Á örskömmum tíma hafa miklar hræringar átt sér stað í Frakklandi en enginn getur þó spáð fyrir um það hvort þær muni valda straumhvörfum, - eða hvort síðar verði sagt að þetta hafi verið enn eitt « glatað tækifærið », eins og nú er sagt um kreppuna árið 2008. Úr því getur framtíðin ein skorið.
En á þetta er rétt að líta. Það fyrsta og sögulegasta var að í seinni umferð bæjarstjórnarkosninganna – sem fram fór fimmtán vikum eftir fyrri umferðina vegna kórónaveirunnar – unnu umhverfissinnar stórsigur, þeir náðu á sitt vald flestöllum stórborgum Frakklands, Marseille, Lyon, Bordeaux, Strassborg, Tours, Montpellier og Nancy. Sumar þessara borga, t.d. Bordeaux, höfðu verið í höndum hægri manna áratugum saman. Í Grenoble náði borgarstjóri úr röðum umhverfissinna auðveldlega endurkjöri. Sósíalistar stóðu sig sæmilega vel í kosningunum, en þó einkum þegar þeir voru í samkrulli við umhverfisverndarsinna. Það gerðist í París, þar sem borgarstýran Anne Hidalgo – sem talin var standa mjög tæpt ekki fyrir löngu – var endurkjörin með atkvæðum þeirra og með glæsibrag. Og hún ætlar nú að taka mun meira tillit til umhverfismála.
Hægri flokkurinn sem nú heitir « Repúblikanar » (því á þeim væng eru flokkarnir stöðugt að skipta um nafn) stóð sig einnig vel, en fyrst og fremst í smærri bæjum og úti á landsbyggðinni. Þetta hefur sína þýðingu, menn finna ekki eins fyrir loftslagsbreytingum í sveitum og í borgum, þar sem hitabylgjur eru erfiðar, og sinna lítt umhverfismálum.
En flokkur Macrons forseta – sem ber heitið « La république en marche », en það útleggst « Lýðveldið á röltinu », beið hins vegar afhroð. Tákn um það voru úrslitin í París, þar fékk Macron mikinn meirihluta í forsetakosningunum, en nú fékk frambjóðandi hans aðeins þrettán prósent og komst ekki einu sinni að sem borgarfulltrúi. Þessi þriggja ára gamli stjórnmálaflokkur fékk engan bæjarstjóra kjörinn nema í samkrulli við aðra, og er nú orðið ljóst að hann hefur ekki fengið neinn varanlegan hljómgrunn í landinu. Það var lítil huggun fyrir forsetann að forsætisráðherrann Edouard Philippe skyldi ná glæsilegu endurkjöri sem borgarstjóri í Le Havre, því hann hefur ekki einu sinni viljað ganga í flokk Macronssinna, og var auk þess farinn að skyggja ískyggilega mikið á Macron sjálfan, vinsældir hans jukust eftir því sem vinsældir forsetans hröpuðu.
(Um þjóðernissinnaflokk Marine Le Pen er það eitt að segja að hann vann eina borg, Perpignan, með frambjóðanda sem hefur einkum getið sér orð fyrir að reyna að afdjöfla flokkinn. Þessi hreyfing virðist ekki vera neitt afl í bæjarstjórnarmálum.)
Örstuttu fyrir kosningarnar gerðist annað og á öðru sviði en kannske ekki síður táknrænu fyrir þær hræringar sem nú eru að verða. Hundrað og fimmtíu manna nefnd sem átti að leggja fram tillögur í umhverfismálum skilaði áliti sínu, og mánudaginn eftir kosningarnar bauð Macron nefndarmönnum öllum í garðveislu í Elysée-höll, til að sýna hvað hann tæki tillögurnar alvarlega, og kannske líka til að reyna að draga athygli manna frá úrslitum kosninganna. Hann hafði reyndar lofað því að leggja tillögurnar fyrir þing og jafnvel í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi nefnd var sett á laggirnar fyrir nokkrum mánuðum, þegar umræður um umhverfismál voru farnar að hækka um nokkrar áttundir og áhyggjur manna blöstu við. Nefndarmenn voru valdir úr kjörskrám með hlutkesti, þeir skyldu koma saman á ákveðnum dögum, hlýða á orðræður sérfræðinga á ýmsum sviðum og spyrja þá spjörunum úr. Síðan skyldu þeir leggja fram tillögur um viðbrögð við vandanum. Þetta gerðu þeir svikalaust og voru tillögur þeirra einni færri en nefndarmenn.
Margar þeirra voru þegar komnar fram og hafa verið í umræðunni um stund, engin virtist yfirmáta róttæk. Lagt var til að efla almenningssamgöngur til að draga úr akstri einkabíla, banna innanlandsflug á leiðum þar sem hægt væri að komast með lestum á minna en fjórum klukkustundum (t.d. París-Marseille), skylda menn til að einangra hús til að minnka þörf á hitun, leggja áherslu á að endurnýja hús fremur en byggja ný, stöðva a.m.k. um stundarsakir byggingu stórra verslunarmiðstöðva á útjöðrum borga, hætta malbikun guðsgrænnar nátturunnar, banna að auglýsa þær vörur sem mest menga, minnka hámarkshraða á hraðbrautum úr 130 km. niður í 110 km., leggja fjögur prósent skatt á arð fyrirtækja hærri en tíu miljónir evra til að fjármagna aðgerðir í umhverfismálum, og margt fleira í þessum anda. Í garðveislunni lýsti Macron því yfir að hann væri sammála flestum tillögunum – « hver getur verið á móti þeim? » - en með tveimur undantekningum þó. Önnur var lækkun hámarkshraða á hraðbrautum, því hann óttaðist andstöðu almennings, sem myndi þá einblína á þetta eitt : « Á þetta er þegar komin reynsla.» Hin var skattlagning á arði fyrirtækja, því hún myndi virka eins og Grýla á viðkvæma fjárfesta. Því Frakkland verður að vera áfram « business friendly », annað er ekki hægt.
Nú bíða menn eftir framhaldinu, en um það hafa yfirvöld ekki verið margorð. Macron beið hins vegar ekki lengi, en á öðru sviði, hann gerði þegar í stað það sem flestir bjuggust við, hann setti forsætisráðherrann af og skipti um ríkisstjórn. Þetta átti í orði kveðnu að sýna að nú ætti að fara inn á nýjar brautir, taka upp nýja stefnu í samræmi við óskir almennings, það væri kominn nýr Macron og búinn að bretta upp ermarnar. En menn túlkuðu stjórnarskiptin á annan hátt: í fimmta lýðveldinu gæti enginn forseti þolað að hafa forsætisráðherra sem væri vinsælli en hann sjálfur. Og hinn þaulvani borgmeistari í Le Havre – sem auk þess hefur samið glæpasögur - kunni það sem Macron kunni ekki, að ná eyrum manna. Það sýndi sig á tímum veirusóttarinnar þegar forsetinn virtist stundum úti á þekju.
Eftir þessu öllu að dæma virðist nokkurra tíðinda vera að vænta í Frakklandi, - tíðinda sem kynnu að hafa áhrif langt út fyrir landamærin. En á þessari mynd eru þó ýmsir blettir sem gætu skyggt á annað, og verður þá fyrst að nefna kosningaþátttökuna. Hún hefur reyndar stöðugt verið að minnka gegnum árin, en nú var slegið nýtt met: nálægt sextíu af hundraði sátu hjá. Og finnst mörgum að það dragi nokkuð úr gildi kosninganna. Þetta er sennilega að einhverju leyti veirunni að kenna, en annað vegur þó þyngra á metum en þetta tundurduflslaga hálf-kykvendi. Menn eru í miklum mæli búnir að missa alla trú á að kosningar geti breytt nokkrum sköpuðum hlut. Á undanförnum árum hafa menn kosið á ýmsa vegu og mjög gjarnan á móti ríkjandi valdhöfum, en hver sem úrslit kosninga hafa orðið hefur sömu stefnunni verið haldið áfram, venjulega með enn meiri þunga. Menn kusu Chirac, Sarkozy, Hollande og Macron til að losna undan frjálshyggjunni – samkvæmt loforðum þeirra sjálfra þegar þeir voru frambjóðendur – en niðurstaðan var aldrei önnur en enn meiri frjálshyggja.
Og í þessari veirukreppu blasir árangurinn við. Sjúkrahúsin voru í ólestri eftir fjársveltið, það vantaði sjúkrarúm – enda höfðu yfirvöld frjálshyggjunnar sagt að það væru « of mörg sjúkrarúm í Frakklandi », nauðsynlegt væri að fækka þeim – og það vantaði reyndar allt til alls. Sjúkraliðar urðu jafnvel að nota öskutunnupoka fyrir hlífðarföt.
Þetta vissu menn fyrir, ekki hafði staðið á læknum, sjúkraliðum og öðrum að gera yfirvöldum viðvart. En nú kom ýmislegt í ljós sem legið hafði í láginni. Fyrir allmörgum árum var ákveðið, og meira að segja fest í lög, að Frakkar skyldu ævinlega vera viðbúnir veirusóttum, og skyldu vera til staðar byrgðir af grímum og öllu öðru sem á þyrfti að halda. Í byrjun var þessu fylgt eftir, og nauðsynlegar ráðstafanir gerðar. En svo var hætt að framfylgja lögunum, þetta þótti allt of dýrt, kannske heldur ekki í verkahring ríkisins o.s.frv., réttast að láta sjúkrahúsin sjá um þetta. Semsé, grímurnar sem keyptar höfðu verið féllu á tíma og þeim var fargað – jafnvel í febrúar á þessu ári var enn verið að brenna « fyrndar grímur », sem gátu þó allt eins verið nothæfar. Í Bretagne var verksmiðja sem framleiddi grímur, sú eina í landinu - og byggði afkomu sína á væntanlegum pöntunum frá yfirvöldum. En þegar þær hættu að koma var staða fyrirtækisins bág, einhverjir Englendingar keyptu það - til þess eins að leggja það niður. Í þessu samhengi má einnig nefna að í Frakklandi var ein verksmiðja sem framleiddi súrefniskúta fyrir sjúkrahús, og var afkoma hennar góð. En svo urðu líka einhverjir Englendingar til að kaupa hana, fyrst og fremst til að komast yfir þá tækni sem hún bjó yfir – svo lögðu þeir hana niður og fluttu starfsemina til Englands. Í þessu sýndu ensku stjórnendurnir reyndar fádæma hroka gagnvart starfsfólki, þeir voru aldrei til viðtals.
Allt var þetta samkvæmt kokkabókum frjálshyggjunnar, sjálfur Hayek hefði ekki fundið nokkurn skapaðan hlut til að gagnrýna. En fyrir bragðið voru yfirvöld tómhent og ráðalaus þegar veiran drap á dyr, til að fela grímuskortin sögðu þau að grímur væru gagnslausar, enda kynnu fæstir að setja þær rétt fyrir munn og nef, - talsmaður stjórnarinnar reyndi að gera úr því brandara. Þegar blaðamenn fóru síðar að kanna málin benti hver á annan, eða neitaði að svara spurningum.
Til þess að reyna að knýja fram einhverja lausn á þessu ófremdarástandi sjá menn ekki önnur ráð en leggja niður vinnu og fara í mótmælagöngur, og á þeim hefur ekki verið neinn hörgull síðustu daga. En á kosningum hafa menn ekki mikla trú, ekki frekar nú en áður, og því var kosningaþátttakan eins og raun bar vitni. Erfitt er að lá mönnum það. En ef einhverjir hafa haft vonir um að þessi « græna bylgja » myndi skvettast yfir æðstu stjórnvöld landsins og vekja þau til aðgerða, ættu stjórnarskiptin að opna augu þeirra. Í stað Edouards Philippe setti Macron mann að nafni Jean Castex, - með nafn eins og persóna úr myndasögunum um Ástrík, - sem varla nokkur maður hafði áður heyrt nefndan. Hann var bæjarstjóri í smábæ uppi í Pýreneafjöllum, og hafði auk þess verið í hópi aðstoðarráðgjafa ýmissa ráðherra og forseta, enda með prófskírteini úr Stjórnsýsluskólanum og Stjórnmálaskólanum eins og allir þeir sem komast í návígi við valdastóla í Frakklandi og því bakaður úr sama mjöli og þeir. Í fyrsta og eina skiptið sem hann komst í fréttir var nú fyrir skömmu þegar hann var valinn til að hafa hönd í bagga með afnámi sóttkvíarinnar, og þá sagði hann : «Það verður að fara hægt í sakirnar». Þetta er eina spakmælið sem fréttamenn hafa getað haft eftir honum til þessa. Almenningur tengir hann ekki einu sinni við það atvik sem minnistæðast er. Þegar útgöngubanninu var aflétt tóku ýmsir upp á því að setjast úti í sólinni í smáhópum og drekka saman fordrykk, ekki síst á bökkum Ourcq-skurðarins. Tryggur sínu spakmæli vildi forsætisráðherrann tilvonandi stöðva þessa ósvinnu og voru þessar samdrykkjur þegar bannaðar. Sérstök lögreglusveit var send á vettvang á skurðbakkann og hlaut hún nafnið « fordrykkjaeftirlitið ». Fréttamenn túlka þessi mannaskipti allir á eina lund : « Macron skipar Macron í embætti forsætisráðherra ». Nú væri því svo komið að hann vildi ráða einn og hafa Castex í því hlutverki sem hann hefur alltaf haft, að vera undirtylla í skrifstofu. Því er Macron nú kallaður « ofurforseti ».
Eins og sagt er var Castex « falin stjórnarmyndun », en vitanlega var það Macron sem valdi ráðherra, og þeir voru að mestu leyti hinir sömu og í fyrri stjórn, sumir höfðu þó stólavíxl. Þeirra á meðal er innanríkisráðherrann, sem virkar nú þegar eins og rauð dula á feminista, því hann liggur undir ákæru fyrir nauðgun (sem Macron taldi að væri ekki neinn ljóður á hans ráði). Einn af nýju ráðherrunum er dómsmálaráðherrann, fyrrverandi málafærslumaður sem frægur var fyrir að rífa kjaft við dómara, og hefur þessi upphefð hans virkað á dómarastéttina eins og rauð dula. En hann hefur einnig espað konur upp til muna, því eftir honum er haft að « me too » hreyfingin sé bara móðursýki og vorkennir þeim konum sem ekki er lengur flautað á þegar þær spássera á götum úti, það hljóti að vera einmanalegt líf. Því hafa femínistar haldið mótmælafundi víða um land, m.a. fyrir framan ráðhúsið í París, gegn báðum þessum pípuhöttum. Að öðru leyti hefur þessi stjórn ekki gefið mikið tilefni til skýringa og túlkana. Því eins og Frakkar segja gjarnan í svipaðri stöðu: « menn taka með sér sama föruneytið og halda af stað upp á nýtt ». Á forsíðu blaðs var spurt: « Á þetta að heita stefnubreytingarstjórnin? »
Þessi stjórn er því ekki líklegri til stórræðanna en fyrri stjórn, svo og Macron sjálfur.
Enda eru nú þegar ýmsar blikur á lofti. Í hægri sinnuðum fjölmiðlum rótast menn gegn tillögum hundrað og fimmtíu menninganna eins og naut í flagi, þeir kalla umhverfisverndarsinna « græna Kmera », eða líkja þeim við melónur sem séu grænar að utan en rauðar að innan, - því gegn umhverfisverndarsinnum hafa menn reynt að vekja kommúnistagrýluna upp úr gröfinni, með litlum árangri hingað til. Þeir segja að tillögur hundrað og fimmtíumenninganna séu « súrrealískur listi » yfir alls kyns fáránleika, efnahagur landsins myndi hrynja til grunna ef farið yrði að framkvæma þær og landið verða « undir í samkeppninni ». Eitt vikuritið sem stendur alllangt til hægri fagnaði þessari nýju stjórn : « Nú verður ekki farið út í neina vitleysu ». Þetta eru þær raddir sem Macron er vanastur að leggja eyrun við.
Í sjónvarpsviðtali í garði Elysée-hallar sagði forsetinn að hann myndi ekki breyta um markmið, því það væri rétt ; hins vegar myndi hann reyna að breyta um aðferðirnar til að ná því. Og hann fór nú að fjölyrða um umhverfismál – eins og fyrirrennarar hans áður. Hann nefndi ekki síst að hann ætlaði að stórefla járnbrautakerfið, hann ætlaði að hefja að nýju samgöngur á skemmri leiðum og efla næturlestir. En getur hann tekið upp stefnu sem er þveröfug við þá sem hann hefur fylgt hingað til? Því það var nefnilega stór liður í henni að hætta lestarsamgöngum á þessum sömu skemmri leiðum og fella niður næturlestir, til að « spara » - og gera járnbrautirnar arðvænlegri, sögðu sumir, svo auðveldara yrði að einkavæða þær. Sú nýja stefna sem felst í tillögum hundrað og fimmtíumenninganna gengur þvert á hugmyndaheim þeirra sem nú fara með völdin, fyrir og eftir stjórnarskipti.
Þeir sem best til þekkja segja að Macron hafi aldrei skilið í hverju umhverfisvandinn felst.
Athugasemdir