Gleymum því ekki að forsvarsmenn Samherja eiga börn, áréttaði þingmaður og fyrrverandi ráðherra, í sömu andrá og hann gagnrýndi umfjöllun fjölmiðla um fyrirtækið og tilkynnti að flokkurinn hans hefði gert tillögu um að hætt yrði við ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla.
Gleymum því ekki að eigendur Samherja eiga börn og nú eiga börnin Samherja.
Þá skulum við ekki heldur gleyma því að hér á landi alast líka upp börn sem fara svöng að sofa vegna þess að það er lítið sem ekkert til í ísskápnum. Við skulum aðeins staldra við og hugsa til sextán ára gamallar stelpu sem sagði frá því að hún hefur ekki haldið upp á afmælið sitt síðan hún var tíu ára gömul, vegna þess að hún veit að það kostar peninga sem eru ekki til á heimilinu.
Er það heppni eða örlög fólks sem ræður því hvort börn sem hér alast upp fari svöng að sofa eða fái milljarða gjafir frá foreldrum sínum – eða er það til marks um að það sé eitthvað að í samfélaginu, að kerfið sem við höfum skapað sé ekki að virka sem skyldi?
„Stundum er ég svöng og það er enginn matur til,“ sagði stúlka í viðtali við Stundina, ein þriggja barna sem lýstu veruleika þeirra 8.500 barna hér á landi sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum.
Sjávarútvegurinn hefur verið ein helsta undirstaða íslensks efnahagslífs, en auðurinn sem skapast af þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar hefur smám saman verið að færast í vasa einstaklinganna sem fara með kvótann. Í dag fara tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækin með ríflega helming alls úthlutaðs kvóta. Þrjú stærstu fara með um 43 prósent kvótans. Þeirra á meðal er Samherji, sem er annars stærsti einstaki kvótaeigandi landsins og á auk þess stóran hlut í Síldarvinnslunni. Fyrir utan starfsemi fyrirtækisins erlendis.
Til að átta sig á upphæðunum: Eigendur Samherja greiddu sér um 1.220 milljónir í arð árið 2017.
Ári síðar hagnaðist Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og stærsti hluthafi Samherja, um tæpa 5,4 milljarða í gegnum félagið sem heldur utan um hlutabréf hans í Samherja. Með löglegri fléttu kemst hann hjá því að greiða sér út arð og notar þess í stað aðferðir sem vekja minni eftirtekt og fela í sér skattalegt hagræði. Tekjur upp á 100 milljónir króna segja aðeins litla sögu um þá ótrúlegu auðsöfnun sem birtist í ársreikningum félagsins ár eftir ár. Rétt eins og 24 milljarða eignir hans ein og sér gefa aðeins takmarkaða sýn. Skráðar eignir Samherja segja nefnilega bara hluta sögunnar, því skráð virði kvótans í bókhaldi félagsins er tugmilljörðum krónum lægra en raunverulegt virði hans.
Í síðustu viku var síðan greint frá því að aðaleigendur Samherja hefðu framselt hlutabréf í fyrirtækinu til barnanna sinna. Á Alþingi var rætt um gjörninginn sem sumargjöf. Þetta er þá væntanlega stærsta sumargjöf Íslandssögunnar, að andvirði 60–70 milljarða króna, mestu fjármunir sem hafa verið greiddir í arð hér á landi.
Með þessu vildu stofnendur Samherja viðhalda þeim fjölskyldutengslum sem hafa verið „hornsteinn í rekstrinum“, sagði í tilkynningu.
Rétt er að halda því til haga að velgengni fyrirtækisins byggir ekki á fjölskyldutengslum heldur aðgengi að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.
Með öðrum orðum þá eru erfingjarnir í Samherja að fá framseldan kvóta sem hefði samkvæmt nýju stjórnarskránni verið óframseljanleg eign þjóðarinnar. Eign sem sjávarútvegsfyrirtækin ættu að greiða fullt verð fyrir. Eign sem myndi skila arði í okkar sameiginlegu sjóði hefði stjórnarskráin verið samþykkt, samkvæmt vilja þjóðarinnar.
Tíminn líður og ekkert breytist.
Nú eru átta ár liðin frá því að kosið var um nýja stjórnarskrá, sem samþykkt var með miklum meirihluta. Alls greiddu 85 þúsund atkvæði með auðlindarákvæði þar sem kveðið er á um að auðlindir í náttúru Íslands séu sameiginlegar og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn geti fengið auðlindirnar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Aldrei megi selja þær eða veðsetja og krafist verði fulls gjalds fyrir afnot af þeim.
Þrátt fyrir skýran vilja þjóðarinnar var stjórnarskránni drekkt á Alþingi. Enn í dag er deilt um réttmæti þess að ríkið innheimti fullt gjald af afnot af auðlindinni.
Í stað þess að hagnaðurinn renni í ríkissjóð þar sem hægt væri að nýta hann til að styrkja innviði, reka heilbrigðiskerfi sem er ekki svo fjársvelt að læknar séu stöðugt að vara við hættunni, eða tryggja að ekkert barn fari svangt að sofa vegna þess að foreldrar þess fá ekki tekjur sem duga fyrir lágmarksframfærslu, rennur afraksturinn meira og minna í vasa útgerðarmanna. Og þaðan til barnanna þeirra.
Ár eftir ár greiða eigendur sjávarútvegsfyrirtækja sér hundruð milljóna í arð á ári hverju. „Finnst okkur þetta eðlilegt?“ spurði núverandi forsætisráðherra í aðdraganda kosninga. Þá vildi hún hækka veiðigjöldin en stýrir nú ríkisstjórn sem tók ákvörðun um að lækka veiðigjöld um tvo milljarða.
Á opnum borgarafundi um veiðigjöldin sem fram fór í Neskaupstað árið 2012 steig forstjóri Síldarvinnslunnar í pontu og lyfti upp mynd af fjölskyldunni sinni, með þeim orðum að of mikið væri í húfi til þess að hægt væri að samþykkja hækkun veiðigjalda: „Gerum þetta þannig að að hún færi börnunum okkar líka framtíð,“ sagði hann, en ljóst er að sum börn sjá fram á betri framtíð en önnur.
Sjómenn voru síðan sendir á Austurvöll til að mótmæla veiðigjöldunum, en þeir voru ekki að berjast fyrir sínum hagsmunum heldur eigendanna. Einn erfingi Samherja hafði þá þegar lagt til fléttu til að lækka hlut sjómanna, en tölvupóstur þess efnis var ekki afhjúpaður fyrr en síðar. Veiðigjöldin voru líka lækkuð aftur um leið og ný ríkisstjórn komst til valda, þrátt fyrir stöðugt aukinn og svimandi hagnað í greininni.
Feitur verður feitari, þar til hann springur í andlitið á okkur.
Nú var 42 milljarða gjafakvóti afhentur nýrri kynslóð án skattlagningar.
En gleymum ekki börnunum, sagði þingmaðurinn.
Ástæðan fyrir áminningu þingmannsins var umfjöllun fjölmiðla um vafasama viðskiptahætti Samherja í Namibíu. Þar sæta nú sex menn, þar af tveir fyrrverandi ráðherrar, ákæru fyrir háttsemi eins og spillingu, fjársvik og peningaþvætti, eftir að hafa þegið greiðslu fyrir að útvega dótturfélagi Samherja kvóta þar í landi. Hafa þeir setið í gæsluvarðhaldi frá því á síðasta ári.
Afleiðingarnar af gjörðum þeirra eru áþreifanlegar fyrir fólkið sem býr í Namibíu. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa misst frá sér kvóta, neyðst til að draga úr starfsemi sem hefur valdið því að fólk hefur misst vinnuna og lífsviðurværi sitt.
Hér á landi brást sjávarútvegsráðherra við fréttunum með því að hringja í forstjórann til að athuga hvernig honum liði eftir afhjúpunina.
Fyrrnefndur þingmaður og fyrrverandi ráðherra skrifaði grein þar sem hann kvaðst hugsa til starfsmanna og forsvarsmanna fyrirtækisins, sem ættu fjölskyldur og börn. Börn sem ættu kannski erfitt að skilja hvers vegna faðir þeirra væri dreginn inn í slíka umræðu.
„Sýndu smá sómakennd og drullaðu þér í burtu,“ sagði einn sonurinn um leið og hann stuggaði við seðlabankastjóra á göngum Alþingis, manni sem sætti stöðugum hótunum frá forsvarsmönnum Samherja vegna rannsóknar bankans á starfsháttum fyrirtækisins.
Líklega hafði þingmaðurinn eigin börn í huga, enda hefur sonur hans stigið fram til að útskýra hvað það sé erfitt að eiga umdeildan föður. Það sé sárt að fylgjast með viðbrögðum fólks, ekki síst eftir að faðir hans var staðinn að því að rægja konur, homma og fatlað fólk, þar sem hann sat drukkinn á bar og hreykti sér af því að skipa mann sem hann kallaði fávita sem sendiherra í skiptum fyrir persónulegan greiða síðar meir á ferlinu og þeir félagar ætluðu að hefna sín á samstarfskonu sinni á þinginu með því að „hjóla í helvítis tíkina“.
Fjölmiðlar bæru ábyrgð, sagði þingmaðurinn og lagðist gegn styrkjum til þeirra.
Sá hinn sami og sendi flokksformanni sínum SMS: „Erum að fara á leyndófund LÍÚ.“
Það er ekki alltaf auðvelt að eiga umdeilda foreldra. En það hjálpar líklega að fá tugi milljarða gefins.
Það er ekkert einsdæmi að börnin erfi útgerðarfélög feðra sinna, þótt upphæðirnar sem liggja nú að baki séu umtalsvert hærri en áður hefur þekkst.
Fyrir um fimmtán árum voru tveir erfingjar Aðalsteins Jónssonar til að mynda keyptir út úr Eskju fyrir 1.130 milljónir og 1.350 milljónir. Systir þeirra stýrir nú fyrirtækinu. En nóg er aldrei nóg.
Eskja var eitt sjö útgerðarfyrirtækja sem stefndu ríkinu nýlega til greiðslu skaðabóta upp á tíu milljarða vegna úthlutunar makrílkvóta. Áður höfðu þessi sjö fyrirtæki fengið kvóta að andvirði 50 milljarða króna. Fimm af þeim féllu frá málsókninni og sögðu að ástæðan væri erfið staða ríkissjóðs vegna kórónuveirunnar. Þeirra á meðal var Eskja, sem hafði fengið sjö milljarða makrílkvóta gefins en krafðist skaðabóta upp á tvo milljarða.
Reyndar hefur fyrrverandi fjármálaráðherra bent á að fyrirtækið fái árlega 700–950 milljónir að gjöf frá ríkisstjórninni fyrir að „gera ekki handtak“, það er að segja fyrir að leigja út kvóta sem fyrirtækinu er úthlutað frá ríkinu. Benti hann líka á að hagnaðurinn sé ekki nýttur til uppbyggingar í heimabyggð heldur til frekari fjárfestinga eigenda.
Þannig rennur auðurinn á milli kynslóða.
Alveg eins og börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til þess að búa áfram við fátækt á fullorðinsárum.
Þetta þarf ekki að vera svona.
Í eldræðu fjármálaráðherra á Alþingi benti hann á að fiskveiðistjórnunarkerfið sé ekki náttúrulögmál, heldur mannanna verk: „Aðgangur að auðlindinni, stjórnun veiðanna, hvernig við viljum tryggja sjálfbærni veiðanna, hvaða gjald við ætlum að taka í veiðigjald. Þetta eru allt mál sem við ráðum til lykta hér á Alþingi með lögum og reglum,“ sagði hann fyrr í vor.
Kannski er kominn tími til að tryggja aðeins jafnari skiptingu efnahagslegra gæða hér á landi.
Nú þegar það er að koma sumar skulum við allavega reyna að muna að hér búa líka börn sem hafa aldrei nokkurn tímann farið í sumarfrí með foreldrum sínum. Það eru lífsgæði sem sum heimili geta alls ekki staðið undir.
Gleðilegt sumar.
Athugasemdir