911 börn hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi undanfarin fimm ár eða verið hluti af fjölskyldum sem hafa sótt um. 185 barnanna voru undir tveggja ára aldri.
Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns um umsóknir barna árin 2015 til 2019. Ekki var hægt að svara fyrir um niðurstöður allra málanna, þar sem sum þeirra eru enn til meðferðar. Þá er hluti þeirra í meðferð hjá kærunefnd útlendingamála og niðurstaða málanna gæti breyst.
90 af börnunum var synjað um efnismeðferð, að því fram kemur í svarinu, en 58 barnanna úr þeim hópi voru frá ríkjum sem síðar hafa verið sett á lista yfir örugg upprunaríki. 178 umsóknir á tímabilinu voru dregnar til baka. 63 börn voru send úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. 267 börn fengu jákvæða niðurstöðu um alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
Tekin viðtöl við 93 af börnunum sem um ræðir. Viðtölin fara annað hvort fram hjá Útlendingastofnun eða í Barnahúsi. „Öllum börnum sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi, hvort sem er í fylgd foreldra sinna eða fylgdarlaus, er boðið í viðtal hafi þau þroska, getu og vilja til þess,“ segir í svari ráðherra. „Starfsfólk stofnunarinnar sem hefur hlotið til þess sérstaka þjálfun hefur tekið viðtöl við börn allt niður í fimm ára aldur. Þannig er börnum tryggður réttur til að tjá sig sjálf um aðstæður sínar, heilsufar, líðan og fleira.“
Athugasemdir