Fyrirtækið Skeljungur er hætt við að nýta sér ríkisaðstoð í gegnum hlutabótaleiðina og mun endurgreiða það sem ríkið hefur greitt vegna starfsmanna félagsins í aprílmánuði, samkvæmt yfirlýsingu sem framkvæmdastjóri félagsins, Árni Pétur Jónsson, sendi rétt í þessu.
Stundin greindi frá því í fyrradag og í gær að hluthafar félagsins hefðu fengið 600 milljónir króna í arð frá félaginu og að sex dögum síðar hafi starfsmenn Skeljungs verið settir á hlutabótaleiðina.
Í yfirlýsingunni nú segir að Skeljungur bjóði „öllum starfsmönnum sínum 100% vinnu og endurgreiði Vinnumálastofnun“.
„Í fjölmiðlum í dag hefur verið fjallað um kostnað ríkissjóðs vegna þeirra starfsmanna Skeljungs sem fengu hlutabótagreiðslur í apríl. Að athuguðu máli telur Skeljungur að ekki hafi verið rétt að nýta úrræðið. Skeljungur mun því bjóða starfsmönnum sínum 100% vinnu frá og með 1. maí og endurgreiða Vinnumálastofnun allan þann kostnað sem til féll vegna starfsmanna Skeljungs í aprílmánuði. Allir starfsmenn Skeljungs hafa nú verið færðir í 100% vinnuhlutfall og munu því ekki sækja frekari bætur til Vinnumálastofnunar.“
Athugasemdir