Hvað ef við gætum hætt við þetta ár
2020 og fyrirbyggt sár
þeirra sem greitt hafa hæsta gjaldið
fyrir Covid 19 og misskipta valdið?
Öflug ógn sameinaði þjóð
sem fetaði fordæmalausa slóð,
stærstu afrek ársins í heild
voru unnin í vor á gjörgæsludeild
Samstaðan sterk og ástin við lýði
hjá þeim sem eru innfædd eins og fjallkonan fríð,
en ekki að brenna inni við Bræðraborgarstíg
með aleiguna í sótugum pappakassa
og strit í formi stimpla í rauðum passa.
Við höfum það gott, hér er þó vit í mönnum,
vestur um haf deyr fólk í hrönnum,
þar sárvantar vernd því veiran er skæð
en forsetinn mælir með spritti í æð.
Sjálf eigum við okkar misindismenn
sem við tilbiðjum, hötum og elskum í senn.
Glæpurinn sem erfiðast er að verjast
er ei framinn af óvin heldur samherja.
En hugsunin er frjáls, óháð bönnum og boðum
ef þú passar þig að vera ekki á rangri skoðun.
Löggan er á hnjánum á hálsinum á dánum
mínútum saman – en hey, samt er gaman
að alhæfa út frá litarafti
þegar svörtum blæðir lífskrafti
en við hin í góðu flippi
að leika asíska konu að sjúga typpi.
Ekki gleyma að spritta og þvo hendur
af þröngsýni þeirri sem leikur um lendur
þegar framtíð Íslands er kölluð grjón
af skolhærðum drengjum með nafn eins og Jón
og innfæddum Siggum með yfirbragði fölu
sem þurfa aldrei að útskýra að þau séu ekki til sölu.
Flest viljum við þó vel, sem betur fer
fyrir fámenna þjóð sem á engan her.
Í stað vopnaðra varða bíða í röðum
túristar eftir buffinu á Bessastöðum.
Best erum við í jafnrétti kynja
með Kvennalista og verkfall til minja,
forseta sem var ávörpuð frú
og manneskju ársins í formi metoo.
En ekki tala einslega við yfirmann
um áreitið eða gerandann,
í valdastofnunum í Reykjavík
vilja menn hjóla í þá helvítis tík.
Elskumst úr fjarlægð, tveimur metrum frá
það er hún sem gerir fjöllin blá,
mennina gleymska með óljósan grun
um eitthvað sem kallaðist efnahagshrun.
Jöklarnir bráðna og ferskvatnið flæðir
í hitnandi veröld sem bólgnar og blæðir
í hagvaxtarhríðum, en faraldur sá
herjar ekki á okkur sjálf,
heldur jörðina sem við nærumst á.
Þrútin af neyslu og einnota svalli
er það sjálfhverfan sem verður okkur að falli?
Hamfarir sýna engin grið,
það er okkar hvernig við bregðumst við.
Forsenda þess að lifa af
er háð því að aflæra, staf fyrir staf.
Eitt sinn þótti góður siður
að höggva fólk í herðar niður.
Við ráfum um ráðvillt í þessum nýja heimi
með hnattræna hlýnun og veiru á sveimi,
misrétti og hatur en hvers er að sakna
þegar skaðlegar hugmyndir eru loks upp að rakna?
Hvað ef þetta er árið sem við eigum að vakna?
Bróðir minn, systir mín,
endurnýjum trúna.
Valdið er okkar
og stundin er núna.
Athugasemdir