Eftir tímamótasigur Brexit-sinna í bresku þjóðaratkvæðagreiðslunni og jafnóvæntan sigur Trumps í bandarísku forsetakosningunum árið 2016 skrifaði ég pistil fyrir Stundina þar sem ég leitaði skýringa á ófyrirséðri hegðun kjósenda. Mér þóttu lýðhyggjuskýringar rista of grunnt. Það er ekki raunveruleg skýring á kosningahegðun að hugmyndir séu vinsælar meðal óupplýsts fólks eða höfði til lægsta mögulega samnefnarans. Lýðhyggja (popúlismi) getur birst í afar ólíkum myndum á ólíkum stöðum og þarf ekki að eiga neitt efnislega sameiginlegt – samanber kenningar um andstæða póla vinstri og hægri lýðhyggju. Rómverjar vildu „brauð og leiki“; Bretar vilja „bjór og fótbolta“; en það er grunnfær skýring að fólk velji kosti í kjörklefanum eingöngu út frá órökvísum hugþokka – eins og það velur eina tegund af bjór fram yfir aðra.
Þótt ekki séu mörg ár síðan þessi grein var skrifuð er sumt í henni orðið úrelt nú þegar og þarfnast uppfærslu, ekki síst í ljósi nýrrar sjálfsmyndarhyggju sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur verið að hnýta í nýverið í Morgunblaðsgreinum og hefur aukið umráðasvæði sitt stórlega á síðustu árum.
Rétt er að rifja fyrst upp nokkur sístæð sannindi úr eldri grein minni. Hugtökin „hægri“ og „vinstri“ hafa alla tíð verið fremur óheppileg til flokkunar á stjórnmálaskoðunum, ekki síst í nútímanum. Þessi hugtök eiga að dekka tvo ása í stjórnmálum, en gallinn er sá að hvor ásanna er tvískiptur. Í Bandaríkjunum eru hugtökin „hægri“ og „vinstri“ umfram allt notuð til að flokka fólk eftir afstöðu til félagslegs frelsis andstætt (lagalegu, formlegu) félagslegu taumhaldi, eins og þessi afstaða birtist í tilteknum málaflokkum á borð við fóstureyðingar, líknardráp og réttindi samkynhneigðra. Í Evrópu eru hugtökin „hægri“ og „vinstri“ fremur notuð um afstöðu til viðskiptafrelsis andspænis ríkisafskiptum. Þessi munur breytir því ekki að afstaða til félagslegs og efnahagslegs frelsis helst alls ekki alltaf í hendur og a.m.k. fjórir kostir bjóðast (með mátulegri einföldun):
- Mikil áhersla á félagslegt frelsi og viðskiptafrelsi: frjálshyggja (libertarianism)
- Mikil áhersla á viðskiptafrelsi en lítil á félagslegt frelsi: íhaldsstefna
- Mikil áhersla á félagslegt frelsi en lítil á viðskiptafrelsi: frjálslyndisstefna (liberalism)
- Lítil áhersla á viðskiptafrelsi og félagslegt frelsi (í ofangreindum skilningi): jafnaðarstefna
Í eldri grein minni færði ég rök fyrir því að enginn þessara kosta (eða tilfærsla kjósenda milli þeirra) hrykki til að skýra hvað gerðist t.d. í Brexitkosningunum í Bretlandi. Ég vísaði m.a. til þess að kjósendur Verkamannaflokksins í Norður-Englandi, sem flestir kusu með Brexit, gætu varla hafa gert svo í krafti andstöðu við félagslega frelsið sem Evrópusambandið hefur sett á oddinn. Nýleg skoðanakönnun í Bretlandi – eftir óvæntan stórsigur Íhaldsflokksins í þingkosningum fyrir tæpu ári – bendir hins vegar til þess að ég hafi verið of fljótur á mér. Skoðanakönnunin leiddi í ljós miklu meiri skoðanaágreining milli almennra kjósenda Verkamannaflokksins og þingmanna hans, annars vegar, og milli almennra kjósenda Íhaldsflokksins og þingmanna hans, hins vegar, en flesta stjórnmálaskýrendur hafði órað fyrir. Í sem stystu máli telja stuðningsmenn Verkamannaflokksins að þingmenn flokksins leggi alltof mikla áherslu á félagslegt frelsi og stuðningsmenn Íhaldsflokksins að þingmenn flokksins leggi alltof mikla áherslu á viðskiptafrelsi. Þessi könnun hefur ekki breytt miklu um stefnumótun Verkamannaflokksins ennþá, að séð verður, en Boris Johnson, sem hefur byggt allan feril sinn á að laga sig að almenningsálitinu og tryggja sér persónulegar vinsældir, hefur fært Íhaldsflokkinn svo langt til „vinstri“ nú þegar á ás viðskiptafrelsis að Thatcher hlýtur að snúa sér við í gröfinni. Að ríkið borgi 50% af matarreikningum fólks í veitingahúsum á mánudögum-miðvikudögum í ágúst er svo róttæk útfærsla á ríkisafskiptum í efnahagsmálum að jafnvel hörðustu jafnaðarmönnum hefði aldrei dottið neitt þvílíkt í hug.
Þótt mér hafi skjátlast að einhverju leyti um hvað gerðist handan „rauða múrsins“ í Norður-Englandi í Brexit-kosningunum – og enn frekar í þingkosningunum á síðasta ári þegar flest traustustu vígi Verkamannaflokksins féllu – þá held ég að almenn kenning mín í gömlu greininni eigi við rök að styðjast. Auk ásanna tvívíðu um félagslegt og efnahagslegt frelsi þá eru a.m.k. tveir aðrir ásar orðnir jafnmikilvægir til að spá fyrir um kosningahegðun. Þriðji ásinn varðar afstöðu til þjóðernishyggju andspænis alþjóðahyggju og fjórði ásinn afstöðu til verðleikahugmyndar um kosti og árangur fólks í lífinu andspænis félagsmótunarhyggju sem skrifar árangur fremur á reikning uppeldis og ytri áhrifavalda. Fjöldi fólks í Bretlandi kaus viljandi gegn eigin efnislegu hagsmunum til að stemma stigu við aukinni alþjóðahyggju og fjöldi kjósenda í Bandaríkjunum hefur afhverfst Demókrata vegna minnkandi áherslu þeirra á að hver einstaklingur sé sinnar eigin gæfu smiður, sem er hvorki meira né minna en kjarni „ameríska draumsins“.
Skýra þessi nýju „fjórvíðu“ stjórnmál nútímans þá kosningahegðun betur en gömlu tvívíðu „hægri-vinstri“ stjórnmálin og hin fremur loðmullulega skýring, „lýðhyggja“? Já, ég stend á því fastar en fótunum. En síðustu 2-3 ár virðist mér sem stjórnmálaafstaða sé orðin fimmvíð fremur en fjórvíð og að hættulegt sé að horfa framhjá nýja fimmta ásnum. Þetta er afstaðan til manneðlishyggju andspænis sjálfsmyndarhyggju, t.d. í samhengi spurningarinnar hvort kynferði sé eðlislægt eða eingöngu sjálfvalið kyngervi. Ég held að afstaðan á þessum ás sé ekki bara hin hverfan á sama fati og afstaðan til verðleikahugmyndar andspænis félagsmótunarhyggju, þannig að verðleikasinnar séu óhjákvæmilega manneðlissinnar og félagsmótunarsinnar séu sjálfsmyndarsinnar. Ég þekki til dæmis ýmsa félagsmótunarsinna sem eru harðir andstæðingar sjálfsmyndarhyggju þar sem þeir telja hana lykta af sjálfdæmishyggju (þýð. Páls Skúlasonar á súbjektívisma) sem ekki taki með í dæmið félagslegan uppruna hugmynda okkar um sjálf okkur. Það sé til dæmis fáránlegt að nokkur geti upp á eigin spýtur ákveðið hvort hann eða hún sé karl eða kona. Á hinn bóginn eru til verðleikasinnar um árangur sem ganga svo langt í hugmyndinni um að hver sé sinnar eigin gæfu smiður að þeir væru til með að samþykkja hugmyndina um að „sjálf“ okkar sé ekki annað en „sjálfsmynd“, þ.e. sú mynd sem við gerum okkur af sjálfum okkur, þ.á.m. af kyngervi okkar.
Ég hygg að greining á stefnum og straumum í stjórnmálum nútímans sem ekki tekur mið af þessum nýju „ásum“ og flóknu samspili þeirra hljóti að missa marks. Greining á „pólitískri rétthugsun“, sem margir virðast hafa áhyggjur af þessa dagana, verður til dæmis að skoða á hvern hátt hún er rökrétt og eðlilegt framhald af (eða ranghverfan á, eftir því hvernig á það er litið) vissu samblandi félagslegrar frjálslyndisstefnu, félagsmótunarhyggju og sjálfsmyndarhyggju. Á sama tíma eru líka til verðleikasinnar sem amast við „óvarlegum orðum“ og „groddalegum húmor“ vegna þess að slík dæmi um pólitiska ranghugsun grafi undan verðleikum þeirra sem fyrir verða. Einhverjir myndu orða þetta svo að pólitísk rétthugsun geti þannig átt uppruna sinn bæði til vinstri og hægri í stjórnmálum, en eins og ég hef reynt að skýra hér að ofan tel ég að þeir tveir gömlu ásar séu ekki lengur fullnægjandi til að skýra hinar síflóknu kvíar sem fólk skipar sér í og stýra kosningahegðun þess.
Ég hef viljandi ekki tekið neina efnislega afstöðu til allra þeirra ása og kosta sem ég hef kynnt til sögu hér að ofan. Það væri efni í annan og miklu lengri pistil. Ég vara einvörðungu við einfeldningslegum skýringum á sjálfsmyndarhyggju eða pólitískri rétthugsun sem „marxískum öfgahreyfingum“ – svo að vitnað sé í nýlegar Morgunblaðsgreinar Sigmundar Davíðs. Marxismi og aðrar kenningar sem smætta stjórnmálaumræðu í efnhagsrök (sbr. einnig fræg ummæli Clintons, „It’s the economy, stupid“) eiga ekki lengur við í nútímanum. Þjóðmálaumræðan er ekki lengur tvívíð – hægri eða vinstri, Marx eða Milton Friedman – eins og hún var við íslensk eldhúsborð þegar ég var að alast upp á ofanverðri 20. öld. Hún er a.m.k. fjórvíð, ef ekki fimmvíð, og sífelldum breytingum undirorpin á hraðfleygri samfélagsmiðlatíð.
Kristján Kristjánsson er prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham
Athugasemdir