Það dylst fæstum að örorkulífeyrisþegar á Íslandi búa við ákaflega bág kjör. Framfærsluviðmið örorkulífeyris, sem skilgreina óskertan örorkulífeyri og má líta á nokkurs konar grunnlaun örorkulífeyrisþega, voru til dæmis rúm 75% af lægstu launum á íslenskum vinnumarkaði árið 2018 fyrir öryrkja sem búa með öðrum. Þá höfðu framfærsluviðmiðin dregist aftur úr lægstu launum á Íslandi árin á undan en árið 2009 nam framfærsluviðmið þeirra sem bjuggu með öðrum rúmlega 95% af lægstu launum. Kaupmáttur framfærsluviðmiðsins hefur þó hækkað frá 2011 en þó minna en fólks á vinnumarkaði. Frá 2018 hefur kaupmátturinn svo gott sem staðið í stað.
Það er þó rétt að halda því til haga að það er aðeins lítill hluti örorkulífeyrisþega sem reiðir sig alfarið á framfærsluviðmiðin. Sumir eru með tekjur úr lífeyrissjóðum en samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands hefur birt fyrir árið 2017 voru 28,5% örorkulífeyrisþega starfandi og 37,6% af þeim hópi í fullu starfi. Einhver kynni að ætla að slík atvinnuþátttaka skilaði örorkulífeyrisþegum umtalsverðum kjarabótum en svo er ekki. Til að skilja af hverju, er nauðsynlegt að skoða hvernig örorkulífeyrir skerðist vegna atvinnutekna.
Nokkrar forsendur
Á vefsíðu Tryggingastofnunar er reiknivél sem gerir manni kleift að skoða samspil tekna og örorkutengdra greiðslna frá stofnuninni með því að mata forsendur inn í vélina. Dæmið sem ég ætla að taka er barnlaus örorkulífeyrisþegi sem býr einn, er ekki með hreyfihömlun og varð öryrki 20 ára. Tekjuviðmiðið tek ég úr kjarasamningum á almennum markaði, hina svokölluðu tekjutryggingu sem skilgreinir lægstu mánaðarlaun fólks í fullu starfi á almenna markaðinum. Þegar greinin er skrifuð nam tekjutryggingin 317 þúsund krónum á mánuði en hækkar þann 1. apríl næstkomandi. Það er rétt að taka fram að tekjutryggingin gefur ekki endilega rétta mynd af kjörum í hlutastörfum, sem njóta ekki tekjutryggingar, en þessi skilgreining á tekjum er samt gagnleg til að draga fram hvernig skerðingarnar virka.
Guðrún
Gefum okkur að örorkulífeyrisþeginn okkar, köllum hana Guðrúnu af því meirihluti örorkulífeyrisþega eru konur og Guðrún er algengasta kvenmannsnafn á Íslandi, hefji leikinn utan vinnumarkaðar og reiði sig alfarið á greiðslur frá TR. Mánaðargreiðslan skiptist í fimm flokka, þ.e. 1) örorkulífeyri upp á 48.108 krónur; 2) aldurstengda örorkuuppbót að sömu fjárhæð; 3) tekjutryggingu að upphæð 154.058 krónum; 4) heimilisuppbót sem nemur 52.073 krónum og svo 43.385 krónu í framfærsluuppbót. Einhver kann að spyrja „Af hverju fimm greiðsluflokkar?“ það er mjög góð spurning en efni í aðra grein. Það sem skiptir okkur máli er að heildargreiðslan sem Guðrún fær frá TR er 345.732 krónur á mánuði. Frá því dregst skattur, frá skattinum dregst persónuafsláttur og eftir standa 279.026 krónur sem Guðrún hefur til að lifa af mánuðinn.
Einn daginn býðst Guðrúnu 20% starf sem skilar atvinnutekjum sem nema 20% af lágmarkstekjutryggingu á almennum markaði. Þar sem hún hefur starfsgetu til að sinna starfinu í svo lágu hlutfalli og er orðin langþreytt á bágum kjörum þiggur hún starfið. Vinnuveitandinn greiðir henni 63.400 krónur á mánuði fyrir starfið. Af þeim heldur hún eftir 13.938 krónum, sem er um 22% af laununum sem hún vann sér inn. Skatturinn og skerðingarnar taka rest. Guðrún veltir eðlilega fyrir sér hvort það borgi sig yfirhöfuð að vinna.
Henni líður samt vel í vinnunni og nær góðum tökum á starfinu. Atvinnurekandinn er líka ánægður með hana og einn daginn býður hann henni að auka starfshlutfallið í 35%. Það vill svo til að þetta er það atvinnutekjubil þar sem hlutfallið sem örorkulífeyrisþegar í hennar stöðu halda eftir af atvinnutekjum hækkar (samspil skatta og skerðinga). Guðrún fær núna 110.950 krónur á mánuði og heldur eftir 37,9% af þeim launum sem hún vinnur sér inn, eða 42.002 krónum. Skatturinn og skerðingarnar taka rest.
Ef starfshlutfall Guðrúnar heldur áfram að hækka lækkar hins vegar hlutfallið af atvinnutekjum sem hún heldur eftir. Í 40% starfi héldi hún eftir 36,9%, í 50% starfi 35,7% og svo koll af kolli. Það borgar sig sem sagt sífellt verr að bæta við sig vinnu hér eftir. Ef starfið hennar yrði gert að fullu starfi myndi hún halda eftir 28,1% af atvinnutekjunum sem hún vinnur sér inn. Atvinnutekjurnar hennar hefðu farið úr núll í 317 þúsund krónur á mánuði en ráðstöfunartekjurnar hennar hefðu aðeins hækkað um 88,934 krónur. Jafnvel þótt hún gæti það eru dvínandi líkur á því að Guðrún auki starfshlutfallið sitt frekar og álagið fyrir manneskju með skerta starfsgetu að vera í 100% starfi, ef hún yfirhöfuð getur það, fyrir svo litla hækkun ráðstöfunartekna er varla þess virði.
Krónufallið
Eitt af því sérkennilegra í íslenska örorkulífeyriskerfinu er krónufallið svokallaða, það er sá staður í tekjudreifingunni þar sem allar greiðslur grunnlífeyrisins falla niður. Í ár gerist það hjá Guðrúnu þegar atvinnutekjur ná 407.034 krónum á mánuði. Ef hún væri í starfi þar sem hún fengi 407.033 krónur á mánuði fengi hún samtals 101.617 krónur á mánuði frá Tryggingastofnun en ef launin hennar hækka um eina krónu þá hverfa greiðslurnar frá TR. Afleiðingin er að ráðstöfunartekjurnar hennar lækka um 16,7% og verða 317.530 krónur á mánuði í stað 381.355 krónur, sem er minna en hún hefði í ráðstöfunartekjur í 35% starfi. Tökum þetta aftur: Mánaðarlaunin hækka um 1 krónu, ráðstöfunartekjur lækka um 63.825 krónur á mánuði.
Krónufallið hefur aðra mjög óheppilega afleiðingu. Vinnusamningar öryrkja eru úrræði til að auka atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega. Fyrstu tvö ár í starfi fær atvinnurekandinn 75% af föstum launum örorkulífeyrisþega endurgreidd frá hinu opinbera en eftir það lækkar endurgreiðsluhlutfallið um 10 prósentustig á tólf mánaða fresti þar til lágmarksendurgreiðsluhlutfalli er náð (25%). Eitt af skilyrðunum fyrir því að fá vinnusamning er að fá greiddan örorkulífeyri. Ef launahækkun færir örorkulífeyrisþega yfir tekjufallið hverfa örorkulífeyrisgreiðslurnar og öryrkinn á þá ekki lengur rétt á vinnusamningi, missir þá hugsanlega vinnuna eða fer í lægra starfshlutfall. Þetta er veigamikill galli á úrræði sem er ætlað til að auka virkni á vinnumarkaði.
Vinnuletjandi fátæktargildra
Við erum komin á mjög skrítinn stað hvað varðar kjaramál örorkulífeyrisþega. Óskertur grunnlífeyrir samkvæmt framfærsluviðmiði hefur dregist aftur úr launum á vinnumarkaði. Á sama tíma hafa örorkulífeyrisþegar lítið svigrúm til að bæta kjör sín vegna tekjutenginga. Hluti af vandanum er að skerðingarmörk hafa staðið í stað að nafnvirði frá árinu 2010 sem þýðir að þau hafa ekki fylgt launaþróun á vinnumarkaði og rýrnað um 22,5% að raunvirði. Það hefur því orðið sífellt erfiðara fyrir örorkulífeyrisþega að bæta kjör sín með vinnu.
Það hefur því orðið sífellt erfiðara fyrir örorkulífeyrisþega að bæta kjör sín með vinnu.
Ef við hugsun þetta út frá vinnuhvötum, enda rík áhersla á að auka atvinnuþátttöku öryrkja í íslensku samfélagi, þá má vera ljóst að skerðingarnar eru almennt mjög vinnuletjandi fyrir örorkulífeyrisþega og hafa orðið sífellt meira vinnuletjandi á undanförnum árum. Að auki eru vinnuletjandi þröskuldar í skerðingakerfinu, til dæmis lækkandi hlutfall atvinnutekna sem örorkulífeyrisþegar eins og Guðrún halda eftir þegar laun fara umfram sirka 35% af lágmarkslaunum á almennum markaði og svo aftur krónufallið svokallaða.
Það er þó til marks um gildi vinnunnar í lífi fólks að næstum þrír af hverjum tíu örorkulífeyrisþegum eru í launuðu starfi miðað við nýjustu tölur Hagstofunnar. Það bendir til þess að áherslan á starfsendurhæfingu hafi ef til vill verið of eindregin þó slík endurhæfing væri óneitanlega mikilvægur hluti af vel hönnuðu kerfi í kringum örorku. Meginverkefnin sem við stöndum frammi fyrir á sviði örorku er að tryggja fólki með litla eða enga starfsgetu ásættanleg lífskjör, styðja betur við atvinnu fólks með skerta starfsgetu og búa svo um hnútana að vinnan skili þeim bættum kjörum.
Athugasemdir