Það kemur Drífu Snædal, forseta ASÍ, ekki á óvart að fyrirtæki reyni að misnota hlutabótaleiðina sem kynnt var í síðustu viku. Hún segir fjöldann allan af tilkynningum hafa borist sambandinu um að fólk hafi verið fært niður í 25% starfshlutfall að nafninu til þannig að ríkið greiði 75% af laununum, en sinni síðan fullu starfi. Drífa segir að nú sé verið að skoða til hvaða aðgerða hægt sé að grípa.
Efling vakti athygli á þessu á vefsíðu sinni í gær en samkvæmt nýjum lögum um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins mögulegs samdráttar í starfsemi vinnuveitenda vegna kórónaveirunnar, verða fólki með allt að 400.000 krónur í mánaðarlaun tryggðar fullar tekjur.
Lögin kveða á um að laun þeirra sem eru með hærri mánaðarlaun geta aldrei samanlagt numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna, miðað við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta og bæturnar koma úr atvinnutryggingasjóði. Með þessu móti geta fyrirtæki sem draga saman seglin á næstu vikum þannig haldið ráðningarsambandi við starfsfólk sem ekki hefur verkefni.
„Okkur hafa borist ábendingar um þetta frá fólki í allflestum starfsgreinum og það er yfirleitt fólkið sjálft, sem verður fyrir þessu, sem sendir okkur þessar ábendingar,“ segir Drífa. „En það þarf að hafa í huga að hugsanlega gæti gætt einhvers misskilnings varðandi þetta úrræði og við munum á næstunni reyna að leiðrétta hann með öllum hætti.“
Grípa þarf til aðgerða sem fyrst
Spurð hversu margar ábendingarnar séu segir Drífa að það verði ekki gefið upp að svo stöddu, „En þær eru það margar að við teljum að grípa þurfi til aðgerða sem fyrst og upplýsa um að þetta sé ekki í boði.“
Drífa segir að ASÍ hafi rökstuddan grun um að fyrirtæki, sem ekki eigi í neinum greiðslu- eða rekstrarerfiðleikum af neinu tagi, nýti sér nú þessa leið. „Við höfum heyrt af því að fyrirtæki telji sig eiga rétt á þessu til að eiga borð fyrir báru, ef ske kynni að þau myndu lenda í erfiðleikum síðar meir. Þetta úrræði er ekki ætlað til þess, eins og fram hefur komið, heldur til að bregðast við þeim erfiðleikum sem atvinnulífið stendur frammi fyrir hér og nú.“
Spurð hvort það hafi komið henni á óvart að einhverjir skuli hugsanlega misnota sér þetta úrræði segir Drífa svo ekki vera. „Nei, því miður. Við óttuðumst að þetta myndi gerast. Þetta er það opið úrræði, þarna er verið að galopna fyrir skráningu á atvinnuleysi að hluta til og það er ákveðin hætta sem fylgir svona aðgerðum.“
„Við höfum heyrt af því að fyrirtæki telji sig eiga rétt á þessu til að eiga borð fyrir báru, ef ske kynni að þau myndu lenda í erfiðleikum síðar meir“
Óprúttnir aðilar, segir Sólveig Anna
„Það er ekkert ólíklegt að þarna sé á ferð misskilningur hjá einhverjum atvinnurekendum. En ég tel því miður að um sé að ræða einbeittan brotavilja í einhverjum tilvikum,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
„Þarna eru óprúttnir aðilar, ég ætla að leyfa mér að nota það orð, sem hafa í undanförnu góðæri verið i rekstri sem því miður hefur gengið út á það að hámarka gróðann á sem skemmstum tíma með sem árangursríkustum hætti. Það er einfaldlega partur af rekstrarmódelinu að leita allra leiða til taka sem mest til sín á kostnað vinnandi fólks og núna hefur sá möguleiki bæst við að taka sem mest til sín á kostnað samfélagsins alls.“
Athugasemdir