Í dag birtir Kvennablaðið grein um umfjöllun Stundarinnar árið 2017 um finnska móður sem var föst hér á landi vegna forræðismáls. Kvennablaðið segir að ég hafi hunsað sönnunargögn af hálfu íslensks barnföður og neitað að birta pistil hans á Stundinni.
Ekki var leitað okkar sjónarmiða minna eða Stundarinnar fyrir birtingu þessara ásakana í Kvennablaðinu, þrátt fyrir að ég hafi gert athugasemdir við blaðamanninn um fyrri tilfelli einhliða ásakana miðilsins, og því lýsi ég þessu hér:
Við ætluðum ekki að halda áfram umfjöllun um þetta mál. Fyrir birtingu greinarinnar 2017 var haft samband við manninn, rætt við hann og honum sendar spurningar. Afstaða hans kom fram í greininni. Nafn hans var ekki birt, vegna þess að greinin fjallaði um reynslu hennar sem erlendrar konu í biðstöðu hér á landi vegna langvinnrar forræðisdeilu. Við ákváðum að leyfa henni að segja sögu sína, en segjum eðlilega ekki allt. Líklega var alvarlegasta atriðið að greina frá því að konan hefði talið sig upplifa andlegt ofbeldi af hálfu maka, sem kom meðal annars fram í sálfræðiskýrslum.
Þetta mál hefur farið fyrir dóm hér á landi, í gegnum öll dómsstig. Niðurstaðan var að konan vann forræðismálið. Nánar um það neðar.
Maðurinn hefur í millitíðinni ásakað marga umog margvíslega hluti. Þegar hann hafði samband nokkrum mánuðum eftir að greinin birtist, bauð ég honum að skrifa andsvar, ef hann vildi. Pistillinn sem Kvennablaðið segir að ég vilji ekki birta á Stundinni hefur að geyma alvarlegar ásakanir í garð fjölda manns.
Hann segir að dómari hafi ítrekað brotið lög. Dómari hafi handstýrt málinu. „Fulltrúi sýslumanns braut vísvitandi lög,“ segir hann líka. Hann sakar sálfræðing um „klár brot“. „Þrír læknar FALSA læknisvottorð,“ skrifar hann. Auk þess hefur hann ásakað Kvennaathvarfið, Ríkisútvarpið og fleiri aðila.
Hann kallar barnsmóður sína „ofbeldismanneskju“ og barnaræningja. Ein af ásökunum hans gegn barnsmóðurinni, sem hann færði til staðfestingar á málstað sínum, var að konan hefði beitt dóttur hans „ljótu ofbeldi“. Þegar nánar var að gáð kom í ljós að ofbeldið fólst í því að hún hafði átt að hafa öskrað þegar barnið var viðstatt í rifrildi þeirra.
Hann notar gegn barnsmóður sinni að hún sé „manneskja sem hefur verið á geðlyfjum“. En hún upplifði kvíða- og þunglyndiseinkenni í fyrsta sinn í sambandi við hann, vegna þess að hún taldi sig einangraða á Íslandi, og lýsti afar erfiðu sambandi, meðal annars vegna meintrar stjórnsemi hans.
Nú undirbýr maðurinn málsókn gegn Stundinni, eins og hann hefur boðað síðustu ár. Hann sakar Stundina meðal annars um að brjóta fjölmiðlalögin með því að hafa ekki birt pistilinn sem hann sendi. Fjölmiðlalögin kveða á um að veita eigi andsvar vegna ásakana, en þau skylda ekki fjölmiðla til að birta alvarlegar ásakanir á hendur fjölda fólks. Í lögunum segir að fjölmiðlaveita getiur synjað beiðni um andsvar við eftirfarandi aðstæður:
b. ef í andsvarinu felst annað og/eða meira en að leiðrétta staðreyndir sem fram hafa komið hjá fjölmiðlaveitunni.
c. ef andsvarið felur í sér efni sem brýtur í bága við almenn hegningarlög og er til þess fallið að gera fjölmiðlaveituna skaðabótaskylda eða er andstætt almennu siðferði.
Við töldum að þetta gilti um pistilinn.
En ég býst fastlega við að Kvennablaðið birti núna þennan pistil mannsins um allt þetta fólk, rétt eins og Eva Hauksdóttir, sem skrifar greinina og hefur pistilinn undir höndum, reynir að gera mig og samstarfsfólk mitt tortryggileg fyrir að gera ekki. Enginn bannar öðrum fjölmiðlum að fjalla meira um hlið hans, en þeir gera það ekki þótt hann sendi þeim yfirlýsingar.
Í úrskurði Landsréttar er maðurinn gagnrýndur fyrir að leggja fram „fjölda gagna sem hafa enga þýðingu fyrir úrslit málsins, auk þess sem nokkuð er um að sömu gögn hafi verið lögð fram oftar en einu sinni.“ Dómstóllinn gagnrýnir hann enn frekar:
„Einnig hafa verið lögð fram sönnunargögn sem aðaláfrýjandi hefur átt við með því að rita inn á þau athugasemdir sem heyra til málflutnings.“
Og: „Greinargerð aðaláfrýjanda fyrir Landsrétti er 45 blaðsíðna löng ... Með greinargerðinni var einnig lögð fram skýrsla sem felur í sér umfjöllun og mat aðaláfrýjanda á framkvæmd eigin skýrslutöku í héraði. Er framlagning þessa skjals í andstöðu við meginregluna um munnlega málsmeðferð. Er þetta aðfinnsluvert.“
Maðurinn hefur sent mér mikið af gögnum sem mörg hver eru torgreinanleg, ásamt alvarlegum ásökunum á hendur fjölda fólks. Hvorki ég né Stundin erum fær um að miðla slíku áfram eða vinna verk sem ekki einu sinni dómstólar treysta sér til, þótt blaðamaður Kvennablaðsins geri það.
Fyrir héraðsdómi var tekið undir lýsingar barnsmóðurinnar að hluta: „Í meðferð málsins fyrir héraðsdómi var faðir mjög stjórnsamur, fylginn sér og líklegt að fólk skynjaði hann sem ógnandi“.
Við á Stundinni höfum þessa reynslu af honum. Við höfum þurft að setja honum mörk meðan hann stóð yfir okkur þar sem við borðuðum hádegismat á veitingastað. Hann er kannski markalaus, en er líka að glíma við mjög erfið mál. Hann er metinn fullfær um að vera með barnið sitt af dómstólum, en „djúpstæður samskiptavandi“ kemur í veg fyrir sameiginlega forsjá, samkvæmt niðurstöðu dómstóla. Það er harmleikur að samskiptin séu svona slæm milli hans og barnsmóðurinnar. Og að hann sé upp á kant við eins marga og raun ber vitni.
Fjölmiðlum ber skylda til að fjalla um samfélag sitt. Líklega eru forræðismál erfiðasta umfjöllunarefnið. Ef fjallað er um slík mál verður alltaf einhver ósáttur um lýsingar. Hluti af umfjöllun Stundarinnar um forræðismál hefur sprottið af ábendingum frá hópi forsjárlausra feðra sem töldu kerfisbundið á sér brotið. Umfjöllunin getur ekki verið öll á þeirra forsendum, hversu „fylgnir sér“ sem þeir kunna að vera. Formaður Félags um foreldrajafnrétti hefur þannig gagnrýnt Stundina harðlega í aðsendum greinum á Kvennablaðinu fyrir að segja frá því að hann hefði ákveðið að stöðva umgengni barnsmóður sinnar við dóttur sína, og sakað aðra dóttur sína og stjúpdóttur um „þátttöku í ofbeldi“. Dofri hefur undanfarin ár þrýst mikið á að Stundin fjalli um mál hans og annarra hefur verið ósáttur við að það hafi ekki verið gert meira.
Einn forsjárlaus faðir, sem ákvað að gefa frá sér barnið sitt, en snerist hugur, sagði sögu sína í viðtali í Stundinni fyrir nokkrum árum. Hann skrifar ummæli undir fyrrgreinda frétt Kvennablaðsins um að ég og Stundin séum að fela sönnunargögn í þessu tveggja og hálfs árs gamla máli sem meira að segja dómstólar voru að bugast undan vegna gagnamagns föður. Hann vill fá okkur blaðamennina „á bak við lás og slá fyrir mannorðsmeiðingar og róg“.
Og blaðamaður Kvennablaðsins telur að Stundin hafi kallað yfir sig fleiri meiðyrðamál. Gildismat blaðamannsins birtist í smásögu sem birt var á Kvennablaðinu í síðustu viku um mann sem ákvað að hefja störf sem húsvörður í skóla til að fylgjast á laun með dóttur fyrrverandi kærustu sinnar og taka af henni myndir árum saman, áður en hann kynnti sig fyrir henni. Hann segir stúlkunni frá því að hann hafi slegið móður hennar, en væri samt ekki ofbeldismaður og ætti samt að fá að umgangast hana, en hún hafi tekið saman við annan mann.
Líklega eru engin mál sem blaðamenn á Stundinni hafa fjallað um sem kallað hafa aðra eins áreitni eins og umfjallanir um málefni baráttuhópanna Félag um foreldrajafnrétti, sem áður hét Félag ábyrgra feðra, og Facebookhópsins DaddyToo, sem taldi sig eiga heimtingu á að leika eftir félagslega byltingu þolenda kynferðisofbeldis, MeToo. Nafn annars ritstjóra Stundarinnar hefur nýlega verið auglýst í kostaðri Facebook-færslu DaddyToo-hópsins og hún sökuð um krossferð til að styðja ofbeldi gegn börnum. Varaformaður Félags um foreldrajafnréttis óskaði sér þess í afmælisgjöf í kvöld að fólk segði upp áskrift að Stundinni, merkti mig við og birti svo táknmynd af fögnuði.
Að þessu leyti má segja að við höfum öðlast nokkra innsýní reynslu og hugarheim fólks. Í sumum málanna er fólk að hindra umgengni vegna sannanlegs ofbeldis, eða jafnvel neytt til umgengni við ofbeldismenn sína. En það sem mörg önnur þessara mála virðast eiga sammerkt er langt leidd átakasækni og langrækni.
Athugasemdir