Þegar ég tek netpróf um hvaða starf hentar mér, fæ ég stundum uppstandari eða leikari. Ég klóra mér í kollinum og hugsa hvernig fær forritið það út. En auðvitað er margt sameiginlegt með starfi leikskólakennara og bæði uppstandara og leikara. Ekki bara að við erum stéttir sem keyrum á tilfinninum okkar, meira segja hægt að segja að við séum sífellt að selja þær og jafnvel stundum að falsa þær og feika. Það þýðir nefnilega lítið að mæta í leikhúsið eða leikskólann skapstyggur með hundshaus. Slíkur dagur verður ekki góður dagur, hvorki fyrir þig, börnin sem þú ert með eða samstarfsfólk. Sama er í leikhúsinu, þú leikur ekki gamanleik í brjáluðu skapi og lætur skapsmuni þína lenda á mótleikurum og áhorfendum. Þú þarf að læra að stilla þig, læra að stjórna tilfinningum þínum og viðbrögðum, vera leikarinn. Kannski aðeins annað með uppistandarann, sem fær meira segja borgað fyrir að vera önugur. Í leikskólanum segjum við hinsvegar að það sé skylda að skilja mislyndið og önugheitin eftir í fatahenginu.
Sögufólkið
Við eigum fleira sameiginlegt með leikurum og uppistöndurum en að vinna með tilfinningar, í leikskólanum er sögufólk og í því sameinast bæði leikari og uppistandari. Sögufólkið er góðir í að búa til sögur, segja sögur sem heilla og gagntaka litla hlustendur, sumir eru góðir í að lesa sögur með slíkum tilþrifum, eða svo lágstemmt en samt svo seiðandi að lítil eyru þurfa að leggja sig öll við. Mínar uppáhaldsstundir í leikskólanum tengjast einmitt því að segja sögur. Semja sögur sem féllu að deginum, stundum voru það ævintýr með tröllskessum, stundum um börn í vanda, stundum um dýr sem þurfti að bjarga, hin sígildu ævintýri sem ég nútímavæddi og eða snéri við hetjuhlutverkum voru líka í uppáhaldi bæði hjá mér og börnunum. Stundum bjó ég til sögur um börnin sem ég var með þá stundina eða ánamaðkinn sem slæddist inn í litlum lófa. Eitt af því sem lærist eru lítil trix til að halda barnahópum við efnið, fá þau með í söguna og ferðalagið sem henni fylgir. Að beita röddinni, kroppnum, aukahlutum, hreyfingum, allt sem hjálpar til að halda athygli stórra og lítilla hópa. Að kunna að stoppa, fara til baka, spyrja, fá börnin til að taka þátt í hvert sagan heldur, að byggja upp spennu og loka sögu. Gefa börnunum vald á og yfir sögunni. Hvetja til spurninga og þess að þau velti vöngum og ímyndi sér nýjar og jafnvel öðruvísi sögur. Allt atriði sem við vitum að skipta miklu fyrir skapandi og gagnrýna hugsun barna. Fyrir valdeflingu þeirra og orðaforða. Sem seinna á ef til vill eftir að skilja á milli þeirra sem gengur vel í námi og lífi og þeirra sem ströggla.
Listum er ætlað að ögra
Meðal hlutverka listanna er að staðsetja okkur hugmyndafræðilega, ögra því viðtekna og fá okkur til að hugsa og bregðast við. Listirnar eru spegill á samtímann, í listum geymist sammannlegt minni okkar og reynsla. En til að við njótum þeirra og skiljum þurfum við að hafa alist upp við að hugsa, greina, skapa og njóta. Ótrúlegt nokk samverustund í leikskóla byggir undir það. Komdu að kenna.
Athugasemdir