Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) kynnti í gær nýtt merki sambandsins, byggt á landvættunum íslensku. Til að kynna merkið til leiks birti KSÍ kynningarmyndband þar sem beitt var mjög áhrifamiklu myndmáli. Fjöldi fólks lýsti því í gær á samfélagsmiðlum að það væri stórhrifið, hughrifin væru tilkomumikil og myndbandið fyllti fólk stolti af því að vera Íslendingur. Aðrir voru ekki eins hrifnir og lýstu því að myndmálið væri uppfullt af þjóðrembu, svo jaðraði við fasískt myndmál.
Í kynningarmyndbandinu eru landvættirnar kynntar ein af öðrum og sagðar vernda landið fyrir árásum. „Hetjur koma og fara en liðið stendur að eilífu saman sem ein heild, tilbúið til að berjast undir töfrum verndaranna sem að eilífu vaka yfir þjóðinni,“ segir í myndbandinu. „Einn hugur, eitt hjarta sem slær fyrir Ísland“.
„Gerði fólk þetta bara edrú og án lyfja?“
„Myndband KSÍ er eins og Leni Riefenstahl hafi fengið teikniteymi Ahnenerbe í lið með sér til að búa til kynningarstiklu fyrir fjöldafund Norðurlandadeildar SS. Gerði fólk þetta bara edrú og án lyfja?“ spurði Kristján B. Jónasson bókaútgefandi á Facebook í gær. Leni Riefensthal var þýskur kvikmyndaleikstjóri sem er hvað frægust fyrir að leikstýra nasista áróðursmyndinni Sigur viljans á fjórða áratug síðustu aldar, auk þess sem hún kvikmyndaði fleiri áróðursmyndir nasista í nánu samstarfi við Adolf Hitler. Ahnenerbe, sem Kristján minnist einnig á, var hugveita sem starfrækt var í Þriðja ríkinu á árunum 1935 til 1945 með það að markmiði reyna að færa sönnur á að hið norræna aríska kyn hefði áður ráðið heiminum.
Ungmennafélagsandinn í sinni verstu mynd
„Ég kann ekkert illa við merkið og það getur alveg staðið sem prýðismerki en mér finnst svolítið sérkennilegt að það minni hvergi á fótbolta,“ segir Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, sem er rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands og sérfræðingur í myndmáli.
„Þetta er botninn í greind þjóðarinnar, þetta er alveg með ólíkindum“
„Þegar drambið eða þjóðremban spilar á hæstu strengi fiðlunnar jaðrar þetta auðvitað við að vera hlægilegt. Þarna er ekki vottur af dyggðum, þetta er bara remba, þjóðremba. Sennilega hefur kommentakerfi Miðflokksins farið af stað til að dást að þessu. Þetta er hámark heimskunnar, að láta svona frá sér. Ég veit ekki hvort þarna eru börn að verki eða vanvitar, eða hvort það er virkilega verið að meina þetta. Þetta er ekkert annað en partur af þessari Trumpísku pólaríseringu, að ögra til öfganna, draga upp ungmennafélagsandann í sinni verstu mynd. Þetta er raunverulega ógeðfellt.“
Meðal þeirra sem lýstu ánægju sinni með merkið og myndbandið í gær var einmitt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sem sagði bæði merkið og myndbandið flott.
Spurður hvort hann telji að birting myndbands með myndmáli af þessu tagi geti verið hættuleg telur Goddur það tæplega. „Sjáðu til, maður veit aldrei hvað verður hættulegt. Trump hefur til dæmis náð að vekja upp allan heiminn með vitleysunni og hver veit hvað kemur í kjölfarið þegar kemur viðspyrnan við heimskunni. Kannski er það bara hið besta mál að leyfa þessum tæpu tíu prósentum sem kusu Guðmund Franklín og styðja Miðflokkinn að gleðjast yfir þessu. Þetta er botninn í greind þjóðarinnar, þetta er alveg með ólíkindum.“
Athugasemdir