Þegar þú verður var við ranglæti er best að gera ekkert, segja ekkert, gagnrýna engan. Fjölmiðlar; ekki segja fréttina. Fræðimenn; ekki greina aðstæður. Almenningur; ekki taka þátt í umræðunni. Annars eruð þið allt það sem er að í þessu samfélagi, eða þannig má að minnsta kosti skilja skilaboð stjórnmálamanna sem lenda í vanda vegna framgöngu sinnar. Vandamálið er ekki þeirra. Vandamálið eru ekki þeir – heldur þið.
Íslenska leiðin er þessi: Verði stjórnmálamaður uppvís að vafasömu athæfi er málsvörnin gjarnan sú að hann hafi í raun gert rétt með því að gera það sem öðrum þótti rangt, en það hafi verið rangt af öðrum að fjalla um það, gagnrýna það eða krefjast svara.
Nú hefur stjórn Félags prófessora „fallið á prófinu“ að mati fjármálaráðherra, vegna þess að hún mótmælti „harðlega hinum pólitísku afskiptum íslenska fjármála- og efnahagsráðuneytisins af ráðningarmálum“ ritstjóra samnorræns fræðitímarits.
Íslenskum fræðimanni hafði verið boðin staðan þegar ráðuneytið lagðist eindregið gegn ráðningunni og rökstuddi það með því að dreifa röngum upplýsingum um manninn.
Aðferðir þöggunar
Eftir ákveðið tómarúm þar sem óljóst var hver bæri ábyrgð á samskiptunum við útlönd steig ráðherra loks fram og axlaði ábyrgð á málinu. Um leið gerði hann lítið úr málinu, með því að tala um að „atvinnumál“ mannsins hefðu orðið að „stórfrétt í samfélaginu“ - nánast eins og um væri að ræða ómerkilegt upphlaup þeirra sem hefðu ekkert betra við tíma sinn að gera. Málið snerist auðvitað ekki um atvinnumál mannsins heldur forsendurnar fyrir afskiptum ráðuneytisins, hvort manninum hafi verið refsað fyrir skoðanir sínar.
Höfum í huga að það er ekkert einsdæmi að fólki sé refsað fyrir skoðanir sínar eða gagnrýna umræðu, jafnvel þótt hún sé rökstudd og byggð á fræðilegri þekkingu. Samkvæmt rannsókn frá árinu 2014 hefur sjötti hver fræðimaður hér á landi vikið sér undan spurningum fjölmiðla af ótta við viðbrögð valdhafa. Álíka margir sögðu gagnrýni valdhafa koma í veg fyrir að þeir tjáðu sig um mál sem hafa pólitíska þýðingu. Sex prósent þeirra höfðu orðið fyrir hótunum vegna þess að þeir tjáðu sig á opinberum vettvangi.
Framlag fræðimanna til opinberrar umræðu er hins vegar ómetanlegt í lýðræðisríki og afleiðingar þess þegar þeir neita að tjá sig af ótta við viðbrögðin bitna á öllu samfélaginu. Rannsóknarnefnd Alþingis komst til dæmis að þeirri niðurstöðu að ótti fræðimanna við afleiðingar þess að tjá sig á opinberum vettvangi hefði komið í veg fyrir að þeir miðluðu þekkingu sinni í aðdraganda bankahrunsins. Enda mættu þeir fræðimenn sem þó tjáðu sig engu nema hroka og vanvirðingu. Óhikað var ráðist að trúverðugleika þeirra og þeim gerður upp annarlegur ásetningur. Talað var um „gjaldþrot trúverðugleika“ Háskóla Íslands vegna þess að háskólaprófessor sagði bankana tæknilega gjaldþrota áður en þeir hrundu. „Ég spyr líka sem menntamálaráðherra hvort þessi maður þurfi ekki á endurmenntun að halda?“ var svar menntamálaráðherra við viðvörunarorðum erlends sérfræðings hjá virtum fjárfestingarbanka.
Seinna sagðist ráðherrann fyrrverandi hafa farið í gegnum ákveðna endurmenntun eftir hrunið, hún hefði þurft á því að halda.
Með okkur eða á móti
Málið snerist líka að einhverju leyti um vinnubrögðin, þar sem ráðuneytið dreifði röngum upplýsingum um manninn. Það er reyndar ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist. Ekki eru nema nokkur ár síðan aðstoðarmaður ráðherra var dæmdur fyrir að dreifa viðkvæmum persónulegum og röngum upplýsingum um hælisleitendur, þeirra á meðal barnshafandi konu, í pólitískum tilgangi.
„Hvað hefur þú á móti ritstjóra þessa rits?“ spurði ráðherrann einn sem gagnrýndi afskipti ráðuneytisins af ráðningunni. Ekkert, það að gagnrýna afskipti ráðuneytis af ráðningu manns sem hefur aðrar pólitískar skoðanir en ráðherra felur ekki sjálfkrafa í sér andstöðu við þann sem var á endanum ráðinn. Eða ungu ónafngreindu konunni sem ráðherra kvaðst hafa viljað leggja til, en kom aldrei raunverulega til greina. En í íslenskum stjórnmálum ertu annaðhvort með eða á móti.
Ráðherra gekk svo enn lengra þegar hann gerði lítið úr faglegu starfi fræðiritsins. Hlutverk þess er að fjalla með sjálfstæðum hætti um efnahagsmál, koma á framfæri nýjustu rannsóknum á sviði hagfræði og stuðla að þekkingarmiðlun á milli Norðurlandanna. Það breytir því ekki þótt það sé fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni sem leggur stóru línurnar varðandi efnistök. Fræðiriti er ekki ætlað að styðja stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum, eins og ráðherra hélt beinlínis fram. „Við greiðum fyrir þetta rit,“ sagði hann og undirstrikaði þannig völd sín. Viðhorf íslenska ráðherrans virtist vera erlendum fræðimönnum framandi, en hér á landi hefur ráðherra kannski vanist því að hægt sé umgangast fjölmiðla með þessum hætti; Við eigum þetta, við megum þetta.
Að geta sjálfum sér um kennt
„Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að biðja einhvern prófessor úti í Svíþjóð afsökunar?“ spurði ráðherrann eftir að hafa sakað fráfarandi ritstjóra fræðiritsins, einn virtasta hagfræðing Norðurlanda, um vinahygli. Sá hafði unnið sér það til saka að mati ráðherrans að mæla með hagfræðingnum íslenska. Á fimmtíu ára ferli hafði sænski hagfræðingurinn aldrei setið undið öðrum eins ávirðingum og beið afsökunarbeiðni. En ráðherrann hélt áfram. Stýrinefndin hafði „stigið í spínatið“ vegna þess að hún hafði boðið íslenska hagfræðingnum stöðuna. Án þess að blikna hélt ráðherra því ranglega fram að fjölmiðlar hefðu farið með rangfærslur, vegna þess að þeir fjölluðu ekki um málið út frá sjónarhóli hans. Þingmenn stjórnarandstöðunnar áttu að hans mati að svara fyrir gagnrýni sína, en ráðherrann lét að því liggja að hin óeðlilegu afskipti fælust í því að sýna manninum sem hafði verið sviptur stöðunni stuðning.
Hann sem ætti ekkert tilkall til þessarar stöðu.
Kannski átti íslenski hagfræðingurinn ekkert tilkall til þessarar stöðu, en honum var engu að síður boðin hún. Hann átti rétt á sanngirni.
Maðurinn gat sjálfum sér um kennt, voru skilaboð ráðherrans. Fræðimenn sem ákveða að fara á svið stjórnmálanna og láta stór orð falla um aðra stjórnmálamenn eru sjálfir að valda sér skaða, fullyrti ráðherrann á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það væri ekki akademísk niðurstaða fræðimanna að segja stjórnmálaflokk andlit spillingar.
Sjálfur taldi hann sig eiga fullan rétt til að gera það sem hann gerði og hafa ástæðu til. Vegna þess að fræðimaðurinn hafði talað illa um stjórnmálaflokkinn hans. Jafnvel kallað Sjálfstæðisflokkinn andlit spillingar á Íslandi, með tilvísun í andstöðu flokksins til nýrrar stjórnarskrár, sem samþykkt var með meirihluta atkvæða í ráðgefandi kosningum en kæfð af Alþingi. Að mati fræðimannsins mátti skýra andstöðu flokksins við stjórnarskrána til þess að stórir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi væru stuðningsaðilar flokksins og hins vegar með því að flokkurinn vildi viðhalda óbreyttu ástandi í samfélagi, þar sem hann fer með völdin.
Þó að ráðherra hafi rétt á því að hafa skoðanir á ráðningu ritstjórans þá virðist rauði þráðurinn í viðbrögðum hans vera að umræddur maður sé óheppilegur til starfans þar sem hann sé of pólitískur. Fjármálaráðuneytið hefur engu að síður ráðið frjálshyggjumanninn Hannes Hólmsteinn Gissurarson í vinnu, meðal annars við að skrifa skýrslu um efnahagshrunið hér á landi, þar sem niðurstaðan varð að forysta fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins hefði verið lykilatriði fyrir Ísland. Þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins skipaði Hannes Hólmstein sem lektor við Háskóla Íslands, þvert á mat hæfisnefndar, rökstuddi hann það með því að ólík sjónarmið þyrftu að eiga sér málsvara innan veggja skólans. Nú er niðurstaðan sú að vinstri sinnaður maður er of pólitískur til að ritstjóra norrænu fræðiriti, en hægri sinnaður maður er ráðinn af ráðuneytinu til að skrifa söguna.
„Hvað þýðir það að vera ópólitískur?“ skrifaði íslenskur prófessor í hagfræði við Brown-háskólann í Bandaríkjunum. „Í sjúkum hugarheimi þessa fólks þýðir það að vera „ópólitískur“ að hafa verið virkur í Sjálfstæðisflokknum.“ Málið rifjaði upp fyrir honum „köfnunartilfinninguna“ sem hann fann fyrir á Íslandi þegar hann horfði upp á hvernig ráðið var í stöður.
Krafðist afsökunarbeiðni
Að lokum var það ekki ráðherra sem hafði beitt ranglæti heldur var það hann sem var beittur ranglæti, að eigin mati. Af mörgum, af svo ótrúlega mörgum.
Hann steig í pontu Alþingis og spurði einfaldlega: „Hver ætlar að biðja okkur afsökunar?“
Fyrirvari um hagsmuni: Þorvaldur Gylfason skrifar reglulega pistla í Stundina um efnahgsmál, alþjóðlega og á Íslandi.
Athugasemdir