Stjórmálaspekingar og dálkahöfundar hafa undanfarið leitað með logandi ljósi að skýringum á sigrum Brexit-sinna og Donalds Trumps í tímamótakosningum beggja vegna Atlantsála. Skýringarnar hafa spannað allt sviðið frá hegelskri hughyggjugreiningu – um hvernig sigurvegararnir hafi náð að tengja sig betur við nýjan aldaranda þar sem stjórnmál hafi verið „karnívalíseruð“ úr átökum röksemda yfir í skemmtiatriði – til marxískrar efnahagsgreiningar á viðbrögðum lægri miðstéttar og efri lágstéttar við efnahagslegum afturkippum. Öllum virðist þó bera saman um að erfitt sé að flokka „þögla meirihlutann“ sem kaus Brexit og Trump eftir hefðbundnum pólitískum markalínum. Ég ætla hér að freista þess að leggja ögn af mörkum til síðastnefnda umræðuefnisins.
Hægri og vinstri og tvívíða greiningin
Það kveður stundum við að flokkunin í „hægri“ og „vinstri“ sé úrelt í nútímanum. Þó að það sé ef til vill of djúpt í árinni tekið, eins og ég skýri hér á eftir, þá er vissulega skrýtið að flokkun á þeim sem sátu hægra megin við þingforsetann (aðallinn) og vinstra megin (borgararnir) í Frakklandi á 18. öld skuli enn halda velli á 21. öldinni. Staðreyndin er samt sú að tvívíð flokkun á stjórnmálaskoðunum eftir tvenns konar hægri-vinstri ásum – öðrum efnahagslegum, hinum félagslegum – hefur til skamms tíma náð að fanga vel helstu brotalínur í stjórmálum Vesturlanda. Annars vegar er afstaða fólks til viðskiptafrelsis og ríkisafskipta (mikið frelsi „til hægri“ og lítið „til vinstri“); hins vegar til félagslegs frelsis, svo sem réttarins til fóstureyðinga eða hjúskapar óháð kynhneigð (mikið frjálslyndi „til vinstri“ en meiri íhaldsemi „til hægri“).
Vissulega má deila um hvar nákvæmlega má stilla tilteknum flokkum eða flokksmönnum inn í þetta líkan (eins og ég hef reynt að gera hér til gamans). Margir Demókratar í Bandaríkjunum (s.s. Bernie Sanders) eru t.d. nær Frjálslynda flokknum en Verkamannaflokknum í Bretlandi hvað varðar félagslegt frelsi; og á tíma Blairs færðist Verkamannaflokkurinn nær Íhaldsflokknum á ás viðskiptafrelsis en Frjálslynda flokknum á ás félagslegs frelsis, þó að hann hafi nú, undir stjórn Corbyns, hrokkið að mestu í gamla gírinn.
Þeir sem bera brigður á gildi hugtakanna „hægri“ og „vinstri“ benda réttilega á að þetta tvívíða líkan gefi mjög mótsagnakennda mynd af afstöðu róttækrar frjálshyggju og kommúnisma. Klassískir frjálshyggjmenn eru langt „til hægri“ á ás viðskiptafrelsis en lengst „til vinstri“ á ás félagslegs frelsis þar sem þeir eru miklir hatursmenn allra boða og banna; öfugu máli gegnir svo um kommúnistana. Þetta er vissulega rétt þegar um jaðarskoðanir er að ræða. Engu að síður er unnt að bera kennsl á pólitískar erkitýpur sem fanga vel vinstri-hægri hugsunina á báðum ásum. Mike Pence, varaforsetaefni Trumps, er t.d. hægra megin við miðju hvað varðar bæði félagslegt frelsi og viðskiptafrelsi og Bernie Sanders vinstra megin við miðju á báðum ásum. Þeir eru þannig ótvíræðir og sannnefndir hægri og vinstri menn. Báðum megin Atlantshafs hefur fólk líka lagað „vinstri-hægri“ orðræðuna að eigin aðstæðum. Í Bretlandi, þar sem þorri fólks er tiltölulega frjálslynt félagslega, hefur hugtakið „hægri“ að mestu færst yfir á viðskiptaásinn einan; í Bandaríkjunum þar sem frjálshyggja um viðskipti er algengara viðmið, en meiri deilur um félagslegt frelsi, hefur hugtakið „hægri“ fremur tengst þeim sem eru hallir undir félagslega íhaldsemi. Í raun er Bandaríkjamönnum ekki eins tamt að nota hugtakaparið „hægri-vinstri“ og okkur; þeir sjá fremur stærstu pólitísku víglínuna liggja milli frjálslyndra og íhaldssamra (og eiga þá umfram allt við félagslegt frelsi).
Hvar flokkast fylgismenn Brexit og Trumps?
Þeir sem halda fast í gömlu ásana tvo sem einhlít leiðarmerki um pólitíska afstöðu eiga í erfiðleikum með að flokka þögla meirihlutann sem kaus Brexit og Trump. Ein tilgátan er sú að niðurstaðan sé andóf gegn félagslegri frjálslyndisstefnu (e. liberalism). Það er vissulega rétt að heittrúarfólk í Bandaríkjunum, sem er félagslega íhaldsamt, kaus Trump (með óbragð í munninum), en það fólk kaus líka Mitt Romney og John McCain gegn Obama, og ekkert bendir til þess að félagslegt frjálslyndi í Bandaríkjunum hafi minnkað síðan þá. Þetta kann að vísu að breytast smám saman á næstu áratugum skv. lýðfræðispám, þar sem trúaða fólkið eignast mun fleiri börn, en enn sem komið er telst talsverður meirihluti Bandaríkjamanna fylgjandi frjálsum fóstureyðingum og hjónaböndum samkynhneigðra. Þetta er enn skýrara í Bretlandi þar sem lágstéttarfólkið í Norður-Englandis sem valdi Brexit verður seint talið félagslega íhaldsamt. Á móti þessu vegur að margir aðdáendur Trumps sögðust vera í krossferð gegn „neo-liberalism“. En því er til að svara að „liberalism“ er í raun rangnefni fyrir þessa umdeildu stefnu; hún snýst fremur um efnahagslega frjálshyggju (e. libertarianism) með alþjóðlegu ívafi en félagslega frjálslyndisstefnu.
Voru sigrarnir þá uppreisn gegn efnahagslegri frjálshyggju? Enn og aftur er það hæpin túlkun. Meirihluti kjósenda Trumps kaus líka frambjóðendur Repúblikana til þings og þeir geta fæstir talist hatursmenn frjálshyggju. Einn stærsta þemað í kosningabaráttu Trumps var andsvar gegn ofvexti ríkisvalds og miðstýringar: rífa báknið og ræsa út mýrina. Slík skoðun er samþýðanleg frjálshyggju fremur en andóf gegn henni. Frjálshyggjan sem barist var gegn var tiltekin gerð frjálshyggju um alþjóðaviðskipti, ekki frjálshyggja almennt.
Þurfum við tvo nýja ása – fjórvíð stjórnmál?
Tilgáta mín er sú að við þurfum tvo nýja ása til að lýsa flokkun stjórnmálaskoðana á 21. öldinni, auk hinna tveggja gömlu – og að þessir tveir nýju ásar skýri best hvað sérkenndi kjósendur Brexit og Trumps.
Fyrri ásinn er tiltölulega einfaldur: alþjóðahyggja andspænis afmörkunarhyggju. Ég nota „afmörkunarhyggju“ hér sem hlutlausara orð en „einangrunarhyggju“. Hugmyndin er sú að réttindi og skyldur (og stundum manneðlið sjálft) séu á einhvern hátt afstæð og afmörkuð við tiltekna hópa fólks: þjóð, kynþátt, trú, kyn, kynhneigð og svo framvegis. Sum afbrigði þessarar hyggju eru algengari meðal hægri-sinnaðs fólks; en það er ekki einhlítt. Sterk þjóðernishyggja er t.d. mjög algeng meðal eldri kjósenda breska Verkamannaflokksins: nákvæmlega þess hóps sem skipti sköpum í Brexit-kosningunni. Alþjóðahyggjan gengur út frá þeirri forsendu að mannkynið sé einnar ættar, homo sapiens, og að það sem sameinar fólk sé mun veigameira en það sem aðskilur. Þess vegna þurfi afar sterk rök til að gera mannamun á grunni einhverrar afmörkunar í hópa eftir landamærum, trú eða kynþáttum. Alþjóðahyggja gengur þvert á hægri-vinstri ásana. Bæði kommúnistar og róttækir frjálshyggjumenn eru t.d. alþjóðasinnar. Ég hygg að þessi þriðji ás hrökkvi langt til að skýra hvað skipti leiðum í kosningunum með og móti Brexit og Trump. Það er t.d. mjög upplýsandi að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, sem sjaldan heldur uppi merki Demókrata í íslenskum fjölmiðlum, tók svo eindregna afstöðu gegn Trump sem andófsmanni alþjóðaviðskipta.
Ég held samt að þessi þriðji ás sé ekki fullnægjandi til að fanga strauma tímans í stjórnmálum. Fyrir aldarfjórðungi skrifaði bandaríski heimspekingurinn Samuel Scheffler umtalaða grein þar sem hann velti fyrir sér þeirri spurningu hvers vegna í ósköpunum bandarískir Demókratar ynni ekki allar kosningar þegar þess væri gætt að allir helstu vitundarvakar almennings í „kjaftastéttunum“ svokölluðu – þáttastjórnendur, háskólaborgarar og skemmtikraftar – boðuðu eindregna frjálslynda lífssýn. Niðurstaða Schefflers var sú að þótt tiltekin félagsleg réttindamál nytu vaxandi lýðhylli, þá væru ýmsar frumforsendur frjálslyndisstefnunnar fleinn í holdi þorra almennings: forsendur sem rekja má aftur til endurreisnarhugsuða á 18. og 19. öld og helsta heimspekings frjálslyndisstefnunnar á þeirri tuttugustu: John Rawls. Þessar forsendur gera ráð fyrir því að enginn „verðskuldi“ í raun afrakstur ákvarðana sinna þar sem enginn beri fulla ábyrgð á þeim alla leið niður til afkima sjálfsins, heldur séu þær afurð flókins samspils erfða og uppeldis. Þetta leiðir af sér „jafnvirðishugmynd“ um fólk: allir einstaklingar hafi á endanum sama siðferðisgildi þar sem þeir séu allir að jafnlitlu leyti sinnar eigin gæfu smiðir. Ein fjarvirk afleiðing þessara forsendna er svo „pólitísk rétthugsun“ sem – þótt hún birtist stundum í afkáralegum myndum – er í grunninn ekkert nema óbrotin áminning um jafnvirði fólks óháð öllum merkimiðum.
Scheffler bendir á að þessi hugmynd sé mjög framandi mörgu venjulegu fólki sem hampi „verðleikahugmynd“: að fólk beri óskoraða ábygð á eigin ákvörðunum og beri að njóta eða gjalda afleiðinga þeirra, enda hafi það mismikla verðleika til að bera í krafti þeirra (hryðjuverkamaðurinn minni en Nelson Mandela o.s.frv.). Ég þekki þessa togstreitu vel á eigin skinni. Þó að ég teljist mjög vinstri-sinnaður á ás félagslegs frelsis þá hef ég – sem aðdáandi aristótelískrar markhyggju og dygðakenningar – aldrei getað fallist á heimspekilegar frumforsendur frjálslyndisstefnunnar og hef skrifað heilar bækur gegn þeim. Mér sýnist enda að ef við höfnum því að réttlátt sé að fólk uppskeri eins og það hefur til sáð hverfi munurinn milli tilfinninga á borð við hluttekningu (sársauka vegna óverðskuldaðs óláns annarra) og meðaumkunar (sársauka vegna verðskuldaðs óláns annarra), en slíkur samsláttur rýrir, að minni hyggju, manngildi okkar og mannskilning. Á þennan hátt hef ég vissa samúð með verðleikahyggjunni sem mér virðist einkenna a.m.k. hluta af þögla meirihlutanum fyrrnefnda. Þar sem ég er á hinn bóginn mjög alþjóðasinnaður um manneðlið hefði ég aldrei getað fengið mig til að kjósa Brexit eða Trump, jafnvel þótt aðalpersónurnar þar hefðu verið talsvert viðkunnanlegri eintök af fólki en raun bar vitni um.
Þessar persónulegu „játningar“ eru eingöngu settar fram hér sem dæmi til að benda á hve flókin og á margan hátt þversagnakennd afstaða fólks til stjórnmálaskoðana er ef við skiljum hana í ljósi fjögurra ása fremur en hinna hefðbundnu tveggja. Það verður líka mun erfiðara að spá fyrir um úrslit kosninga, sbr. nýlegt hrun trausts á skoðanakönnunum. Ástæðan er sú að ákvarðanir eru teknar í ljósi forgangsröðunar margra ólíkra gilda, á mörgum ásum, og ekki furða þótt sumir geti ekki gert upp hug sinn fyrr en í kjörklefanum.
Niðurstaða
Ég hygg að þessi fjórvíða lýsing gefi mun betri mynd af flóru stjórnmálaskoðana á 21. öldinni en gamla tvívíða líkanið. Hún ljær okkur m.a. kost á að flokka „góða fólkið“, sem svo er uppnefnt á samfélagsmiðlum. Það er, að því er mér virðist, fólk sem er alþjóðasinnað og jafnvirðissinnað á seinni ásunum tveimur; ekki einungis frjálslynt fólk á félagslega ásnum. Hver er svo lærdómurinn af þessu öllu saman? Hann er ef til vill helst sá að þótt vinstri-hægri skiptingin sé langt í frá úrelt þá þurfi að skoða fleiri breytur til að skilja pólitíska skoðanamyndun í samtímanum – og að ef til vill þurfi að endurrita eitthvað af inngangsritum í stjórnmálafræði og stjórmálaheimspeki til að endurspegla breyttar aðstæður.
Athugasemdir