Borgaraleg skylda til að hjálpa á hættustundu hefur verið í lögum frá 1962 hið minnsta. Ný reglugerð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, sem tengir slíka skyldu við neyðarstig almannavarna, felur þannig ekki í sér nein nýmæli um getu stjórnvalda til þess að krefja fólk um að gegna starfi í hjálparliði almannavarna án endurgjalds.
Hjálparlið almannavarna aðstoðar við eldvarnir, björgun og sjúkraflutninga, ruðningsstarf, hjálparstarf vegna tjóns af völdum geislavirkni, sýkla eða eiturefna, löggæslu, fjarskiptaþjónustu og félagslegt hjálparstarf, að því fram kemur í reglugerðinni.
Lög um almannavarnir voru samþykkt árið 2008 í tíð Björns Bjarnasonar sem dómsmálaráðherra. Við samþykkt laganna féllu úr gildi fyrri lög sem sett höfðu verið árið 1962. Í þeim var um sams konar borgaralega skyldu að ræða til að aðstoða á hættustundu.
Reglugerð sem Áslaug Arna setti á þriðjudag hefur vakið athygli, en í henni er ekki talað um „hættustundu“ eins og í lögunum. Ákvæðið er þess í stað tengt neyðarstigi almannavarna sem hefur verið í gildi frá 6. mars síðastliðnum. Heimild er í lögunum til að setja reglugerðina um starfsskyldu. „Skal að því stefnt að starfskvöð komi sem réttlátast niður á borgarana,“ segir í lögunum.
„Á neyðarstigi almannavarna er það borgaraleg skylda manna sem eru á aldrinum 18–65 ára að gegna, án endurgjalds, starfi í hjálparliði almannavarna í umdæmi þar sem þeir dveljast samkvæmt fyrirmælum er lögreglustjóri gefur, að fengnum tillögum almannavarnanefndar eða ríkislögreglustjóra,“ segir í nýju reglugerðinni. „Kveðja má þá sem eru á aldrinum 16–18 ára eða eldri en 65 ára til starfs skv. 1. mgr., ef þeir óska þess sjálfir. Þeim sem kvaddir hafa verið til starfs skv. 1. mgr. ber að koma til læknisskoðunar, ef nauðsynlegt þykir. Enginn má á neinn hátt tálma því að maður gegni starfi sem hann hefur verið kvaddur til í þágu almannavarna.“
Lögreglustjóri skipar í hjálparlið, en ákvörðun hans má ekki skjóta til dómsmálaráðherra þegar neyðarástand ríkir. Þá má sá sem kvaddur er til aðstoðar ekki fara úr lögsagnarumdæmi án samþykkis lögreglustjóra. Loks hefur ríkislögreglustjóri ákvörðunarvald um flutning þeirra sem kvaddir eru til tafarlausrar aðstoðar.
Engin ákvæði eru um viðurlög við því að skorast undan því að gegna starfinu, hvorki í lögunum né reglugerðinni.
Athugasemdir