Í dag fagna ég átta allsgáðum árum. Átta góðum árum, kannski þeim allra bestu. En þegar ég horfi um öxl hugsa ég oft um eitt sem of sjaldan er minnst á í umræðunni um alkóhólisma. Ég hugsa um þann skaða sem áfengi veldur löngu áður en fólk áttar sig á að það er flækt í net fíknarinnar.
Þótt árin sem ástand mitt var auðsýnilegt mér og öðrum hafi ekki verið ýkja mörg veit ég nú að vandinn kraumaði undir niðri alla þá áratugi sem drykkja mín var samfélagslega samþykkt. Eftir að ég gat ekki afneitað vandanum lengur leitaði ég fljótt lausnar en sýktist þó sífellt meira vegna þess að mér var fyrirmunað að skilja vanda minn og þá ekki síður hjálpina við honum. Ég mætti auðmjúk og edrú í viðtöl við fagfólk og óvirka vini í bata en taldi vissara að hafa bjórdós í töskunni til að róa mig niður að fundum loknum. Á þessum degi fyrir átta árum fann ég loks hugrekkið og fúsleikann sem það krefst að kryfja sýkt atferli sitt og kafa djúpt í sálartetrið eftir skýringum á því. Ég er ævarandi þakklát þeim sem hafa rétt mér hjáparhönd, ástvinum, fagfólki og stórum skara óvirkra alka. Edrúmennska er samvinnuverkefni.
Stjórnsemi og afneitun
Ég sá það lengi sem sönnun þess að ég væri ekki alkóhólisti hvað ég stjórnaði drykkjunni vel. Gæti alkóhólisti staðið svona lengi á bremsunni? spurði ég sjálfa mig áður en ég áttaði mig á að það er einmitt lýsingin á alkóhólista. Alkar standa á bremsunni, telja drykkina, stýra neyslunni. Þeir sem ekki eiga við vanda að stríða þurfa ekki að stjórna neyslu sinni af því að þeir hafa sjálfvirkan drykkjateljara og innbyggð mörk. Eftir að ég missti tökin fór of mikið af tíma mínum og orku í að drekka – en nú veit ég að á meðan ég drakk „í hófi“ fór þessi sami tími og orka í að drekka ekki. Hugsanir mínar snerust um það erfiða verkefni að forðast áfengi. Að vera edrú þýðir ekki bara að neyta ekki áfengis heldur líka að aftengja sig þráhyggjunni. Það er ekki eins manns verk. Takk öll fyrir hjálpina.
Ástæða þess hve ómeðvituð við erum um undirliggjandi vandann áður en hann brýst út í öllu sínu veldi er einföld. Hún heitir afneitun og er annað aðaleinkenni alkóhólistans. Snemmtæk íhlutun er meira en möguleg, það er enginn sem segir að alkar þurfi að vera við dauðans dyr til að njóta aðstoðar heilbrigðiskerfisins við að hætta. En við alkarnir reynum í lengstu lög og jafnvel fólkið í kringum okkur líka að líta á drykkju sem heimsins eðlilegasta hlut.
Ofdrykkja í einrúmi
Þau sem þola áfengi hafa tilhneigingu til að halda að ofdrykkja fari fram í glasaglaumi og gleðskap á mannamótum. En ofdrykkjan færir sig fljótt á bak við luktar dyr einrúmsins. Í mörg ár sat ég við hliðina á Evu á kóræfingum. Hún var ákaflega pen, sænsk kona, grunnskólakennari, sem fór alltaf fyrst heim úr partíium. Það kom kórnum því í opna skjöldu þegar hún tók líf sitt af því að hún þorði ekki að horfast í augu við áfengisvandann. Eva fór heim úr gleðskapnum til að geta drukkið í friði. Á edrúafmælum hugsa ég til Evu og allra hinna sem verða að deyja af því að þeir fá ekki hreinsað hugann af þráhyggjunni. Þökk sé ykkur sem veittu mér kjarkinn.
Alvarleiki fíknarinnar
Í almennu tali eigum við það til að gjaldfella alvarleika fíknarinnar. Á þessum viðsjárverðu tímum finn ég til löngunar til að gera eitt og annað sem ég hef fyrir löngu vanið mig af. Eiginlega langar mig ekkert annað núna en að hámhorfa á danska krimma og úða í mig kókosbollum. En þetta er löngun. Fíkn er löngun í margföldu veldi. Fólk færir ekki siðferðismörk sín vegna sykurlöngunar. Hins vegar gæti löngun mín í krimma og kókosbollur í skugga heimsfaraldursins orðið til þess að ég missi tökin á daglegri rútínu edrúmennskunnar. Það gæti þróast í fíkn og þess vegna tala ég um þetta við ykkur. Á óvissutímum þarf að hlú að þessum hlutum og það er best gert með samtali. Edrúmennska er ekki einkamál.
Hvað sýnir ástandið okkur?
Ég finn til með þeim sem eru að missa tökin. Ég vorkenni þeim sem komast nú ekki í þarfa og langþráða meðferð. Hugur minn er hjá þeim sem í sóttkví sinni hugsa ekki um annað en það hvernig útvega megi áfengi án þess að fjölskyldan verði þess vör. Fjölmiðlar hvetja fólk til senda inn sögur úr faraldrinum. Sólskinssögurnar eru örugglega óteljandi en sóttkvíarmyndböndin gætu líka orðið svona: …„heyrðu, hér er ég að hjálpa stráknum með heimanámið, úbbs, ég sullaði yfir tölvuna“ eða „…þetta er stóra systir í fráhvörfunum“ eða „… pabbi dauður í sófanum fyrir hádegi þriðja daginn í röð.“
Dómsmálaráðherra telur að ástandið sýni þörf fyrir netverslun með áfengi. Ég les annað úr stöðunni.
Dómsmálaráðherra telur að ástandið sýni þörf fyrir netverslun með áfengi. Ég les annað úr stöðunni. Ástandið sýnir að almenningur, atvinnulíf og stjórnvöld um víða veröld eru reiðubúin að leggja á sig persónuleg óþægindi og efnahagslegt hrun til að vernda þá sem veikastir eru. Ég held að almenningur allra tíma vilji líka leggja sitt af mörkum til að vernda þá sem heimsfaraldur fíknarinnar herjar harðast á. Edrúmennska er nefnilega samfélagsleg áskorun - þess vegna má deila þessum pistli.
Fyrst birt á Facebooksíðu höfundar 1. apríl síðastliðinn.
Athugasemdir