Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir Flugfreyjufélag Íslands hafa hafnað lokatilboði flugfélagsins og nú verði allir kostir í stöðunni kannaðir áður en næstu skref verði ákveðin. Þetta kemur fram í bréfi Boga til starfsfólks Icelandair sem var sent skömmu eftir að samningafundi fyrirtækisins við flugfreyjur lauk. Samkvæmt heimildum Stundarinnar leggur samninganefnd flugfreyja ekki trú á að yfirlýsing Boga frá því fyrr í morgun, um að fyrirtækið hafi ekki átt í viðræðum við önnur stéttarfélög um gerð kjarasamnings um störf flugfreyja og flugþjóna, eigi við rök að styðjast.
Í bréfi sem Bogi sendi starfsmönnum segir enn fremur að Icelandair hafi í fyrradag lagt fram tilboð sem í raun hafi verið lokatilboð. Það hafi verið ítrekað á samningafundi í morgun, með eftirgjöf í ákveðnum málum, svo sem hækkun á öll grunnlaun auk annars. Saminganefnd Flugfreyjufélagsins hafi hins vegar hafnað tilboðinu og einnig beiðni Icelandair um að það yrði borið undir atkvæða félagsmanna.
Kröfur flugfreyja séu með þeim hætti, segir í bréfi Boga, að ef fallist yrði á þær myndi vera vikið langt frá þeim markmiðum sem náðst hefði sátt um í samningum við flugmenn og flugvirkja. „Við erum nú að skoða alla kosti í stöðunni,“ segir í bréfi Boga.
Í morgun var greint frá því í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu að verið væri að kanna mögleika þess að stofna nýtt stéttarfélag flugfreyja sem samið yrði við og að látið yrði reyna á forgangsréttarákvæði kjarasamnings FFÍ fyrir félagsdómi.
Alþýðusamband Íslands sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem áréttað var að stéttarfélög væru félög launafólks sem nytu verndar í stjórnarskrá og atvinnurekendum væri óheimilt að skipta sér af. „Icelandair getur ekki sjálft stofnað til eða haft frumkvæði að stofnun stéttarfélaga. Við slíkt atferli verður ekki unað í íslensku samfélagi og Icelandair hollt að hafa í huga að aðildarfélög ASÍ hafa heimildir til þess að veita FFÍ stuðning í yfirstandandi kjaradeilu með boðun samúðarvinnustöðvana og fulla heimild til þess að verja réttarstöðu sína gegn ólögmætum árásum.“
Bogi sendi Flugfreyjufélagi Íslands bréf í morgun þar sem lýst var yfir að Icelandair hefði ekki átt í viðræðum við önnur stéttarfélög um samninga við flugfreyjur og flugþjóna. Samkvæmt heimildum Stundarinnar mun ekki vera lagður mikill trúnaður á þá yfirlýsingu hjá samninganefnd flugfreyja eftir atburði dagsins.
Athugasemdir