„Landhelgisgæslan varar við hafís undan Vestfjörðum,“ segir í viðvörun um hafís, „landsins forna fjanda“, sem Landhelgisgæslan taldi að gæti rekið hratt að landi. Hafísinn var næst landi um 43 sjómílur norðvestur af Straumnesi á Vestfjörðum í gær klukkan 16.
„Veður og vindar voru með þeim hætti Landhelgisgæslunni þótti líklegt að hafís væri á svæðinu og gæti rekið hratt að landi,“ segir í tilkynningunni.
Vonskuveður er á svæðinu, eins og á landinu öllu. Gul viðvörun er í gildi í dag vegna veðurs á Vestfjörðum, Norðvesturlandi og Norðurlandi eystra. Það verður éljagangur eða snjókoma með skafrenningi, lélegt skyggni og erfið akstursskilyrði.
Næstu daga er spáð stífum norðanáttum með köflum og köldu veðri. Horfur eru á snjókomu næstu helgi, en í næstu viku gæti hlýnað.
Skipverjar á varðskipinu Þór komu auga á hafísinn, sem var rétt utan við hin fengsælu Halamið. Haft er eftir Halldóri Nellett, skipverja á Þór, að ísinn sé tættur. Hann reki hratt til suðsuðvesturs og sjáist illa á ratsjá. Finna má íshrafl og ísmola utan svæðisins sem kortlagt var af Landhelgisgæslunni.
Nánari upplýsingar fyrir sjófarendur hér.


Athugasemdir