Vissir þú að það er ansi algengt að fólk heyri raddir, sjái sýnir eða lifi með öðrum tengdum skynjunum sem ekki öll hafa? Mörg okkar tengja sérstaklega við þessar upplifanir á barns- eða unglingsárum, t.d. þegar við sáum eitthvað í myrkrinu, heyrðum hljóð, áttum „ímyndaða“ vini eða vorum í tengslum við annan raunheim. Stundum eldist það af okkur, en fyrir önnur er þetta hluti af daglega lífi okkar og eykst jafnvel við ákveðnar aðstæður.
Það er hægt að túlka raddir, sýnir og aðrar óhefðbundnar skynjanir með öðrum hætti en læknisfræðilega líkanið gerir ráð fyrir. Við þekkjum dæmi þess úr íslenskri menningu þar sem okkur þótti ekkert tiltökumál að fólk sæi álfa og huldufólk, eða væri í beinum tengslum við þjóðsögurnar á tímum torfbæjanna. Einnig hafa Íslendingar talað um skyggnigáfu og jafnvel leitað til einstaklinga með þau tengsl við óhefðbundnar upplifanir af lífinu. Það sama má segja um aðra menningarheima. Þá er jafnvel talið venjubundið að vera í góðum tengslum við forfeður sína sem hafa látist fyrir löngu eða leita til töfralækna eða annarra sem eru í auknu sambandi við aðra heima.
Enn ríkir þöggun
Það að heyra raddir, sjá sýnir eða upplifa aðrar tengdar skynjanir er eðlilegur hluti af mannlegum fjölbreytileika og það eru mannréttindi okkar að geta rætt þessar upplifanir við skilningsríka jafningja án sjúkdómastimplunar. Þau sem heyra raddir hafa í gegnum söguna ítrekað verið útilokuð, upplifun þeirra sjúkdómsvædd, rætt um þau á fordómafullan máta og brotið á mannréttindum þeirra. Því miður ríkir enn mikil þöggun og fordómar er varðar skynjanir sem þessar og gegn þeim sem lifa með óhefðbundum upplifunum.
Hearing Voices hreyfingin var stofnuð í Hollandi árið 1987 en hefur nú útbreiðslu um heim allan. Markmið hreyfingarinar er að styðja þau sem heyra raddir til að finna leiðir til að lifa með röddum og leysa þessa upplifun úr ánauð. Fyrir ári síðan voru íslensku landssamtökin Hearing Voices Iceland sett á stofn með sama markmið að leiðarljósi. Samtökin hafa meðal annars boðið upp á vikulegan jafningja- og stuðningshóp fyrir fólk sem heyrir raddir, sér sýnir eða lifir með öðrum tengdum skynjunum í samstarfi við Hugarafl. Þau hafa einnig staðið fyrir opnum fræðsluviðburðum, uppistandi og kvikmyndasýningum til að opna umræðu um þessa nálgun sem sjúkdómsvæðir ekki fjölbreyttar upplifanir af lífinu.
Umræðan um geðheilbrigðismál er sífellt að opnast. Skömminni er að létta og við eigum óhikað að geta stigið fram með upplifanir okkar. Það skiptir þó sköpum á hvaða forsendum við opnum umræðuna og hvaða hugmyndafræði liggur þar að baki. Það eru til aðrir valmöguleikar en hefðbundið læknisfræðilegt líkan – og þeir valmöguleikar miðla raunverulegum bata, mannvirðingu og réttindum.
Athugasemdir