Stundin sendir út menningarviðburði í samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi meðan á samkomubanni stendur. Viðburðirnir eru haldnir klukkan 13 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Hægt verður að sjá viðburðina á forsíðu Stundarinnar, á Facebook-síðu Stundarinnar og Facebook-síðu Menningarhúsanna í Kópavogi.
Meðal þeirra sem koma fram í viðburðaröðinni eru Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur, Gerður Kristný skáld, Jógvan, Matti Matt, Vignir Snær, Ragna Fróðadóttir, Andri Snær Magnason rithöfundur, Sigurbjörn Bernharðsson, Halla Oddný, Þorgrímur Þráinsson, Elín Björk Jónasdóttir, Einar Falur, Kordo kvartettinn og Hrönn Egilsdóttir.
Í dag munu þær Auður Jónsdóttir, rithöfundur, og Vera Illugadóttir, dagskrárgerðarkona, bera saman bækur sínar í léttu spjalli á Bókasafni Kópavogs. Útsendingin hefst klukkan 13. Streymi af viðburðinum verður birt í þessari frétt og á fyrrgreindum Facebook-síðum ásamt forsíðu Stundarinnar. Þá verður upptaka tiltæk á sömu stöðum í kjölfarið.
Eftirfarandi er tilkynning frá menningarhúsunum í Kópavogi um viðburðinn:
Kúltúr klukkan 13 | Bókaspjall
Auður Jónsdóttir rithöfundur og Vera Illugadóttir dagskrárgerðarkona bera saman bækur sínar í léttu spjalli á rölti um Bókasafn Kópavogs. Hafa þær svipaðan bókmenntasmekk eða mjög ólíkan? Hvað lásu þær sem börn? Þær munu flakka á milli bókahillna, draga fram og segja meðal annars frá sínum uppáhaldsbókum, hvaða bækur hafa haft áhrif á þær og hverjar þær jafnvel leita til á þessum skrítnu tímum í samfélaginu.
Auður Jónsdóttir er rithöfundur og sjálfstæður blaðamaður. Hún hefur skrifað fjöldann allan af bókum bæði fyrir börn og fullorðna sem komið hafa út í ýmsum löndum. Auður hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir skáldverk sín, má þar nefna að hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Fólkið í kjallaranum og Fjöruverðlaunin fyrir bók sína Ósjálfrátt.
Vera Illugadóttir er dagskrárgerðarkona og hafa þættir hennar á Rás 1, Í ljósi sögunnar, notið mikilla vinsælda og skipað sér fastan sess hjá stórum hópi aðdáenda.
Athugasemdir