Meirihlutinn í borgarstjórn segir Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, sýna eineltistilburði og stunda „niðurrifs- og ofbeldishegðun“. Vigdís hefur ítrekað kvartað yfir því að Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara, sitji sömu fundi og hún. Kvartaði hún á ný á fundi borgarráðs í gær þegar Helga Björg tók sæti með fjarfundarbúnaði undir lið ásamt öðrum starfsmönnum þar hún hafði komið að undirbúningi málsins sem var til umræðu.
„Það er ekki sæmandi borgarfulltrúa sem er í valdastöðu að ráðast ítrekað að einni manneskju sem er eingöngu að sinna starfsskyldum sínum og sem hefur ekki sama aðgang að opinberri umræðu og borgarfulltrúinn,“ segir í bókun meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata á fundi borgarráðs. „Árásir borgarfulltrúans á starfsfólk borgarinnar og áður ríkisins þegar hún gegndi stöðu þingmanns eru henni nú, sem fyrr - til skammar. Virðist eina fyriráætlun borgarfulltrúans vera að grafa undan innviðum borgarinnar sem gengur með öllu gegn hagsmunum borgarbúa.“
Vigdís hefur kvartað til Vinnueftirlitsins vegna málsins, en eineltis- og áreitnisteymi ráðhúss Reykjavíkur hóf að rannsaka kvartanir Helgu Bjargar vegna framgöngu Vigdísar í sinn garð um mitt ár í fyrra. „Þar sem Vigdís Hauksdóttir vildi ekki vinna að því að leiða málið til lykta og svara þeim erindum sem henni bárust var ekki hægt að aðhafast í málinu og því það látið niður falla,“ segir í bókun meirihlutans. „Það að mál sé látið niður falla vegna þess að Vigdís Hauksdóttir var ósamvinnuþýð er af og frá fullnaðarsigur hennar heldur merki um kjarkleysi hennar að horfast í augu við eineltistilburði sína og láta af slíkri niðurrifs- og ofbeldishegðun.“
Skrifstofustjórinn eiga að forðast sig samkvæmt eineltisfræðum
Vigdís svaraði bókuninni með sinni eigin, sagði „eitrað eineltis andrúmsloft“ í ráðhúsinu og að nýir borgarfulltrúar væru fljótir að læra eineltis vinnubrögðin. „Ef einhver fótur væri fyrir einelti af minni hálfu á hendur skrifstofustjóra Dags B. Eggertssonar, þá segja eineltisfræðin að viðkomandi ætti að forðast mig en ekki sækja í að sitja fundi þar sem ég er. Auðvitað lét ég ekki þvæla mér inn í heimatilbúinn, ólöglegan rannsóknarrétt ráðhússins sem stofnaður var mér til höfuðs. Nú gengur meirihlutinn fram með bókun sem inniheldur meiðyrði og miklar ásakanir í minn garð,“ sagði Vigdís.
„[...] sem embættiskona get ég ekki rökrætt við kjörna fulltrúa á opinberum vettvangi“
Helga Björg tjáði sig í fyrsta sinn opinberlega um málið í Facebook færslu í júní. Sagðist hún hafa takmarkaða möguleika á að bregðast við „samfelldri og súrrealískri atburðarás“ síðustu tveggja ára. „Í þessu samhengi er mikilvægt að taka fram að sem embættiskona get ég ekki rökrætt við kjörna fulltrúa á opinberum vettvangi, enda ber mér að vinna með fulltrúum allra flokka og framkvæma ákvarðanir þeirra. Allar mótbárur við ávirðingum kjörinna fulltrúa gætu rofið þann trúnað sem þarf að vera til staðar gagnvart núverandi borgarfulltrúum og borgarfulltrúum framtíðar.“
Athugasemdir