Ég hef aldrei verið aðdáandi föstudagsins langa. Af þeirri einföldu ástæðu að um er að ræða lengsta og leiðinlegasta dag ársins, þar sem allt var lokað og ekkert mátti gera. Ekki einu sinni taka í spil, en þá lexíu lærði ég í heimsókn hjá ömmu. Ég vissi ekki hvert gamla konan ætlaði þegar ég í mínu mesta sakleysi spurði hvort hún vildi spila Olsen olsen. Á föstudaginn langa af öllum dögum! Ofan á allt annað þá var sjónvarpsdagskráin ekkert til að hrópa húrra fyrir og ljóst að dagskipunin var einföld: almenningur átti að þjást líkt og Kristur á krossinum um árið.
Mér varð einmitt hugsað til föstudagsins langa þegar fjögurra vikna samkomubann var sett á um miðjan síðasta mánuð. Í fyrstu máttu hundrað manns koma saman en síðan var bannið hert og núna mega aðeins tuttugu manns vera í sama rými með tvo metra á milli sín. Í vikunni sem leið var samkomubannið svo framlengt til 4. maí og flestir ferðast á milli herbergja heima hjá sér um páskana. Því auðvitað hlýðum við okkar besta manni, Víði Reynissyni.
„Þessar fyrstu þrjár vikur hafa liðið eins og heil eilífð“
Eftir að samkomubannið var sett á hefur hægt verulega á tímanum og þessar fyrstu þrjár vikur hafa liðið eins og heil eilífð. Sjónvarpsstöðvarnar bjóða þó upp á mikið betri dagskrá en nokkurn tíma á föstudaginn langa, auk þess sem margir eru með Netflix og hafa sett sér það markmið að klára allt sem er á streymisveitunni áður en samkomubanni lýkur. Ég set samt spurningu við endursýningu á gömlum sundmótum um helgar.
Við sem tilheyrum áhættuhópum höfum haldið okkur að mestu innandyra og höfum lítil samskipti við aðra en okkar nánustu. Kaffiheimsóknum hefur verið slegið á frest um óákveðinn tíma, nema í gegnum Facetime, sem og öllum mannamótum og ferðum í verslunarmiðstöðvar. Snyrtistofum og hárgreiðslustofum hefur verið lokað þannig að mullet og aðrar ljótar hárgreiðslur verða líklega orðnar töff þegar yfir lýkur.
Ég viðurkenni að síðustu vikur hafa verið ansi tíðindalitlar í mínu lífi og fara líklega ekki í neina annála. Ég ráfa á milli kaffivélarinnar, eldhúsborðsins þar sem ég sit við að púsla Íslandið góða og sjónvarpsins. Því fréttafíkillinn í mér má ekki til þess hugsa að sleppa blaðamannafundi þríeykisins, enda skipta ábyrgar upplýsingar miklu máli á fordæmalausu tímum (svo ég noti einn af frösum ársins). Svo hangi ég á Facebook, en þar er helst að finna sjálflærða sóttvarnalækna sem vita upp á hár hvernig á að tækla COVID-19 og óheyrilegan fjölda keðjustatusa. Já, ég er búin að skrifa upp tíu störf sem ég hef unnið. Eins og helmingur Facebook-vina minna.
Því er kannski ekki skrítið þótt ég hafi upplifað síðustu vikur eins og föstudaginn langa. Langar, leiðinlegar og tilbreytingasnauðar. Þó hefur heimurinn allur gott af því að hægja á sér, draga andann og láta sér leiðast, í stað þess að vera á stöðugum þönum og hafa hvorki tíma fyrir sig né sína nánustu. Ekki skortir nútímamanninn afþreyingu til að gleyma sér yfir á tímum sem þessum, með tilkomu Netflix og hvað allar þessar streymisveitur heita. Því vorkenni ég sjálfri mér og öðrum ekki neitt þótt næstu vikur minni á leiðinlegasta dag ársins og okkur muni kannski leiðast. Við getum þakkað fyrir að búa ekki í torfkofa, án internettengingar og Netflix.
Að lokum: Hlýðum Víði!
Athugasemdir