„Framferði nýju valdhafanna í Póllandi hefur valdið okkur í Norðurlandaráði og mörgum öðrum áhyggjum á síðustu árum. Umdeildar breytingar á dómskerfinu, afskipti valdhafa af störfum fjölmiðla og afstaðan til hinsegin fólks er á skjön við skoðanir og hugsjónir mínar og flestra norrænna stjórnmálamanna.“
Þetta skrifar Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og forseti Norðurlandaráðs, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag sem ber titilinn „Norðurlandaráð styður lýðræðisöfl í Póllandi“. Silja Dögg bendir á að hátt í fjórir af hverjum tíu innflytjendum á Íslandi séu frá Póllandi, alls nálægt því tuttugu þúsund manns, fleiri en allir íbúar Reykjanesbæjar eða Akureyrar. „Þó ekki væri nema af þessari ástæðu ættu málefni Póllands að vera ofarlega í hugum Íslendinga,“ skrifar hún. „Pólverjar eru jafnframt fjölmennasti hópur innflytjenda í Noregi og Danmörku og í Svíþjóð búa næstum 100 þúsund Pólverjar. Stjórnmálamenn í þessum löndum eru enda mjög uppteknir af þróun mála í þessu stóra og fjölmenna nágrannalandi sínu.“
Hún bendir á að lítil sem engin samskipti hafi verið milli Norðurlandaráðs og pólska þingsins frá árinu 2015, þegar þjóðernis- og íhaldsflokkurinn Lög og réttur náði meirihluta á þinginu og tók við stjórnartaumunum í Póllandi. Flokkurinn hafi hins vegar misst tökin á öldungadeild þingsins í október og tengslin hafi verið endurvakin, að frumkvæði Tomasz Grodzki, forseta öldungadeildarinnar. Þriggja manna sendinefnd muni heimsækja pólska þingið í mars.
„Á fundum með Grodzki þingforseta og fleiri pólskum þingmönnum ætlum við meðal annars að ræða stöðu pólskra innflytjenda á Norðurlöndum en jafnframt upplýsingaóreiðu og falsfréttir, sem er hluti af áherslumálum formennsku Íslands í Norðurlandaráði. Einnig verður rætt um öryggismál og sérstaklega stöðuna í Úkraínu og almennt um samstarf Póllands við Norðurlönd og Eystrasaltsríkin,“ skrifar Silja Dögg að lokum.
Athugasemdir