Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Hér eru næstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar

Með­al að­gerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar í að­gerðapakka tvö eru: Frí­stunda­styrk­ur til tekju­lágra for­eldra, álags­greiðsl­ur til heil­brigð­is­starfs­fólks, stuðn­ingslán til lít­illa og með­al­stórra fyr­ir­tækja, lok­un­ar­styrk­ir til fyr­ir­tækja, átak gegn of­beldi, sumar­úr­ræði fyr­ir náms­menn, ný­sköp­un og mark­aðs­setn­ing í mat­væla­fram­leiðslu og hærra hlut­fall end­ur­greiðslu vegna rann­sókn­ar og þró­un­ar.

Á fundinum í dag Katrín Jakobsdóttir kynnir aðgerðir.

Annar aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 var kynntur rétt í þessu. Lánaúrræði til smárra og meðalstórra fyrirtækja upp að 6 milljónum króna með 100% ríkisábyrgð og lokunarstyrkir upp að 2,4 milljónum króna eru meðal þess sem ríkisstjórnin boðar í pakka sem kostar í heildina allt að 60 milljörðum króna, samkvæmt kynningu ríkisstjórnarinnar. Tveir þriðju hlutar upphæðarinnar eru hins vegar lán til fyrirtækja, sem ættu að endurgreiðast, og svo tilfærsla á skattgreiðslum. Raunveruleg útgjöld eru á endanum mun lægri.

Í aðgerðapakkanum fá tekjulágir foreldrar sérstaka frístundastyrki og þrjú þúsund störf fyrir námsmenn verða fjármögnuð af ríkinu. Auk þess fá listamenn 600 verkefnamánuði til viðbótar við það sem var, en áður hafði verið úthlutað 1600 mánuðum. Þannig verður ígildi 50 fullra listamannalauna í heilt ár úthlutað til viðbótar við það sem nú er.

Mikil áhersla verður lögð á nýsköpun og fjölmiðlar fá 350 milljóna króna stuðning.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórna- og samgönguráðherra, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, kynntu aðgerðarpakkann á kynningarfundi í Safnahúsinu við Hverfisgötu klukkan fjögur í dag.

Bjarni kynnti aðgerðir sem beinast að fyrirtækjum. Hann sagði að í kynningu síðasta efnahagspakka, sem kynntur var fyrir mánuði síðan og nam samtals ígildi 234 milljarða króna, hafi ekki verið ljóst hversu langvinnar afleiðingar viðbraðga við COVID-19 faraldrinum myndu verða.

Bjarni kynnir fyrirtækjapakkaFjármálaráðherra á fundinum í dag.

Framlög til fyrirtækja

„Við sáum ekki fram á það hversu langt tímabil þetta yrði,“ sagði Bjarni. Hann sagði að aðgerðir í fyrsta aðgerðapakka hefðu „reynst mjög vel“. „Það hafa verulegar fjárhæðir gagnast atvinnulífinu með þeim frestunarákvörðunum sem við tókum.“

Hann sagði hlutabótaleiðina hafa gagnast sérstaklega vel. „Við erum með núna 33 þúsund einstaklinga inni í því úrræði. Það hefur hjálpað þeim einstaklingum að standast skil annars staðar ... Okkur er að takast að viðhalda greiðsluflæði í hagkerfinu með þessum aðgerðum,“ sagði Bjarni.

Að hámarki verði nú sex milljóna króna lán veitt til smárra og meðalstórra fyrirtækja, sem eru yfir átta þúsund talsins í heildina. Skilyrði er að félögin hafi orðið fyrir 40% tekjufalli og séu með tekjur undir 500 milljónum króna á ári, en yfir 9 milljónum króna. Þessi lán útiloki ekki að sömu fyrirtæki fái brúarlán, sem kynnt voru í síðasta aðgerðapakka. Hins vegar er horft til þess að félögin hafi hvorki greitt arð frá 1. mars síðastliðnum, né lent í vanskilum á opinberum gjöldum eða lánum í meira en 90 daga. Þau eigi því að teljast rekstrarhæf eftir að áhrif COVID-19 líða hjá. 97% veitingastaða, 98% hópferðafyrirtækja og 100% gististaða eru talin geta nýtt sér úrræðið.

Þá fái þau fyrirtæki, „sem var gert að loka starfsemi sinni vegna sóttvarnaaðgerða“, styrk sem bætir hluta af skaðanum. 2,5 milljarðar króna fara í lokunarstyrki, eða 800 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann og að hámarki 2,4 milljónir króna á hvern rekstraraðila.

Loks geta fyrirtæki jafnað tap ársins í ár við hagnaðinn í fyrra, til að auka laust fé. Þannig losni þau við að greiða tekjuskatt á árinu. Kostnaðurinn er talinn nema um 13 milljörðum króna.

Eyðsla Íslendinga ferðast innanlands

Yfir 50 þúsund eru á atvinnuleysisskrá og fá bætur eða hlutabætur vegna skerts starfshlutfalls. Alþýðusamband Íslands hefur fengið ábendingar um misnotkun á úrræðinu. Atvinnuleysi í apríl mun ná 17% í apríl, miðað við áætlun Vinnumálastofnunar. 29 þúsund af 200 þúsund starfsmönnum á íslenskum vinnumarkaði starfa í ferðaþjónustu.

Um 240 milljörðum króna var eytt með erlendum kreditkortum á Íslandi í fyrra, sem jafngildir um fimmtungi allrar kortaveltu hérlendis.

Á móti kemur að Íslendingar eyddu 180 milljörðum króna á ferðalögum erlendis í fyrra. Stór hluti þessara umsvifa eru því talin munu færast innanlands í formi sparnaðar og neyslu. Sá hluti sem fer í neyslu mun auka innlenda eftirspurn.

Íslendingar hafa hins vegar mun meiri tekjur af ferðaþjónustu en kostnað af eigin ferðalögum erlendis og því eru áhrifin af ferðabanni neikvæð. Árið 2019 var þjónustujöfnuður Íslendinga gagnvart útlöndum jákvæður um 239 milljarða króna, og þar af munaði rúmlega 130 milljörðum króna á umsvifum við ferðalögum útlendinga hér en Íslendinga erlendis. Sami munur nam einungis 6,6 milljörðum króna árið 2014.

Listamenn, fjölmiðlar og heilbrigðisstarfsfólk

Meðal annarra aðgerða ríkisstjórnarinnar í aðgerðapakka tvö eru frístundastyrkur til tekjulágra foreldra, álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks, lokunarstyrkir til fyrirtækja, átak gegn ofbeldi, sumarúrræði fyrir námsmenn, nýsköpun og markaðssetning í matvælaframleiðslu og hærra hlutfall endurgreiðslu vegna rannsóknar og þróunar. „Það er staðreynd að þetta ástand hefur haft veruleg áhrif á geðheilbrigði fólks,“ sagði Sigurður Ingi. 

„Það er staðreynd að þetta ástand hefur haft veruleg áhrif á geðheilbrigði fólks“

Meðal sértækra aðgerða er að veita 350 milljóna króna fjárframlagi til einkarekinna fjölmiðla, samkvæmt reglugerð menntamálaráðherra. Samkvæmt úttekt Blaðamannafélags Íslands er þar um að ræða hlutfallslega mun lægri styrki en til fjölmiðla í Svíþjóð og Danmörku.

„Þá verða framlög til listamannalauna aukin þannig að úthluta megi rúmlega 600 verkefnamánuðum til viðbótar á árinu 2020,“ segir í kynningu Stjórnarráðsins.

Viðkvæmir hópar

Í félagslegum aðgerðum er boðað að viðkvæmir hópar verði verndaðir, en þeir eru eldri borgarar, öryrkjar, fatlað fólk og fólk af erlendum uppruna.

Þannig verði „efling félagsmiðstöðva fyrir eldri borgara“ ein aðgerðanna og óskilgreindar „aðgerðir til að vinna gegn neikvæðum félagslegum afleiðingum faraldursins á viðkvæma hópa“. 

Átak verður gert gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum með stuðningi við Barnahús og hjálparsímann 1717, ásamt fjárframlags til félagasamtaka sem sinna ráðgjöf, samtals sem nemur 200 milljónum króna.

Foreldrar með samanlagðar tekjur undir 740 þúsund krónum á mánuði fá frístundastyrk sem nemjur 50 þúsund krónum, í gegnum sveitarfélög.

Útlistun aðgerðaAðgerðir ríkisstjórnarinnar eru kynntar hér.
Nánari útlistunMynd úr glærusýningu á kynningarfundi stjórnvalda.

Stuðningur við nýsköpun

Sérstök áhersla verður lögð á frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi í aðgerðum ríkisstjórnarinnar með 4,4 milljarða króna aukningu fjárframlags. Þannig verður veitt 1,1 milljarði króna í nýsköpunarstjóðinn Kríu. Endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunar verða auknar úr 20 prósentum í 25 prósent. Þak á endurgreiðslum er jafnframt hækkað úr 600 milljónum króna í 900 milljónir króna. 

Katrín Jakobsdóttir sagði í upphafi fundar að Íslendingar þyrftu að halda sig við að fylgja reglum almannavarna. „Það er mjög mikilvægt að við höfum úthald í að klára þetta fram til fjórða maí,“ sagði Katrín. Við slökun samkomubanns 4. maí verður aftur tekin upp starfsemi á hárgreiðslustofum, tannlæknastofum, nuddstofum, sjúkraþjálfun, snyrtistofum og við ýmsa heilbrigðisþjónustu.

Katrín sagði að samheldnin, sveigjanleikinn og seiglan hefðu hjálpað Íslendingum í gegnum faraldurinn, og að þörf væri á sömu eiginleikum til að takast á við efnahagslegar afleiðingar.

Umfang fyrri pakka ríkistjórnarinnar, sem kynntur var í mars, var allt að 234 milljarðar króna, eða sem nemur 7,8 prósentum af landsframleiðslu. Nýkynntur efnahagspakki númer tvö nemur því um tveimur prósentum landsframleiðslu, að meðtöldum lánum til fyrirtækja sem ættu að endurgreiðast og frestun skattgreiðslna. Samanlagt eru aðgerðirnar töluvert minni umfangs en í flestum samanburðarríkjum þegar litið er til hlutfalls landsframleiðslu.

Katrín Jakobsdóttir sagði á fundinum að aðgerðum væri ekki lokið. „Þetta er ekki síðasti pakkinn, ekki frekar en sá síðasti.“

Samkvæmt fjáraukafrumvarpi sem dreift var á Alþingi í dag er útgjaldaaukning töluvert lægri en 60 milljarður króna, eða 13 milljarðar króna. Stærsti hluti aðgerðanna felst í lánum, eða 28 milljarðar króna, og tilfærslu á skattgreiðslum, eða 13 milljarðar króna. Þá hefur hluti „sértæks stuðnings“ þegar verið heimilaður í fjárlögum. „Hækkun í þessu frumvarpi svarar til um 1,3% af áður samþykktum fjárheimildum,“ segir í frumvarpinu.

YfirlitStærsti hluti pakkans eru lán og tilfærsla á skattgreiðslum.

Tilkynning um aðgerðir

Yfirlýsing frá Stjórnarráðinu vegna heildaraðgerða

Lítil fyrirtæki í rekstrarörðugleikum fá stuðning, brugðist er við vanda námsmanna, félagsleg úrræði efld og sjónum er beint að nýsköpun til framtíðar. Þetta er hluti af framhaldsaðgerðum stjórnvalda sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa kynnt vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Jafnframt greindu þau frá því að framlínufólk í heilbrigðisþjónustu sem búið hefur við aukið álag og mikla smithættu fái álagsgreiðslu. 

Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu með nýsköpun í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Lögð eru til aukin framlög til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og hækkun endurgreiðsluhlutfalls og fjárhæðarþaks til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar, en áhrif þessara aðgerða nema tæpum 4,5 milljörðum króna. Stefnt er að því að flýta endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar fyrir árið 2019. Auk þess verður sótt fram í matvælaframleiðslu, meðal annars með nýsköpun og markaðssetningu. Þá verða framlög til listamannalauna aukin þannig að úthluta megi rúmlega 600 verkefnamánuðum til viðbótar á árinu 2020. 

Veittir verða lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna, allt að 2,4 m.kr. Lítil og meðalstór fyrirtæki í rekstrarörðugleikum geta sótt um allt að 6 m.kr. óverðtryggð stuðningslán á sömu vöxtum og sjö daga bundin innlán lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands, sem nú eru 1,75%. Ljóst er að stór hluti fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu mun geta nýtt leiðina þar sem hlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja er töluvert meira í ferðaþjónustu en öðrum greinum. Áætluð heildarútgjöld vegna þessara tveggja aðgerða eru talin geta numið rúmlega 30 milljörðum króna. Einnig verður fyrirtækjum heimilt að jafna vegna tekjuskatts allt að 20 m.kr. af fyrirsjáanlegu tapi ársins 2020 á móti hagnaði ársins 2019. 

Félagsleg úrræði með stuðningi við viðkvæma hópa, atvinnuleitendur og námsmenn vega þungt í aðgerðapakkanum. Verður 2,2 milljörðum króna varið til að skapa 3000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 m.kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 m.kr. veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum. Einnig verður ráðist í aðgerðir til að hlúa að viðkvæmum hópum, vinna gegn ofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, styðja við virkni atvinnuleitenda og tryggja tækifæri barna úr tekjulágum fjölskyldum til að taka þátt í frístundastarfi. Hugað verður sérstaklega að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta verður efld. Alls verður um 8,5 ma.kr. varið til félagslegra aðgerða í þessum áfanga.

Til að styðja við fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði verður einkareknum fjölmiðlum tryggður sérstakur rekstrarstuðningur á yfirstandandi ári, en þeir hafa tapað miklum tekjum á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur aukist. Komið verður til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum. 

Til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir er lagt til að þeim verði veittur tímabundinn réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað auk þess sem Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fær heimild til að veita styrki til sveitarfélaga. Þá stendur yfir kortlagning á viðkvæmum svæðum á landsvísu og stafræn þjónusta sveitarfélaga verður efld. 

Félagslegar aðgerðir

Tilkynning frá félagsmálaráðuneytinu

Félagslegar aðgerðir fyrir tæpa 5,7 milljarða króna eru hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19, sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu. Komið verður til móts við foreldra og aðra umönnunaraðila langveikra eða fatlaðra barna, sem þurfa að sinna aukinni umönnun vegna Covid – 19, með tímabundnum greiðslum. Þá verður stuðningur við aldraða, fjölskyldur fatlaðra barna og börn af erlendum uppruna efldur verulega.

Aðrar aðgerðir sem ráðist verður í eru stuðningur við tómstundir barna af lágtekjuheimilum þar sem jöfn tækifæri þeirra til íþrótta- og tómstundastarfs verða tryggð, átak í náms og starfsúrræðum fyrir atvinnuleitendur þar sem fjárveitingar til Atvinnuleysistryggingasjóðs verða auknar og fjölgun sumarstarfa um 3.500 fyrir námsmenn 18 ára og eldri sem eiga engan eða takmarkaðan rétt til atvinnuleysisbóta. Þá verður bætt í aðgerðir gegn heimilsofbeldi á Íslandi og um ofbeldi gegn börnum, en röskun á rútínu getur reynst börnum sérstaklega erfið og rannsóknir hafa sýnt að ofbeldi eykst þar sem álag er mikið á fjölskyldur.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „COVID-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á okkur öll og við höfum frá upphafi lagt áherslu á það að styðja við viðkvæma hópa á þessum tímum. Þessum nýja aðgerðarpakka er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu. Við verðum alltaf að hafa það hugfast að fólkið og fjölskyldur landsins eru dýrmætasta eign samfélagsins og þess vegna erum við að ráðast í þessar aðgerðir núna.“

Viðbrögð vegna heilbrigðisþjónustu

Tilkynning frá heilbrigðisráðuneytinu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að verja um 1,0 milljarði króna í sérstakar álagsgreiðslur til starfsfólks sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sem starfar undir miklu álagi vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Enn fremur verða framlög til geðheilbrigðisþjónustu aukin um 540 milljónir króna til að efla geðheilbrigðisþjónustu um allt land. Þessar aðgerðir eru liður margþættum aðgerðum stjórnvalda vegna áhrifa Covid-19 hér á landi sem kynntar voru í dag.

Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks verða í formi eingreiðslna til starfsfólks í framlínunni á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og í heilsugæslunni en útfærslan verður á hendi forstöðumanna hverrar stofnunar. Mikið hefur mætt á heilbrigðisstarfsfólki á mörgum sviðum heilbrigðisþjónustunnar, þar sem starfsaðstæður hafa verið óvenjulegar og krefjandi og hætta á smiti af Covid-19 daglegur veruleiki margra. Heildarfjárhæðin er 1,0 milljarður króna.

Geðheilbrigðisþjónustan verður efld með fjölgun sérfræðinga í geðheilsuteymunum og innan heilsugæslunnar og með aukinni áherslu á markvissa fræðslu og upplýsingagjöf sem Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu mun leiða. Rík áhersla verður á að tryggja sem best jafnt aðgengi landsmanna að þjónustunni. Aukin framlög vegna þessa eru tímabundin til eins árs.

Stöðugildum sérfræðinga í heilsugæslu fjölgað

Með auknum fjármunum verður sálfræðingum og/eða öðrum sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu fjölgað um 16. Stöðugildum fjölgar um 10 hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og um eitt í hverju heilbrigðisumdæmi utan höfuðborgarsvæðisins. Markmiðið er að hvar sem er á landinu geti fólk fengið meðferð og stuðning sálfræðinga innan heilsugæslu vegna algengustu geðraskana, svo sem vegna þunglyndis og kvíða. Heilsugæslan fær einnig sérstakt framlag til að þróa og efla getu sína til að veita fjarheilbrigðisþjónustu á þessu sviði.

Þjónusta geðheilsuteymanna efld

Framlög til geðheilsuteyma í öllum heilbrigðisumdæmum landsins verða aukin svo unnt verði að fjölga geðlæknum og/eða öðrum sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu. Geðheilsuteymin sinna annars stigs geðheilbrigðisþjónustu, þ.e. sérhæfðari þjónustu en unnt er að veita innan heilsugæslunnar. Teymin eru ætluð þeim sem greindir eru með geðsjúkdóm og eru eldri en 18 ára. Eitt af markmiðunum með því að efla geðheilsuteymin er að auka getu þeirra til að sinna jaðarhópum, t.d. fólki með tvígreindan neyslu- og fíknivanda samhliða öðrum geðröskunum og fólki sem er með þroskaröskun og glímir jafnframt við geðröskun.

Aukin áhersla á fræðslu og forvarnir

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu hefur m.a. það hlutverk að leiða faglega þróun og stýra samhæfingu heilsugæslu í landinu. Framlög til hennar verða aukin með áherslu á að samræma vinnubrögð og stuðla að því að aðgengi landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu sé sem jafnast, óháð búsetu. Þróunarmiðstöðinni verður falið að útbúa fræðsluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk um neyslu- og fíknivanda, innleiða skimun á því sviði og þróa meðferðarúrræði innan heilsugæslu og hjá geðheilsuteymunum. Þróunarmiðstöðinni verður einnig falið að útbúa fræðsluefni fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila um geðheilbrigðismál og einnig fræðsluefni á sviði geðræktar í skólum.

Aukin framlög til menningar og fjölmiðla

Tilkynning frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu

Stjórnvöld hafa ákveðið að hækka fjárveitingu í launasjóði listamanna um 250 milljónir kr. og fjármagna með því sköpun nýrra menningarverðmæta í landinu strax á þessu ári. Með fjárveitingunni er hægt að fjölga mánaðarlaunum listamanna um 40% á árinu og því verður alls 2.200 mánaðarlaunum úthlutað til listamanna á þessu ári. Ákvörðunin er liður í þeirri áætlun stjórnvalda að auka innlenda verðmætasköpun.

„Gildi lista og menningar fyrir samfélagið er ómetanlegt. Í mörgum listgreinum hafa umsvifin dregist tímabundið saman, en við erum staðráðin í að snúa þeirri þróun við og koma verkefnum aftur af stað. Keðjuáhrifin af því eru mikil því auk áhrifa menningar á hagkerfið er öflugt menningarstarf eitt af þjóðareinkennum Íslendinga. Slíku má ekki fórna við aðstæður eins og þessar. Þvert á móti er mikilvægi lista og menningar meira þegar á móti blæs,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Vinna við nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar er hafin í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar er meðal annars til skoðunar hvaða listgreinar hafa skaðast mest vegna aðstæðna, en einnig verður horft til listgreina sem styðja við mál og menntun barna. Ítarlegar upplýsingar verða veittar um leið og þær liggja fyrir.

---

Ríkisstjórnin hyggst styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla með 350 milljóna kr. framlagi, vegna þess mikla tekjutaps sem miðlarnir hafa orðið fyrir samhliða minnkandi umsvifum í hagkerfinu.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur nú að reglugerð um úthlutun stuðningsins. Gert er ráð fyrir því að fjölmiðlar sæki um stuðning með formlegum hætti og stuðningurinn taki mið af launakostnaði fjölmiðla vegna fréttamiðlunar. Þak verður sett á fjárhæð styrkja til einstakra fjölmiðla, svo stuðningurinn nýtist bæði stórum og litlum miðlum.

„Það er samfélagslega mikilvægt að tryggja vandaða fjölmiðlun í landinu og með þessu styðjum við reksturinn og aukum atvinnuöryggi blaðamanna. Þótt tekjur fjölmiðla hafi dregist verulega saman hefur spurn eftir þjónustu þeirra stóraukist. Fjölmiðlar hafa því ekki getað dregið saman seglin eða nýtt sér hlutabótaleiðina á sama hátt og mörg þeirra fyrirtækja sem misst hafa stóran hluta tekna sinna. Það kallar á sérstök viðbrögð,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Nánari upplýsingar um úthlutunarreglur verða veittar um leið og reglugerð þar um liggur fyrir.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Mest lesið

Tugir sjúklinga dvöldu á bráðamóttökunni lengur en í 100 klukkustundir
2
FréttirÁ vettvangi

Tug­ir sjúk­linga dvöldu á bráða­mót­tök­unni leng­ur en í 100 klukku­stund­ir

Vegna pláss­leys­is á legu­deild­um Land­spít­al­ans er bráða­mót­tak­an oft yf­ir­full og því þurftu 69 sjúk­ling­ar að dvelja á bráða­mót­tök­unni leng­ur en í 100 klukku­stund­ir í sept­em­ber og októ­ber. Þetta kem­ur fram í þáttar­öð­inni Á vett­vangi sem Jó­hann­es Kr. Kristjáns­son vinn­ur fyr­ir Heim­ild­ina. Í fjóra mán­uði hef­ur hann ver­ið á vett­vangi bráða­mótt­tök­unn­ar og þar öðl­ast ein­staka inn­sýni í starf­sem­ina, þar sem líf og heilsa fólks er und­ir.
Mataræði er vanræktur þáttur í svefnvanda
3
Viðtal

Mataræði er van­rækt­ur þátt­ur í svefn­vanda

Góð­ur svefn er seint of­met­inn en vanda­mál tengd svefni eru al­geng á Vest­ur­lönd­um. Tal­ið er að um 30 pró­sent Ís­lend­inga sofi of lít­ið og fái ekki end­ur­nær­andi svefn. Ónóg­ur svefn hef­ur áhrif á dag­legt líf fólks og lífs­gæði. Svefn er flók­ið fyr­ir­bæri og margt sem get­ur haft áhrif á gæði hans, má þar nefna lík­am­lega og and­lega sjúk­dóma, breyt­inga­skeið, álag, kvíða, skort á hreyf­ingu og áhrif sam­fé­lags­miðla á svefn­gæði. Áhrif nær­ing­ar og neyslu ákveð­inna fæðu­teg­unda á svefn hafa hins veg­ar ekki vak­ið at­hygli þar til ný­lega.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Síðasta tilraun Ingu Sæland
3
ViðtalFormannaviðtöl

Síð­asta til­raun Ingu Sæ­land

Flokk­ur fólks­ins var stofn­að­ur til að út­rýma fá­tækt á Ís­landi, sem Inga Sæ­land, formað­ur flokks­ins, þekk­ir af eig­in raun. Hún boð­ar nýtt hús­næð­is­kerfi með fyr­ir­sjá­an­leika og nið­ur­skurð í öllu því sem heita að­gerð­ir gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Græn­asta land í heimi eigi að nota pen­ing­ana í heil­brigðis­kerfi og aðra inn­viði sem standi á brauð­fót­um.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
5
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
3
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár