Tilraunaverkefni hefst í haust þar sem unnið verður að því að auðvelda sauðfjárbændum að slátra sauðfé sjálfir heima á bæjum og markaðssetja það til neytenda. Það er óheimilt í dag, allt lamba- og kindakjöt sem sett er á markað verður að vera af sauðfé sem slátrað hefur verið í vottuðum sláturhúsum. Bændur hafa þó haft heimild til að slátra heima hjá sér til eigin nota en ekki til sölu.
Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra og Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Samtaka sauðfjárbænda, undirrituðu samkomulag um tilraunaverkefnið í gær. Með því á að leita leiða til að bæta afkomu sauðfjárbænda, hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar og auka verðmætasköpun í greininni.
Lengi hefur verið kallað eftir því af hálfu sauðfjárbænda að leiðir til að þeir geti slátrað heima og selt beint frá býli yrðu kannaðar, bæði vegna aukinnar kröfu neytenda um slík viðskipti en einnig til að auka verðmætasköpun á sauðfjárbúunum. Afkoma sauðfjárbúa hefur verið bæði sveiflukennd en einnig rýr árum saman og þannig hefur afurðaverð lækkað ár frá ári síðustu ár. Verkefnið er ein þeirra leiða sem fara á til að reyna að bregðast við þeirri stöðu.
Til þess að hægt verði að markaðssetja kjöt sem slátrað hefur verið heima á bæjum þarf að uppfylla ákvæði um matvælaöryggi, dýravelferð og hollustuhætti. Bændur munu sjálfir slátra fé heima við en dýralæknar á vegum Matvælastofnunar munu sinna opinberu eftirliti með gæðum. Kjöt af því sauðfé sem verður slátrað í tilraunaverkefninu verður ekki markaðssett enda aðeins um tilraun að ræða.
Athugasemdir