Hérna er fyrst þrautin frá í gær.
En svo koma hér tvær aukaspurningar:
Í fyrsta lagi, hver er maðurinn með kúluhattinn fína hér á efri myndinni?
Og í öðru lagi, hvaða hljómsveit gaf út plötu þá sem neðri myndin er hluti af?
En vindum oss þá í aðalspurningarnar tíu:
1. Rómverjar fornir áttu í eitt sinn í höggi við kóng einn sem reyndist þeim þungur ljár í þúfu, en þeir báru þó sigurorð af honum á endanum. Míþridates hét hann og ríki hans Pontus. En hvar var ríkið Pontus?
2. Í hvaða landi er höfuðborgin Beirút?
3. „Sigga litla systir mín / situr út'í götu ...“ Hvernig er framhald vísunnar?
4. Einn af hinum frægu körlum fornaldar átti eiginkonu þá sem hét Xantippa eða Xanþippa. Úr flestum heimildum má lesa að hún hafi verið góð eiginkona og móðir en í einni heimild kemur þó fram að hún hafi verið skapvargur heilmikill. Í sömu heimild kemur fram að eiginmanninum hafi í raun alls ekki þótt það verra. Eiginlega þvert á móti, því hann hafði einstaklega gaman af því að rökræða alla hluti við annað fólk og fannst það því mjög til bóta að eiginkonan væri alls ekki alltaf sammála sér, heldur talaði sínu máli af krafti. Hver var þessi eiginmaður?
5. Erdogan hefur verið forseti Tyrklands síðan 2014. Hvað hét forveri hans?
6. Hvaða ár urðu miklar óeirðir stúdenta í París sem áttu sinn þátt í að Charles de Gaulle forseti sagði af sér árið eftir?
7. Hver var það sem helst beitti sér fyrir setningu nýrrar stjórnarskrár í Dýrunum í Hálsaskógi?
8. Chester Nimitz hét maður. Hvað gerði hann sér til frægðar?
9. Michelle Obama er kunn fyrir störf sín sem forsetafrú í Bandaríkjunum og svo ritstörf eftir að hún flutti úr Hvíta húsinu. En hvað var eftirnafn hennar áður en hún gekk að eiga Barack Obama?
10. Hversu er vegalengdin milli Lækjartorgs og Hlemmtorgs í Reyjavík? Hér má muna 100 metrum til eða frá.

Hér eru svörin:
1. Við Svartahaf eða í Litlu-Asíu (Tyrklandi) er hvorttveggja rétt.
2. Líbanon.
3. „Hún er að mjólka ána sín' í ofurlitla fötu.“
4. Heimspekingurinn Sókrates.
5. Gül.
6. 1968.
7. Marteinn skógarmús.
8. Yfirflotaforingi Bandaríkjamanna í Kyrrahafinu í síðari heimsstyrjöld.
9. Robinson.
10. 1,2 kílómetrar - svo allt frá 1,1 til 1,3 telst vera rétt.

Svörin við aukaspurningunum eru þessi:
Á efri myndinni er Harry S. Truman forseti Bandaríkjanna eins og hann leit út í sparifötunum á sínum yngri árum.
Það var löngu áður en hvarflaði að Truman að hann ætti eftir að varpa kjarnorkusprengjum á tvær japanskar borgir.
En það var jú einmitt það sem hann gerði eftir að hann var orðinn forseti við lok síðari heimsstyrjaldar.

Á neðri myndinni er aftur á móti plata Spilverks þjóðanna, sem ýmist er kölluð CD eða Nærlífi. Þetta var næstfyrsta plata hljómsveitarinnar.
Umslagið málaði Guðrún Gísladóttir leikari.
Athugasemdir