Ósonmeðferð er sögð lækna Covid-19 smit í skopmynd sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Notkun efnisins er skaðleg, að mati heilbrigðisyfirvalda á heimsvísu, en höfundur skopmyndarinnar segir ljóst af myndböndum á netinu að hún virki.
Skopmyndin er eftir Helga Sigurðsson og er hún af umdeildum bandarískum lækni, Robert Rowen, sem notast við gastegundina óson til að lækna ýmsa kvilla og sjúkdóma. Á myndinni er netslóð á YouTube síðu Roberts þar sem má finna fjölda myndbanda þar sem skjólstæðingar Roberts lýsa því hvernig meðferð hans hafi lagað ýmis heilsuvandamál þeirra. Undir skopmyndinni stendur svo: „Covid lækning sem fellur ekki að heimsmyndinni.“
Segir Rowen að aðferðin virki meðal annars á krabbamein, Alzheimer, Parkinson og nú nýverið á Covid-19. Meðferðin virkar þannig að gastegundinni óson er sprautað í fólk og á gasið að drepa bakteríur og vírusa. Þekkt er að óson getur virkað gegn bakteríum og vírusum, en það vinnur einnig skaða á líkamanum og viðurkenndar vísindarannsóknir hafa ekki náð að staðfesta virkni meðferðanna.
Meðferð Rowen er ekki samþykkt neins staðar í heiminum og hefur lyfjastofnun Bandaríkjanna ítrekað sent út tilkynningar þess efnis að hún geti verið skaðleg. Þá er meðferðin bönnuð sem læknismeðferð í Bandaríkjunum. Þá segir lyfstofnunin að engar vísindalegar sannanir sýni fram á virkni óson meðferðar. Fólk hefur látist við að nýta sér þessa meðferð víða um heim og hafa yfirvöld víða um heim handtekið fólk sem stundar þessa meðferð.
Rowen rekur læknastofu sína ásamt eiginkonu sinni, en hún starfar einnig þar sem læknir. Aðsetur læknastofunnar er í Santa Rosa í Kaliforníuríki Bandaríkjanna. Í lok febrúar á þessu ári voru þau hjónin handtekin og ákærð fyrir skattsvik. Segja skattyfirvöld að hjónin hafi komið um 544 milljónum íslenskra króna undan skatti.
Í samtali við Stundina segir Helgi Sigurðsson, skopmyndateiknari Morgunblaðsins, að hann hafi horft á fjölmörg myndbönd á heimasíðu Rowen. Segir hann að þar sjáist hvar aðferð hans hafi læknað meðal annars einstakling smitaðan af Covid-19.
„Það kemur þarna maður sem kemur þarna inn og er með Covid-19, það er búið að staðfesta það. Það er bara hægt að skoða það á þessari síðu. Maðurinn stendur svo upp og er bara hress.“
Vill benda á þetta þrátt fyrir að vera ekki læknir
Helgi segir einnig að þessi aðferð sé vel þekkt í Evrópu og sé búið að notast við hana í yfir 100 ár. „Það er verið að reyna halda honum niðri af því hann er að nota aðferð sem búið er að nota í Evrópu í yfir 100 ár. Tesla var einn af þeim fyrstu til að reyna nota þessa aðferð. Svo var þetta notað í vígvöllum í Fyrri heimsstyrjöldinni til að sótthreinsa sár og annað. Þetta verður til við eldingar í gufuhvolfinu og er talið vera náttúrulegt sótthreinsandi efni. Ég er náttúrulega ekki læknir, ég er bara að benda á þetta.“
„Ég er náttúrulega ekki læknir, ég er bara að benda á þetta“
Bretar prófuðu að notast við óson gas á Queen Alexandra herspítalanum í London í fyrri heimsstyrjöldinni á sár. Var gasinu spreyjað á sár og sótthreinsaði það sárið. Hins vegar skaðaði það líkamsvef sjúklingsins það mikið að ekki var notast við þessa aðferð oftar.
Í samtali við Stundina segir Ágúst Kvaran, prófessor í efnafræði við Háskóla Íslands, að óson sé mjög oxandi efni sem er fljótt að brjóta niður önnur efni sem það komist í snertingu við. „Óson er mjög fljótt að brjóta niður hluti, meðal annars prótein og fitu í líkamanum. Það getur alveg brotið niður veirur líka, en það er þá ekki það eina sem það brýtur niður í líkamanum á sama tíma.“
Trúir að meðferðin virki gegn Covid-19
Helgi segist eftir að hafa horft á myndbönd á YouTube síðu Rowen að það sé augljóst að meðferðin virki þar sem viðbrögð fólks sjáist greinilega.
„Ég bara vísa það sem er á vefsíðunni, það er bara auðséð að fólkið er ekkert að ljúga. Við erum náttúrulega gædd þeim eiginleikum að getað lesið úr svipbrigðum, raddblæ og viðbrögðum fólks. Ef það er eitthvað til sem getur gefið okkur leið út úr þessu Covid, þeir sem eru með Covid. Ég ætla ekkert að fara í stríð við Kára Stefánsson eða þríeykið eða Svandísi Svavarsdóttur eða þig eða neitt. Ég er bara að benda á þetta.“
„Ég ætla ekkert að fara í stríð við Kára Stefánsson eða þríeykið“
Spurður hver tilgangur myndarinnar væri segir Helgi að hann vildi bara koma af stað jákvæðri umræðu. „Það eru náttúrulega ákveðin öfl sem eru ekki hrifin af svona alternative aðferðum, þó að þetta hafi nú komið á undan öllu hinu.“
Vill að notkun óson verði skoðuð á Íslandi
Þegar blaðamaður Stundarinnar benti Helga á að engar vísindalegar rannsóknir sýni fram á að óson virki, eins og Rowen haldi fram að það geri í myndböndum sínum, segir hann að það sé hægt að sjá að þessi aðferð virki á fólkinu sem fari í meðferð til hans.
„Það er bara hægt að sjá það á fólkinu sem fær þetta meðferð. Menn eru alltaf að rannsaka eitthvað, en það er aldrei horft á hvort það virkar eða ekki skilurðu. Ég ætla ekkert að fara dýpra í þetta, ég er enginn sérfræðingur í þessu. Ef fólk treystir þessum vísindamönnum og krabbameinslæknum þá gerir það bara það.“
Aðspurður hvort það sé ábyrg hegðun á tímum Covid-19 að birta skopmynd af þessu tagi segir hann að það eigi að skoða þennan möguleika þar sem þetta gæti verið raunhæft tól í baráttunni við Covid-19 hér á landi.
„Er kannski hægt að fá svona tæki hérna á vegum yfirvalda, er það möguleiki?“
„Ég hef enga þekkingu á að verja þetta, standa í einhverjum paneluviðræðum við einhverja sérfræðinga og gera mig af fífli. Þetta er ekkert ábyrgðarhluti, það er ekkert verið að bjóða upp á þetta. Ef það kemur upp svona umræða upp á milli fólks sem þekkir inn á þetta. Ef það síðan kemur í ljós að þetta sé raunhæfur möguleiki þá getum við prófað þetta. Í staðinn fyrir að bíða eftir einhverju bóluefni í 6 mánuði eða 12 mánuði, það er eitthvað fólk hérna veikt. Er kannski hægt að fá svona tæki hérna á vegum yfirvalda, er það möguleiki? Hugsanlega getur þetta hjálpað fólki og ég hef trú á því að þetta sé í lagi.“
Athugasemdir