Ekkert svar barst frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra við tilboði Eflingar sem lagt var fram í morgun. Í tilboði Eflingar fólst að félagið myndi fresta verkfallsaðgerðum í tvo sólarhringa ef borgarstjóri myndi staðfesta skriflega tilboð sitt sem hann setti fram í Kasltjósi 19. febrúar síðastliðinn, um grunnlaunahækkun Eflingarstarfsmanna. Frestur sem Efling gaf borgarstjóra til að svara tilboðinu rann út nú klukkan fjögur.
Í tilboði Eflingar fólst að samkomulag yrði gert milli borgarinnar og Eflingar um að hækkun grunnlauna á samningstímanum yrði 100 til 110 þúsund krónur og fengju launalægri hópar hærri hækkun en þeir sem ofar stæðu í launastiganum. Samkomulagið innibar ekki niðurstöðu í öðrum málum sem þyrfti svo að semja um í framhaldinu, svo sem ýmsar sér- og álagsgreiðslur. Hefði borgarstjóri samþykkt tilboð Eflingar hefði verkfalli félagsins verið frestað á miðnætti í kvöld og næstu tvo sólarhringa.
„Við fengum ekkert svar, hvorki afsvar né annað svar. Við fengum raunar ekki tilkynningu um móttöku á þessu erindi frá borginni,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. „Ég held að þetta sýni að það er á ferðinni einhvers konar alvöruleysi af hálfu borgarinnar í vinnubrögðum í þessu máli.“ Ekki hefur verið boðaður fundur í deilunni.
Athugasemdir