Aukaspurningar:
Úr hvaða tölvuleik er persónan hér að ofan?
Og hver málaði myndina hér að neðan af frú einni með hreysikött?
En þá eru það aðalspurningarnar tíu:
1. Hvað heitir aðalmarkvörður karlaliðs Liverpool í fótbolta?
2. Ef fram fer sem horfir, þá verður Vilhjálmur prins, sonur Díönu Spencer og Karls prins, einhvern tíma í framtíðinni konungur Bretlands. Vilhjálmur númer hvað mun hann þá verða?
3. Í hvaða landi er höfuðborgin Valletta?
4. Írland hefur unnið Eurovision söngvakeppnina oftar en nokkuð annað land. Hversu oft?
5. Golfleikarinn kunni Tiger Woods var ekki skírður Tiger, heldur er það gælunafn hans. Hvað er hið rétta fornafn golfleikarans?
6. Og talandi um golf. Árið 2017 var golfleikari í fyrsta sinn valinn íþróttamaður ársins á Íslandi. Hver var það?
7. Hvert er tilkall þýsku herflugvélarinnar Messerschmitt 262 til frægðar?
8. Hver lék Judy Garland í bíómynd frá í fyrra? Myndin hét einfaldlega Judy.
9. Við hvaða eyju er forngríska skáldkonan Saffó ævinlega kennd?
10. Fyrir nokkru síðan fóru þrjár ungverskar systur mikinn á skákmótum heimsins og sýndu rækilega fram á að konur geta vel keppt á jafnréttisgrundvelli við karla í skák. Þær báru ættarnafnið Polgar og sú yngsta reyndist þeirra langbest og var um tíma í hópi allra sterkustu skákmanna heims. Hvað heitir hún að fornafni?

1. Allison.
2. Vilhjálmur fimmti.
3. Á Möltu.
4. Sjö sinnum.
5. Eldrick.
6. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
7. Fyrsta þotan sem tekin var í almenna notkun með góðum árangri í hernaði.
8. Renée Zellweger.
9. Lesbos.
10. Judit.
Og svörin við aukaspurningum:
Persónan er úr tölvuleiknum Assassin's Creed.
Leonardo da Vinci málaði frúna og hreysiköttinn.
Athugasemdir