Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) leggjast eindregið gegn hugmyndum um hærra skrásetningargjald í opinbera háskóla enda muni það koma til með að skerða aðgengi stúdenta á landsvísu að háskólamenntun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér í dag.
Til skoðunar er að hækka skrásetningargjald í Háskóla Íslands um 39 prósent, úr 75 þúsund krónum í 104 þúsund. „Það eru til að mynda hærri gjöld en stúdentar greiða í suma einkarekna háskóla í Noregi og mun hærri skrásetningargjöld en tíðkast á Norðurlöndunum öllum,“ segir í yfirlýsingu LÍS. „LÍS taka undir yfirlýsingu Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) um málið þar sem fram kemur að hækkun skólagjalda verði til þess að hækka þá þröskulda sem standa í vegi fyrir þeim sem vilja stunda nám á háskólastigi. Undirstaða jafnréttis er aðgengi og myndi hækkun gjalda skerða aðgengi stúdenta að opinberum háskóla til muna. Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) veitir ekki lán fyrir skrásetningargjöldum enda eiga skrásetningargjöld ekki að vera svo há að þau séu byrði fyrir stúdenta.“
Samtökin telja að hækkunin muni ekki aðeins koma niður á nemendum við Háskóla Íslands. „Opinberir háskólar hafa til þessa haldist í hendur hvað varðar skrásetningargjöld en þau eru nú 75.000 krónur í öllum fjórum opinberu háskólum landsins. Því má ætla að gjöldin í hinum þremur skólunum muni hækka í takt við hækkun skólagjalda í HÍ ef til hennar kemur.“
Þá benda samtökin einnig á að stúdentar í einkareknum háskólum fái ekki skólagjaldalán fyrir þeirri fjárhæð sem opinberum háskólum er heimilt að innheimta fyrir skrásetningu. „Stúdentar í einkareknum háskólum hafa því frá árinu 2014 þurft að leggja út 75.000 krónur af sínum skólagjöldum til þess að geta stundað nám. Ef framkvæmd stjórnar LÍN við gerð úthlutunarreglna breytist ekki munu stúdentar í einkareknum háskólum því að öllum líkindum þurfa að leggja sjálfir út fyrir þessum 104.000 krónum, og síðar 107.000 krónum, í stað þeirra 75.000 króna sem þeir þurfa nú að greiða af skólagjöldum. Sú fjárhæð hefur nú þegar verið gríðarlega íþyngjandi fyrir stúdenta sem margir hverjir hafa einungis tök á að vinna yfir sumartímann og leggjast aðrir í mikla vinnu samhliða skóla og hafa þannig ekki færi á að sinna náminu sínu sem skyldi.“
LÍS segja að vilji til að hækka skrásetningargjald kunni að vera tilkominn vegna undirfjármögnunar háskólakerfisins. „Að mati LÍS er ekki rétt að seilast í vasa stúdenta til þess að bæta fjárhagsstöðu háskólanna. Til þess að bæta hana þarf einfaldlega hærri fjárframlög frá ríkinu og biðla LÍS til stjórnvalda um að bæta ríflega í fjárframlög til háskólastigsins og láta vasa stúdenta í friði.“
Athugasemdir