Allir sem hafa elskað alkóhólista vita þetta: Það getur verið ansi sárt.
Sársauki aðstandenda er marglaga og birtist með misjöfnum hætti, enda aðstæður, tengslin og fólkið allskonar. Sumt er þó þess eðlis að flestir geta sammælst um það; það er sárt að sjá hvernig áfengis- og vímuefnaneysla getur farið með gott fólk. Það er sárt að sjá persónuleikabreytingarnar sem fylgja því þegar fólk veikist, heyra réttlætingarnar og horfa upp á hjálparleysið sem fylgir því að missa tökin. Það er sárt að sjá afleiðingarnar, að horfa upp á fólk sem þér þykir vænt um kveljast - eða kveðja - vegna aðstæðna sem það ræður ekki við. Það er sárt að sjá skömmina sem fylgir þessum sjúkdómi, sjálfsniðurrifið og ömurleikann. Þurfa að þola blekkingar og óheiðarleika sem fylgir ofneyslu. Óttast um afdrif fólks. Kannski er samt verst að upplifa vanmáttinn sem fylgir þessu öllu saman, að geta ekkert gert til þess að grípa inn í aðstæður og stöðva áframhaldandi neyslu. Flestir sem hafa reynt að bjarga alkóhólista rekast á hindranir og átta sig á því að það er ekki í þeirra höndum. Það er í hans höndum. Þegar og ef hann er tilbúinn til að vinna í sínum málum er hins vegar mikilvægt að hann fái þann stuðning sem hann þarf á að halda. Úrræðin þurfa þá að vera til staðar, mismunandi úrræði sem þjóna fólki með mismunandi þarfir. Hér á landi er hins vegar verulegur skortur þar á.
Saga móður
Börn alkóhólista eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna þess að þau þurfa að reiða sig á fólk sem hefur ekki stjórn á eigin lífi. Að alast upp við slíkar aðstæður rænir börn örygginu og getur haft alvarlegar afleiðingar. Þessi börn þurfa gjarna að fullorðnast snemma og bera ábyrgð sem er ekki þeirra. Í verstu tilfellum verða þau vitni að ástandi - og upplifa atburði - sem fullorðið fólk á almennt erfitt með að ráða við. Þau upplifa jafnvel missi eða höfnun vegna þess að áfengis- og vímuefnaneyslan er tekin fram yfir þarfir þeirra.
Nokkur ár eru liðin frá því að kona steig fram til að segja sögu sína. Hún, sem hafði einu sinni verið myndarleg húsmóðir, missti tökin á drykkjunni með skelfilegum afleiðingum. Synir hennar lýstu því á sama tíma hvernig það var að horfa upp á móður sína hverfa frá þeim og inn í annan heim, þangað sem þeir áttu ekkert erindi. Þeir lýstu því hvernig móður þeirra versnaði stöðugt og tók að lokum upp samband við óyndismann með tilheyrandi ólátum og ofbeldi inni á heimilinu. Heimilið var ekki lengur griðarstaður. Smám saman hurfu allar eigur þeirra þaðan því móðir þeirra seldi þær fyrir áfengi, allt þar til lífið eins og þau þekktu það var þeim horfið. Allt í einu áttu þeir ekki lengur heimili hjá móður sinni, hún var farin, búin að missa forræðið, heimilið og sjálfsvirðinguna. Annar þeirra gat aldrei kvatt, hinn kyssti móður sína bless. Hún var allsgáð rétt á meðan því stóð og það eina sem hann mundi eftir að hún hefði sagt var: Ég elska þig. Þegar börnin voru farin var ekkert eftir. Hún reyndi enn einu sinni að fara í meðferð en þegar fjölskyldan sagði sögu sína hafði hún verið á götunni í 20 ár.
Skömmin
Á þeim tíma hafði hún ítrekað mætt vanþóknun samfélagsins, þó að það væri ekki algilt. Um leið og hún lýsti aðstæðum kvenna í Konukoti sem máttu gjarna sæta ofbeldi og niðurlægingu þeirra sem gátu misnotað sér neyð þeirra, þakkaði hún fyrir að geta fengið þar inni á næturnar, mat í Samhjálp og farið stöku sinnum í sund. Stundum komst hún jafnvel í klippingum sem hún greiddi fyrir með blómum sem hún fékk að gjöf frá vini sínum blómasalanum. Einu sinni hafði líka einhver skilið eftir sæng og kodda í runna við Kjarvalsstaði vegna þess að hann orðið þess var að hún svaf þar um tíma. Slík góðverk gleymdust seint, en breyttu því ekki að skömmin fylgdi fjölskyldunni.
Konan skammaðist sín svo fyrir það líf sem hún lifði og bauð börnunum upp á að tilhugsunin um að lifa eðlilegu lífi og umgangast fólk með annan bakgrunn var nánast óhugsandi. Hún hafði farið í hverja meðferðina á fætur annarri en sótti alltaf í vinskap þeirra sem voru í sömu stöðu og hún. Kannski hefði hún þurft annar konar úrræði. Þetta var kona sem byrjaði að drekka illa með brostið hjarta og hefði kannski þurft meiri áfallavinnu, stuðning við að takast á við hversdagslífið, stíga aftur inn í samfélagið og félagslegan stuðning til að þrífast þar.
Synir hennar glímdu líka við skömmina og óttann við að vera dæmdir út frá örlögum móður sinnar. Báðir höfðu leitað í áfengi á sínum yngri árum til að takast á við sársaukann en lent á vegg og leitað sér aðstoðar. Sú aðstoð dugði fyrir þá, þótt það hafi ekki dugað fyrir hana. Í sumum tilfellum er neyslan birtingarmynd vanda sem ristir mun dýpra og þá þarf fólk meiri aðstoð við að rísa aftur upp. Kannski þarf líka að grípa það fyrr og styðja til betra lífs.
Ástvinir okkar
Fólkið sem fer verst út úr þessum sjúkdómi er allt ástvinir einhverra. Stundum er samt komið fram við fólk sem er illa haldið af áfengis- og vímuefnavanda sem annars flokks fólk. Það sama gildir gjarna um fólk sem hefur veikst á geði, hvað þá fólk sem glímir við tvíþættan vanda og flakkar á milli úrræða í kerfinu.
Eins og maðurinn sem var greindur með geðklofa en var ítrekað sendur heim með sjálfsvígshugsanir og róandi lyf í poka vegna þess að hann var í neyslu þegar hann óskaði eftir innlögn á geðdeild. Þar til hann gekk berserksgang heima hjá sér og rústaði heimilinu. Þá mætti lögreglan og færði hann loks inn á geðdeild, þangað sem hann hafði sjálfur reynt að komast í marga daga. Fjölskyldan sat eftir örmagna á sál og líkama. Geðdeildin var þéttsetin, þar var ekki pláss fyrir fólk eins og hann. Kannski þarf þá að fjölga plássum. Eða deildum. Jafnvel úrræðum. Setja það fjármagn sem þarf í þennan málaflokk til þess að hægt sé að mæta fólki í neyð.
Hér hefur fíknigeðdeild Landspítalans hins vegar margoft verið lokað á sumrin í sparnaðarskyni. Þegar húsnæði geðdeildar fékk falleinkunn var ekki brugðist við fyrr en tveir ungir menn höfðu svipt sig lífi þar inni með tíu daga millibili. Enn vantaði 100-150 milljónir upp á til að hægt væri að laga aðbúnaðinn á þeirri deild, alls um 1,6 milljarð til að sinna viðhaldi á geðdeildunum öllum. Verkferlum var ábótavant, þjálfun starfsfólk sömuleiðis og mannekla hefur verið viðvarandi, enda álag mikið og starfsskilyrði erfið. Forstjóri Landspítalans biðlar til stjórnvalda um að setja aukin fjárframlög í geðheilbrigðismál. Ekki í fyrsta sinn.
Annar maður varð fyrir heilaskaða eftir líkamsárás sem olli geðrofi og fíkniefnaneyslu. Eftir að hann ógnaði fjölskyldunni var hann sviptur sjálfræði og vistaður á sérstakri endurhæfingargeðdeild Landspítalans. Þar náði hann þeim bata að raddirnar sem hann hafði heyrt viðstöðulaust síðustu tíu árin hurfu úr huga hans, en eftir útskrift var ekkert nema tómarúmið sem tók við. Ári eftir að sótt var um viðeigandi búsetuúrræði fyrir manninn var hann á vergangi, búinn að leigja sér lítið herbergi í breyttu atvinnuhúsnæði og líkurnar á því að hann færi aftur í neyslu, þaðan inn aftur á geðdeild og síðan aftur í afeitrun, jukust með hverjum deginum. Það gerist alveg, sagði forsvarsmaður spítalans. Líklega væri bæði hagkvæmara og mannúðlegra að viðeigandi úrræði væru til staðar og eftirfylgni væri með fólki í svo viðkvæmri stöðu.
Refsistefnan
Hér er hins vegar rekin refsistefna gagnvart fólki í fíknivanda sem veldur því að fólk veigrar sér frekar við að sækja þá aðstoð sem það þarf á að halda - og eins vegna þess að það fær síður hjálpina sem það þarf. Ef hringt er á neyðarlínuna vegna geðrofsástands er lögreglan send á viðkomandi en ekki læknir. Stefna sem kostaði unga stúlku lífið, en hún var undir áhrifum fíkniefna og flúði vettvang þegar lögreglan mætti á staðinn, hljóp á eftir henni og handtók með harkalegum aðferðum, jafnvel þótt stúlkan væri augljóslega veik og þyrfti á læknisaðstoð að halda. Eini maðurinn sem hefur látist hér á landi af völdum lögreglu var alvarlega veikur og hefði átt að vera undir eftirliti lækna.
Móðir sautján ára stúlku sem var vísað frá geðdeild með geðhvörf vegna þess að hún var í neyslu sagði sárt að börn sem hefðu ánetjast vímuefnum fengju verri heilbrigðisþjónustu en aðrir, en umboðsmaður barna óskaði eftir sjálfstæðri úttekt landlæknis vegna þess að börn væru vistuð í fangaklefa í stað þess að fá inni á spítala.
Stefnan mótar viðhorfin, í stað þess að fólki fái stuðning og hlýju þegar það ræður ekki við áföllin, lífið og neysluna er það stimplað og mætir fordómum. Samfélag sem normalíserar og fagnar áfengisneyslu refsar þeim sem ráða ekki við hana. Enda vildi fyrrverandi heilbrigðisráðherra hverfa frá refsistefnunni, en sat síðan hjá þegar þingið greiddi atkvæði gegn afglæpavæðingu neysluskammta. Eins og fleiri, sem hafa áður talað á svipuðum nótum en sátu annað hvort hjá eða greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.
Fordómarnir
Eftir fráfall frænku sinnar fór greinahöfundur á Stundinni að spyrjast fyrir hvort fleiri höfðu upplifað það sama og hún, fordóma gagnvart fólki með fíknivanda. Já, fólk í þeirri stöðu, aðstandendur og fagfólk sammæltist um að fordómar væru ekki aðeins til staðar heldur kæmu þeir í veg fyrir að fólk leitaði eftir aðstoð, fengi þá hjálp sem það þarfnaðist og gæti stigið aftur inn í samfélagið. Aðskilnaðarstefna og stimplun væri sár.
Það var þessi tilfinning fyrir aðskilnaðarstefnu sem varð til þess að maður steig upp á stól á Hlemmi mathöll og hélt ræðu um fátækt á Íslandi. Áður var Hlemmur athvarf fólks sem beið eftir strætó, en þegar búið var að setja upp útikamar þar fyrir utan svo fólkið sem beið eftir strætó myndi alveg örugglega ekki nota sömu salerni og mathallargestir var honum nóg boðið. Sjálfur hafði hann alist upp við fátækt, alkóhólisma og ofbeldi en tekist að halda sér á floti þar til hann varð 45 ára og fortíðin sótti að honum. Hann missti geðheilsuna og tökin á drykkjunni í kjölfarið. Þegar hann sagði sögu sína sat hann í rafmagnslausri íbúð og lýsti því hvernig fátækum, geðsjúkum og alkóhólistum er sífellt stillt upp sem hinum, annars flokks manneskjum, sem virðast aldrei eiga það besta skilið. Meira að segja inneign í Rauða kross verslunum gildir ekki í bestu búðunum niðrí bæ, þær eru fyrir ferðamennina og okkur hin.
Þegar það stendur síðan til að koma upp úrræðum fyrir fólk sem er í þessari stöðu og hefur ekki í nein hús að venda er því ítrekað mótmælt af íbúum í hverfinu sem vilja „þetta fólk“ ekki í návígi við sig.
Samfélagi sem blæðir
Það er ekki aðeins hinum veiku og aðstandendum þeirra sem blæðir. Talið er að samfélagslegur kostnaður vegna ofneyslu áfengis og vímuefna sé um 55 milljarðar á ári eða 1,8 prósent af landsframleiðslu. Aukið álag er á heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið og réttarkerfið. Framleiðslutap verður þegar fólk verður óvinnufært vegna veikinda, meðferðar eða örorku. Talið er að neysla áfengis sé þriðji stærsti áhættuhópurinn á lakri heilsu, en auk þess sem neysla áfengis og vímuefna getur valdið lífshættulegum sjúkdómum losar hún um hömlur sem skapar hættu á alvarlegum slysum og eykur áhættu á sjálfsvígum.
Samkvæmt árlegri vöktun embættis landlæknis féllu 25 prósent íslenskra karla og 22 prósent íslenskra kvenna undir skilgreiningu á áhættusömu drykkjumynstri. Sé það hlutfall heimfært á þjóðina má gera ráð fyrir að 35 þúsund karlar og 30 þúsund konur séu með skaðlegt neyslumynstur áfengis.
Fimmtán árum síðar
Í skýrslu heilbrigðisráðherra frá árinu 2005 var lagt til að gripið yrði til aðgerða; það þyrfti meðal annars að endurskoða lög með það að markmiði að auka samstarf, skilvirkni og einstaklingshæfða þjónustu við fólk í þessari stöðu. Fjárveiting ætti að vera til málaflokksins en ekki einstaka stofnana og samvinna efld á milli ráðuneyta. Ríkið ætti ekki að styðja rekstur nema að uppfylltum skilyrðum um aðbúnað, hollustuhætti og mat á þörf. Samræmdu árangursmati ætti að koma á, auka göngudeildarþjónustu og kanna möguleika á þjónustu í heimabyggð. Það ætti að efla þátt heilsugæslunnar, bæði hvað varðar einstaklingana sem um ræðir og eins sem stuðning fyrir fjölskyldur. Úrræðin þyrftu að vera fjölbreyttari og uppfylla þarfir flestra.
Nú fimmtán árum síðar lagði embætti landlæknis fram tillögur sem eru að mörgu leyti svipaðar. Þar var áhersla lögð á snemmtæka íhlutun, heilbrigðis- og félagsþjónustu, endurhæfingu og skaðaminnkandi úrræði. Þá lagði embætti landlæknis til að viðmið um árangur og gæði væru mótuð og gerð að forsendu fyrir kaupum ríkisins á heilbrigðisþjónustu fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur. Samræma þyrfti verklag, mat á þörf og skýra hlutverkaskiptingu. Æskilegt væri að koma á miðlægum biðlista, skilgreina gæðavísa og setja viðmið um biðtíma eftir aðstoð, en í maí biðu 88 börn eftir sálfræðiþjónustu hjá Von, göngudeild SÁÁ. Auka þyrfti þjónustu heilsugæslunnar til að létta á álaginu annars staðar í kerfinu, en áður hefur komið fram að skortur á fjárveitingu frá ríkinu kom í veg fyrir að hægt væri að fjölga geðheilsuteymum á höfuðborgarsvæðinu, líkt og stefna stjórnvalda kvað á um. Endurskoða þurfi stefnu stjórnvalda, fram til ársins 2030, og henni ætti að fylgja tímasett aðgerðaráætlun, til að tryggja að breytingar næðu fram að ganga.
Á fimmtán árum getur mjög margt breyst. Eða ansi lítið, nánast ekki neitt.
Á fimmtán árum verður barn að unglingi. Fyrir alla framtíð barnsins skiptir máli í hvaða umhverfi það elst upp, hvaða viðmót mætir því og hvaða stuðning fjölskyldan fær þegar á þarf að halda.
Athugasemdir