Börn bera aldrei ábyrgð á eigin lífskjörum. Engu að síður eru þau sá þjóðfélagshópur sem líður einna mest fyrir fátækt foreldra sinna, óháð því hvaða ástæður eru fyrir henni. Fátækt í æsku hefur margvísleg áhrif á lífshlaup fólks og þegar börn líða skort og hafa til dæmis ekki tækifæri til að halda upp á afmæli, bjóða vinum heim, fá ný föt eða eiga sömu áhugamál og jafnaldrar þeirra, er hætta á að þau verði félagslega einangruð. Þar með hafa ekki öll börn sömu möguleika á að njóta réttinda sinna. Þá hafa rannsóknir sýnt að börnum af efnaminni heimilum er hættara en öðrum börnum við að verða fyrir kynferðisofbeldi. Um 10% íslenskra barna búa á heimilum þar sem tekjur eru undir lágtekjumörkum. Á Íslandi eru rúmlega 85.000 börn á aldrinum 0-18 ára og því búa um 8.500 börn við þessar aðstæður.
Þrjú þessara barna segja sögu sína í viðtali við Stundina. Þau vilja ekki koma öll fram undir nafni. Foreldrar þeirra, sem sjálf ólust upp við fátækt, óttast að börnin þeirra muni festast í fátækragildru. Þau eru farin að venjast þessu ástandi, þau þekkja ekkert annað,“ segir ein móðirin. Hér er fyrsta viðtalið birt, en þar segir Heiðar Hildarson, 18 ára drengur frá aðstæðum sínum.
Oft lítill matur í ísskápnum
„Ég hef alist upp við fátækt. Mamma er öryrki og er ein með okkur bræðurna. Hún hefur aldrei haft neitt á milli handanna en hefur reynt að láta okkur ekki finna fyrir því. Við höfum fengið mikla hjálp frá öðrum; ömmu og afa, frændfólki og hjálparstofnunum. Oft kom fyrir að það var lítill matur í ísskápnum. Mamma passaði alltaf að ég fengi að borða, þá borðaði hún minna. Stundum fórum við í mat til ömmu og afa þegar við áttum lítið.
„Mamma passaði alltaf að ég fengi að borða, þá borðaði hún minna“
Við höfum alltaf fengið aðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar og fengið þar mat og föt.
Athugasemdir