkinn þinn, hrjúfu loppurnar og einlægu augun. Ég strauk og þuklaði og klappaði þér á meðan þú sofnaðir, sagði bara „takk“ í ekkasogunum. Takk fyrir allt. Og fyrirgefðu að ég var ekki meira með þér. Fyrirgefðu. Og andardrátturinn varð þyngri og það lækkaði í hrotunum og ég sagði þér að ég væri þarna hjá þér. Væri ekki að fara neitt. Ég sagði við Guð að þú hefðir verið svo ótrúlega, ótrúlega góður strákur, að þú ættir ekkert nema það besta skilið í næstu jarðvist. Bað hann að gera alveg sérstaklega vel við þig. Elsku litla strákinn minn. Áður en ég eignaðist þig vissi ég ekki að það væri hægt að vera svona góður. Svo varð andardrátturinn stuttur. Svo ofboðslega stuttur og ég gnísti tönnum, kreisti feldinn þinn, fann þig fara, lá hjá þér þangað til eyrun voru farin að kólna. Lagði yfir þig köflótta teppið. Lagði hendurnar á hausinn þinn.
Stuttu seinna héldum við vinur þinn dýralæknirinn á þér út í bílinn minn, á dýnunni þinni. Þar fórum við saman í síðasta bíltúrinn. Manstu hvað við fórum í marga bíltúra þegar þú varst lítill? Bara ég og þú, alltaf í litla hvíta bílnum sem þú nagaðir allan að innan. Og lyktin af magasýrum sem lá yfir fyrstu bílferðinni okkar var líka í þessari. Við fórum víða saman og ég hefði getað verið betri en ekki þú.
Svo um kvöldið horfðum við Úa og mamma hennar á Marley and Me og átum pitsu og nammi og grétum og hugsuðum um þig og sögðum sögur af þér. Ég horfði stundum á þessa bíómynd þegar þú varst hvolpur og grét líka alltaf þá af því ég vissi að dagurinn í dag ætti eftir að koma einhvern tímann. En ég setti lok á það. Og í dag var lokið tekið af, daginn sem ég kvaddi þig, fallegustu sál sem ég hef kynnst. Og ég á ekkert til þess að gefa neitt betra nema tárin mín og orðin. En ég vona að í næstu jarðvist fáum við að hittast aftur, þá fæ ég kannski að vera hundurinn og þú eigandinn, ég er viss um að þér þætti það skemmtilegt. Og þá fæ ég vonandi, bara vonandi, að vera jafn innilegur og góður vinur þinn og þú varst minn.
Tólf ár eru langur tími. Það er þriðjungur af ævi minni. Takk fyrir að vera samferða mér þennan tíma. Takk fyrir alla ástina. Fyrir allan skilyrðislausa kærleikann. Takk, elsku vinur, elsku litli strákurinn minn. Takk.
Athugasemdir