Seðlabankinn hefur í fjögur skipti gerst brotlegur við jafnréttislög frá árinu 2009, oftast allra opinberra aðila. Þetta kemur fram í svörum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurnum Hönnu Katrínar Friðriksson, þingmanns Viðreisnar.
Brot Seðlabankans áttu sér stað árin 2012, 2019 og tvívegis árið 2015. Landspítalinn, Akureyrarbær og innanríkisráðuneytið hafa gerst brotleg í tvö skipti hvert, en alls voru 25 brot hjá 19 aðilum hjá hinu opinbera. Í 18 málum voru konur kærendur brotanna, en karlmenn í sjö tilvikum. 20 brotanna vörðuðu brot gegn banni við mismunun við ráðningu í störf á grundvelli kyns, en fimm vörðuðu brot gegn banni við mismunun í launum, öðrum kjörum og réttindum einstaklinga á grundvelli kyns.
„Að mati ráðherra er það 25 brotum of mikið,“ segir í öðru af svörum Katrínar. „Nú stendur yfir endurskoðun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, í forsætisráðuneytinu. Í þeirri vinnu verða m.a. skoðaðar mismunandi leiðir sem unnt er að fara í því skyni að tryggja betur eftirfylgni og aðhald mála þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn lögunum. Með endurskoðuninni er stefnt að því að treysta betur faglegan grundvöll málaflokksins og standa vonir til að breytingarnar muni leiða til fækkunar á brotum gegn lögunum í framtíðinni.“
Brot gegn jafnréttislögum hjá opinberum aðilum frá árinu 2009:
1. Nýi Kaupþing banki hf. – fjármála- og efnahagsráðherra (2009).
2. Forsætisráðuneytið – forsætisráðherra (2010).
3. Skjólskógar á Vestfjörðum – umhverfis- og auðlindaráðherra (2011).
4. Akureyrarbær – samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (2011, 2014).
5. Innanríkisráðuneytið – dómsmálaráðherra (2012, 2015).
6. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins – heilbrigðisráðherra (2012).
7. Seðlabanki Íslands – forsætisráðherra (2012, 2015, 2015, 2019).
8. Ríkisútvarpið – mennta- og menningarmálaráðherra (2013).
9. Landspítalinn – heilbrigðisráðherra (2013, 2018).
10. Kópavogsbær – samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (2014).
11. Ríkislögreglustjóri – dómsmálaráðherra (2014).
12. Sýslumaðurinn í Borgarnesi – dómsmálaráðherra (2014).
13. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja – heilbrigðisráðherra (2015).
14. Biskup Íslands – dómsmálaráðherra (2015).
15. Þjóðskjalasafn Íslands – mennta- og menningarmálaráðherra (2016).
16. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu – dómsmálaráðherra (2016).
17. Fjármála- og efnahagsráðuneytið – fjármála- og efnahagsráðherra (2017).
18. Reykjavíkurborg – samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið (2018).
19. Þingvallanefnd – umhverfis- og auðlindaráðherra (2018).
Athugasemdir