Aukaspurningarnar:
Efri mynd: Hver er maðurinn?
Neðri mynd: Þetta er hluti af umslagi frægrar hljómplötu frægrar hljómsveitar. Hljómsveitin og platan heita sama nafni, nema hvað platan ber að auki númerið III til merkis um að vera þriðja breiðskífa hljómsveitarinnar. Hvað heitir hljómsveitin?
Og þá snúum vér oss að aðalspurningunum tíu:
1. Í landi einu heitir stærsta borgin - sem þó er ekki höfuðborg - Dar es Salaam. Hvaða land er það?
2. Hvaða íslenski leikritahöfundur skrifaði leikritið Dagur vonar?
3. Árið 2010 gáfu Friðrik Dór, Blaz Roca og Henrik Biering út lag sem naut heilmikilla vinsælda. „Nóttin byrjar hér,“ segir meðal annars í laginu, og „Látum tímann líða og dettum í'ða.“ Hvað heitir þetta lag?
4. Hvað heitir lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu? Hér má sleppa föðurnafni, ef fólk vill.
5. Hvað heitir lögreglukonan sem Ilmur Kristjánsdóttir leikur í sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð?
6. Ein af fyrstu íslensku lögreglukonunum gerðist seinna útvarpsmaður og stýrir meira að segja útvarpsstöð. Hvað heitir hún?
7. Eintak hét blað nokkurt, sem hóf útgáfu sem svokallað glanstímarit árið 1993, en breyttist svo í vikublað í upphafi næsta árs. Ritstjórar höfðu verið tveir en nú stóð annar eftir og ritstýrði blaðinu þar til það lauk sögu sinni um haustið. Hver var sá ritstjóri?
8. Ozark heitir amerísk sjónvarpssería sem margir munu hafa barið augum. Aðalkvenhlutverkið Wendy Byrde er í höndum leikkonu einnar frá New York-borg. Hvað heitir hún?
9. Eins og allir vita er saffran eða saffron dýrasta krydd í heimi. 95 prósent af allri framleiðslu þessa rándýra krydds er í einu og sama landinu. Hvaða land er það?
10. Metternich hét austurrískur aðalsmaður á 19. öld sem var lengi potturinn og pannan í utanríkispólitík þess stórveldis sem Austurríki var þá. En hann er líka kunnur fyrir annað. Sagt er að árið 1832 hafi kunnur karl í Vínarborg fundið upp og hrært í ákveðinn hlut og fært Metternich, sem lét sér mjög vel líka. Hvort þessi saga er sönn er óvíst, en altént hefur þessi hlutur æ síðan verið einn hinn vinsælasti í heimi af sínu tagi, og sífellt boðið upp á hann í fínum selskap. Hvað var þetta?

Svörin eru hér:
1. Tansaníu.
2. Birgir Sigurðsson.
3. „Keyrum þetta í gang.“
4. Halla Bergþóra Björnsdóttir.
5. Hinrika.
6. Arnþrúður Karlsdóttir.
7. Gunnar Smári Egilsson.
8. Laura Linney.
9. Íran.
10. Sacher-terta.
Svör við aukaspurningum:
Efri myndina er af Buster Keaton.
Neðri myndin er af hluta plötuumslags Led Zeppelin III. Þar er meðal annars að finna slagarann Immigrant Song um vinnuferð hljómsveitarinnar norður til Íslands. Svarið er því Led Zeppelin. Svona leit umslagið í heild út:

Þrautin frá því í gær er hérna.
En að lokum má sjá hér - til bragðbætis - eina sneið af Sacher-tertu:

Athugasemdir