Óheimilt er fyrir komufarþega á Keflavíkurflugvelli að taka strætisvagn eða rútu frá Leifsstöð. Þetta kemur fram í tilkynningu Landlæknis og gildir frá og með deginum í dag.
Komufarþegar geta nú valið um 14 daga sóttkví eða tvær sýnatökur. Sú fyrri er við landamærin, en sú síðari eftir 5 til 6 daga sóttkví.
„Frá því að farið er frá landamærastöð gilda reglur um sóttkví,“ segir í tilkynningu Landlæknis. „Þegar sýnatöku er lokið skal halda rakleiðis á sóttkvíarstað með einkabíl, bílaleigubíl eða leigubíl. Ef brýna nauðsyn ber til má gista eina nótt í sóttkví nærri landamærastöð áður en ferðast er til endanlegs dvalarstaðar í sóttkví.“
Felur ráðstöfunin í sér nokkurn aukakostnað fyrir komufarþega. Ef vinur eða ættingi getur ekki sótt þá með tilheyrandi eldsneytis- og tækifæriskostnaði þurfa þeir að leigja sér bílaleigubíl á vellinum eða taka leigubíl ef áfangastaður er á Suðurnesjum eða höfuðborgarsvæðinu. Er kostnaður við slíka ferð leigubíla frá 15.500 til 21.990 kr. ef skoðaðar eru verðskrár Hreyfils og BSR.
Óljóst er í reglunum hverjum er heimilt að sækja komufarþega á flugvöll. Ekki kemur fram hvort ökumaður þurfi að vera heimilismaður komufarþega eða hvort viðkomandi þurfi einnig að fara í sóttkví eftir ferðina. Í sóttkví „má ekki umgangast aðra en þá sem deila heimilinu og gæta skal fyllsta hreinlætis og reyna að halda a.m.k. 1-2 m fjarlægð í samskiptum við aðra heimilismenn,“ segir í tilkynningunni.
Athugasemdir