Þegar það ríður yfir áfall, og 55 þúsund manns fara í einu á atvinnuleysisbætur og það þarf að blása lífi í dauða atvinnugrein er gott að geta gripið í tugi eða hundruð milljarða af eignum almennings fyrir milligöngu ríkisstjórnarinnar. Líka þótt maður stundi skattasniðgöngu eins og trúarbrögð og fyrirlíti þær bremsur á einkaframtakið sem skattheimtan felur í sér.
„Ég sé ekki aðra leið en að ríki og sveitarfélög leggi til þetta fé,“ sagði talsmaður Hótel- og gistihúsaeigenda í viðtali við Kastljós um miðjan apríl eftir að hafa lýst því yfir að hlutabætur til starfsmanna hótela þyrftu að vera 100 prósent, til að koma í veg fyrir að eigendurnir væru að „brenna peningum“ meðan þetta ástand varði. Þá þyrftu fyrirtækin að sleppa við vexti og verðbætur, skatta og skyldur og veitugjöld. Þegar hann var spurður hvort það hefði kannski verið byggt of hratt upp í hótelrekstri svaraði hann, „menn byggja náttúrlega upp á eigin ábyrgð“.
Bótaþegar með milljarða
Nú eru allir sammála um að það þurfi að koma atvinnulífinu og heimilunum til bjargar í þessu ástandi. Það sem bara stingur í augun er að meðan launafólk í landinu þarf að þola tekjumissi sem getur kostað það húsnæðið og jafnvel heilsubrest í framhaldinu, er allt atvinnulífið komið meira og minna í fangið á ríkinu án þess að eigendurnir þurfi að ganga á eigur sínar.
Fremstir í flokki bótaþega vegna kórónuveirunnar voru Icelandair og Bláa lónið, þrátt fyrir tugmilljarða arðgreiðslur áranna á undan. Og Össur ákvað að nýta sér hlutabótaleiðina korteri eftir að eigendur fyrirtækisins fengu 1,2 milljarða í arð. Skeljungur er líka kominn á framfæri almennings, þrátt fyrir að hafa greitt sér 600 milljóna arð í byrjun apríl. Eigendur þessara fyrirtækja eru ekki látnir koma þeim til bjargar heldur skattgreiðendur.
Leystir undan ábyrgð
Svo var klæðskerasaumuð önnur risavaxin björgunaraðgerð fyrir Icelandair, þar sem ríkið tekur að sér að greiða laun eða hluta launa í uppsagnarfresti allt að 633 þúsund á mánuði plús orlof. Allt í einu var kominn risastór hvati til að standa að hópuppsögnum á kostnað ríkisins og burtu fuku allar röksemdir um nauðsyn þess að viðhalda ráðningarsambandi og tugir þúsunda fengu uppsagnarbréf. Ríkið stendur uppi með dautt fyrirtæki í fanginu og þarf að nota allt fé almennings og skuldsetja ríkissjóð langt inn í framtíðina til að halda því á lífi. En ríkið ætlar samt ekki að taka yfir hluti í fyrirtækinu eða gera neina kröfu um endurgreiðslu þegar betur árar í framtíðinni.
Fjármálaráðherra og fleiri stjórnmálamenn sem eiga gegnum fjölskyldutengsl fjárhagslegra hagsmuna að gæta í fyrirtækjum sem njóta ríkisstuðnings hafa ekki sagt sig frá ákvörðunum um ríkisaðstoð til þeirra. Og mitt í fjáraustri stjórnvalda vegna kórónuveirunnar næst ekki einu sinni sú réttlætiskrafa í gegn að þeir sem þiggja þessa ríkisaðstoð, gangi líka á eigið fé og séu ekki á sama tíma með fé í skattaskjólum.
Þegar þeir koma heim
Kreppan er varla byrjuð, eins og fólk á eftir að kynnast henni og fátæktinni og bjargarleysinu. Við getum þó vonast til þess að fjármagnseigendur komi með peningana heim þegar eymdin nær hámarki til að kaupa eignir fólks á spottprís eða jafnvel á nauðungaruppboðum.
Hræsnin í skattamálum er víðar. Í nágrenni Reykjavíkur kúra bæir þar sem bæjarstjórarnir eru flestir með laun á við stjórnendur í milljónaborgum erlendis. Sumir þessara bæja eru afar vel settir og laða til sín tekjuháa íbúa enda innheimta þeir lægra útsvar heldur en Reykjavík. Bæjaryfirvöld þar hafa líka markvisst sparað sér stórfé með því að bjóða upp á afar fáar félagslegar íbúðir og vísa þeim sem höllum fæti standa á félagsþjónustu í Reykjavík.
70 þúsund í hækkun
Börnin í þessum bæjum fögnuðu því ásamt öðrum íslenskum börnum að skólahald hófst aftur af fullum krafti á mánudag. Daginn eftir var hins vegar lægstlaunaða fólkið í sveitarfélaginu komið í verkfall og því enginn skóli og margvísleg önnur þjónusta í járnum. Ágreiningurinn stendur um hvort það sé hægt að semja um sömu laun og Reykjavíkurborg hefur þegar samið um.
Bæjaryfirvöld vilja semsagt greiða verkafólkinu lægri laun en það fær í Reykjavík og þau eru tilbúin að fórna skólagöngu barnanna fyrir málstaðinn. Kallað er á liðstyrk Alþingis og beðið um að alþingismenn, sem fengu 70 þúsund króna launahækkun 1. maí, afturvirka frá áramótum, setji lög á starfsfólkið eða „píni það í vinnu fyrir laun sem duga ekki til viðurværis“.
Úr jakkafötunum í vinnuskyrtuna
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, stígur fram og er dressaður upp í nýja hlutverkið, eins og maður sem kennir til í stomum sinnar tíðar. Horfin eru jakkafötin og mansjetturnar, nú klæðist hann köflóttri vinnuskyrtu, hún er reyndar afar vel pressuð og örugglega í dýrari kantinum. Og boðskapurinn er sá að verkalýðshreyfingin skilji ekki alvarleika þeirrar stöðu sem er uppi.
Stundum hvarflar að manni að fólkið á fyrsta farrými ætli að troða sér í björgunarbátana
Það er búið að prenta næga seðla til að reyna að kaupa alla helstu kapítalistana frá kreppunni. Nú er kominn tími á kennslustund í alvarleika málsins fyrir þessar 270 sálir í nágrannasveitarfélögunum, þær eiga að snauta að skúringafötunum og þakka fyrir að vera til á þessum „fordæmalausu tímum“.
Allt í krafti þess að við erum öll á „sama báti“. Og kannski erum við það, en báturinn er stór og það eru mörg farrými.
Stundum hvarflar að manni að fólkið á fyrsta farrými ætli að troða sér í björgunarbátana þegar þeir hafa verið settir út og skilja hina eftir, líkt og á sögulegri hinstu siglingu Titanic.
Athugasemdir