Heimurinn er í uppnámi þessa stundina vegna COVID-19, loftslagsbreytinga, kynþáttamisréttis og aukins ójöfnuðar.
Alþjóðasamfélagið hefur hins vegar í vopnabúri sínu varanlega lausn sem færð hefur verið í letur í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er 75 ára á þessu ári.
Sú hugsjón um betri framtíð byggir á gildum jafnréttis, gagnkvæmrar virðingar og alþjóðlegrar samvinnu. Hún stuðlaði að því að koma í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina sem hefði haft hrikalegar afleiðingar fyrir líf á plánetunni okkar.
Sameiginleg áskorun okkar er að finna þessari sameiginlegu hugsjón farveg og standast þær þrautir og verkefni sem við er að glíma þessa stundina.
Heimsfaraldurinn hefur dregið fram í dagsljósið mikinn og kerfisbundinn ójöfnuð innan og á milli ríkja og samfélaga. Almennt þá hefur hann sýnt fram á hversu ótraustum fótum við stöndum ekki aðeins gagnvart annari heilbrigðisvá heldur hversu veikburða andspyrna okkar gegn loftslagsvánni er, lögleysunni í netheimum og hættunni á útbreiðslu kjarnorkuvopna. Fólk hvarvetna er að missa trú á pólitísk kerfi og stofnanir.
Fólk hvarvetna er að missa trú á pólitísk kerfi og stofnanir.
Við þetta neyðarástand bætast sárar mannlegar þjáningar víða um heim vegna átaka sem ekkert lát er á eða fara jafnvel harðnandi. Metfjöldi fólks hefur orðið að flýja heimili sín, engisprettufaraldur herjar á Afríku og Suður-Asíu, þurrkar eru í uppsiglingu í suðurhluta Afríku og Mið-Ameríku. Allt þetta er að gerast á meðan spenna eykst í samskiptum ríkja.
Andspænis þessum veikleikum ber heimsleiðtogum að sýna auðmýkt og viðurkenna gildi einhugs og samstöðu.
Enginn getur spáð því hvað gerist næst, en ég sé tvo möguleika.
Fyrst „bjartsýnis”-spáin.
Í þessari sviðsmynd tekst heiminum að göslast í gegnum þetta. Ríkjum á norðurhveli jarðar tekst að finna útleið úr vandanum. Þróunarríki myndu þurfa fullnægjandi aðstoð og sú staðreynd að íbúarnir eru hlutfallslega ungir að árum myndi hjálpa þeim að komast yfir þennan hjalla.
Og kannski myndi bóluefni komast í notkun innan níu mánaða eða svo og yrði dreift á viðráðanlegu verði og stæði öllum til boða.
Ef þetta gerist og hagkerfið endurræsist smátt og smátt verður ástandið orðið nokkurn veginn eðlilegt innan tveggja til þriggja ára.
En það blasir önnur og dekkri sviðsmynd við ef ríkjum mistekst að samhæfa aðgerðir sínar. Nýjar veiru-bylgjur skella á okkur. Sprenging verður í þróunarríkjum. Vinna við bóluefni dregst á langinn og jafnvel þó að bóluefni verði þróað tiltölulega fljótt yrði hörð samkeppni og auðug ríki myndu fá aðgang að því fyrst og skilja aðra eftir.
Í þessari sviðsmynd væri hætta á meiri sundrungur, aukinni lýðhyggju og útlendingahatri. Hvert ríki myndi hugsa um sig eða innan ramma svokallaðra bandalaga hinna viljugu til að takast á við sérstakar áskoranir. Þegar upp væri staðið myndi heiminum ekki takast að sameinast um þá stjórnun sem þörf er til að takast á við sameiginlegar áskoranir.
Niðurstaðan yrði jafnvel heimskreppa sem gæti varað í að minnsta kosti fimm til sjö ár áður en ástandið yrði eðlilegt á ný án þess að við vitum nákvæmlega hvers kyns ástand það yrði.
Það er torvelt að vita í hvaða átt við erum að fara. Við verðum að gera okkar besta og búa okkur undir hið versta.
Heimsfaraldurinn, eins hræðilegur og hann er, ætti að vera okkur þörf áminning að við verðum að breyta væntingum okkar og aðferðum og að öllum stafar hætta af sundrung.
Þessi sýn gæti fært okkur heim sanninn um að eina leið til að takast á við veikleika heimsins sé í krafti öflugri ferla hnattrænna stjórnarhátta með alþjóðlega samvinnu að leiðarljósi.
Þegar öllu er á botninn hvolft getum við ekki einfaldlega horfið aftur til þeirra kerfa sem áttu sök á núverandi kreppu. Við verðum að byggja betri samfélög og hagkerfi sem byggja á sjálfbærni og jafnrétti kynjanna í þágu allra.
Í þessu skyni verðum við að hugsa upp á nýtt hvernig þjóðir vinna saman. Milliríkjasamvinnu í dag skortir umfang, metnað og festu. Þar sem beitt verkfæri eru fyrir hendi, skortir vilja til að nota þau eins og best sést á þeim erfiðleikum sem Öryggisráðið stendur frammi fyrir.
Við þurfum á milliríkjasamstarfi að halda sem byggir á tengslaneti þar sem Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra, Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og staðbundin samtök á borð við Afríku- og Evrópusambandið verða að vinna nánar og betur saman.
Við þurfum líka á milliríkjasamstarfi að halda sem nær til allra. Ríkisstjórnir eru ekki lengur einu þátttakendurnir á vettvangi valda og stjórnmála. Borgaralegt samfélag, heimur viðskipta, borga-, sveita-, og héraðssjórnir taka sífellt að sér stærra forystuhlutverk í heiminum.
Allt þetta getur ýtt undir skilvirkari milliríkjasamskipti með þeim verkferlum sem nauðsynlegir eru til að hnattræn stjórnun virki þar sem hennar er þörf.
Ný tengslamiðuð, skilvirk milliríkjasamskipti með víðtækri þátttöku sem byggir á gildum Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna gæti vakið okkur upp frá svefngengils-ástandi okkar og komið í veg fyrir að við rötum í enn alvarlegri hættu.
Stjórnmálaleiðtogar um allan heim þurfa á að hlusta á þessa áminningu og sameinast um að takast á við veikleika heimsins, efla alþjóðlega stjórnarhætti, brýna klær milliríkjastofnana og nýta afl einhugs og samstöðu til að standast stærstu prófraun okkar tíma.
António Guterres er aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Athugasemdir