Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vísar nú á Lyfjastofnun og Matvælastofnun hvað varðar spurningar um hvort CBD olía, sem unnin er úr plöntum af kannabisætt, sé lögleg á Íslandi. „Án þess að fara í lagalegu flækjuna á bak við þá niðurstöðu þá er svarið já,“ hafði embættið svarað fyrirspurn um slíkt mál, sem Stundin fjallaði um á mánudag.
Í færslu á Facebook síðu sinni í dag dregur hins vegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu úr fyrra svari um að CBD væri löglegt. „Því miður varð sá leiði misskilningur að svarað var á þá leið að svo væri. Réttara hefði verið að vísa í upplýsingar frá Lyfjastofnun og Matvælastofnun en CBD fellur undir eftirlit þessara stofnana eftir því hvort um lyf eða fæðubótaefni sé að ræða.“
Í framhaldinu vísar embættið á upplýsingar um CBD sem má finna á vef Matvælastofnunar. „„Óheimilt er að flytja inn, dreifa eða markaðssetja fæðubótaefni sem innihalda CBD (kannabídíól). CBD er eitt af virku efnunum í kannabis og eru dæmi um að efnið sé notað í læknisfræðilegum tilgangi. Hérlendis er CBD innihaldsefni í lyfi með markaðsleyfi, en fyrir slíkar vörur gilda lyfjalög,“ segir á vef þeirra. Eru CBD olíur, framleiddar sem fæðubótarefni, því bannaðar á grundvelli matvælalaga, en undantekningar er hægt að heimila þegar magn CBD í fæðubótarefni er lágt.
„Í framhaldi af umfjöllun mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skoða aftur umrædda vöru og skoða hvort rétt sé að rannsaka málið frekar eða beina því til skoðunar hjá viðeigandi eftirlitsstofnun,“ segir í færslu lögreglunnar.
Athugasemdir