Samninganefnd Reykjavíkurborgar svaraði ekki tilboði Eflingar sem lagt var fram á samningafundi hjá Ríkissáttasemjara 26. febrúar síðastliðinn. Þar var kynnt leið til hækkunar grunnlauna félagsmanna Eflingar auk sérstakra leiðréttinga á kjörum kvennastétta. Samninganefnd Eflingar fékk engin viðbrögð við tilboðinu á fundinum og hefur enn ekki fengið slík svör. Stundin hefur undir höndum kröfur Eflingar og viðbrögð Reykjavíkurborgar við þeim.
Af hálfu samninganefndar Reykjavíkurborgar hafa bara verið lögð fram töluleg tilboð um hækkun grunnlauna starfsfólks með fimm mismunandi starfsheiti. Þau tilboð snerta ríflega 650 manns innan raða Eflingar. Eftir standa ríflega 1.000 manns, sem bera um 40 starfsheiti, sem samninganefnd Reykjavíkurborgar hefur ekki lagt fram sérstök tilboð fyrir eða brugðist við kröfum Eflingar þeim til handa. Samninganefnd Eflingar veit því ekki hvað borgin hefur að, eða vill, bjóða og ekkert heyrist úr ranni samninganefndar borgarinnar. Ekki hefur verið boðaður nýr fundur í kjaradeilunni.
Efling býður samninga á grundvelli tillögu sem borgin kynnti
Tilboð Eflingar gekk út á að grunnlaun allra félagsmanna stéttarfélagsins yrðu hækkuð með fyrirmynd í dæmi sem borgin kynnti á heimasíðu sinni 20. febrúar síðastliðinn, um hækkun grunnlauna ófaglærðs starfsfólks í leikskóla um 110 þúsund krónur. Það dæmi var einnig lagt fram á samningafundi Eflingar og borgarinnar 19. febrúar, í plaggi sem heitir Kjarasamningar 2019/2020 – Viðbrögð Reykjavíkurborgar við tillögum Eflingar. Stundin hefur það plagg undir höndum og einnig önnur gögn sem deiluaðilar hafa lagt fram á síðustu vikum. Fram kemur í því plaggi að verið er að miða við starfsfólk sem gegnir starfsheitinu starfsmaður 2 á skóla- og frístundasviði. Reykjavíkurborg býður umræddum starfsmanni 110 þúsund króna hækkun á grunnlaunum sem skiptast þannig að 90 þúsund króna hækkun kemur til á grunnlaun að fordæmi Lífskjarasamninga, 9 þúsund króna hækkun næst fram með samræmingu bila milli launaflokka hjá borginni og 11 þúsund krónur kæmu til sem sérstök hækkun.
Efling bauð að grunnlaun félagsmamanna myndu hækka með sama hætti og umrætt dæmi gerir ráð fyrir. 90 þúsund króna hækkun grunnlauna fengju allir félagsmenn Eflingar að fyrirmynd Lífskjarasamningsins, en um það ríkir samkomulag milli samningsaðila. Hluti grunnlaunahækkunar myndi svo nást fram með því að launabil á milli launaflokka hjá borginni verði samræmd og jöfnuð. Sú aðgerð myndi skila launahækkunum til allra starfsheita, um nálægt því 7 þúsund krónur að meðaltali. Reykjavíkurborg hefur þegar boðið þessa aðgerð og Efling fellst á hana.
„Krafa borgarinnar var sú að við gæfum eftir þessar greiðslur en við höfum alfarið hafnað því“
Það sem út af stæði myndi nást fram með sérstökum hækkunum sem færu lækkandi eftir því sem hærra væri farið í launaflokka. Þannig myndu þeir sem lægst grunnlaunin hafa fá hæstu hækkunina, 11 þúsund krónur. Sú hækkun færi svo lækkandi um 500 krónur fyrir hvern launaflokk eftir launaflokk 228, en í honum er starfsfólk sem ber starfsheitið leiðbeinandi 1 á skóla- og frístundasviði. Þannig fengi starfsmaður sem ber starfsheitið félagsliði í heimaþjónustu, á velferðarsviði borgarinnar, til dæmis 6.500 króna grunnlaunahækkun og yfirmaður mötuneytis leikskóla á skóla- og frístundasviði fengi 2.000 króna hækkun grunnlauna. Við þessu tilboði Eflingar kom ekkert svar frá saminganefnd Reykjavíkurborgar, hvorki á fundinum síðastliðinn miðvikudag né eftir það.
Borgin samþykkir að viðbótargreiðslur haldist
Í viðbragði Reykjavíkurborgar við tillögum Eflingar sem lagt var fram 19. febrúar og áður hefur verið vísað til kom fram að borgin myndi tryggja að þeir starfsmenn sem hafi fengið sérstakar viðbótargreiðslur umfram grunnlaun myndu halda þeim, þó í breyttu formi yrði. Um er að ræða greiðslur fyrir fasta yfirvinnu til starfsmanna á leikskólum fyrir að matast með börnunum, fasta yfirvinnu starfsmanna á velferðarsviði vegna kaffitíma sem falla út og vegna hádegishlés sem telur til vinnutíma hjá ýmsu starfsfólki á skóla- og frístundasviði, velferðarsviði og umhverfis- og skipulagssviði. Um er að ræða mál sem hafði verið mikill ásteytingarsteinn í samningaviðræðunum fram til þessa að sögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar. Í viðtali í Stundinni 21. febrúar síðastliðinn lýsti Sólveig Anna því að lengi vel hefðu átökin yfir samningsborðið að miklu leyti snúist um þetta. „Krafa borgarinnar var sú að við gæfum eftir þessar greiðslur en við höfum alfarið hafnað því.“
Efling vill leiðrétta kjör kvennastétta sérstaklega
Reykjavíkurborg hafði boðið að umrædd föst yfirvinna yrði að föstum greiðslum, upbbót sem yrði á bilinu 35 til 45 þúsund krónur fyrir starfsmenn leikskóla og á bilinu 46 til 55 fyrir starfsfólk í heimaþjónustu. Samninganefnd Eflingar lagði einnig fram tilboð vegna þessara greiðslna á samningafundinum 26. febrúar síðastliðinn. Það tilboð fól í sér að umræddar greiðslur yrðu auknar nokkuð sem markmið að því að leiðrétta kjör sögulega vanmetinna kvennastétta hjá Reykjavíkurborg. Tilboð Eflingar hljóðaði upp á að uppbætur til starfsmanna á leikskólum yrðu flöt upphæð, 47 þúsund krónur, 57 þúsund krónur til þeirra sem vinna við heimaþjónustu. Umræddar uppbætur teldust ekki til grunnlauna og hefðu þar með ekki áhrif á yfirvinnugreiðslur eða yrðu til breytinga á launaflokkum.
Þá fór Efling einnig fram á að lagt yrði á breytilegt jöfnunarálag, starfstengt, handa ákveðnum hópum og var áætlað að það næði til innan við 300 starfsmanna. Um væri að ræða upphæðir á bilinu 3 til 9 þúsund krónur á mánuði nema að greitt yrði 20 þúsund króna álag til þeirra sem sinntu ræstingu.
Engin svör við tilboði Eflingar
Reykjavíkurborg svaraði þessu tilboði Eflingar ekki heldur og einu viðbrögðin sem Efling fékk á umræddum fundi var að samninganefnd borgarinnar sendi spurningar um eitt og annað sem samningafólk Eflingar svaraði. Að því loknu barst Eflingu tveggja síðna skjal frá samninganefnd borgarinnar þar sem búið var að fastsetja upphæðir þær sem greiða ætti í stað fastrar yfirvinnu, svo sem rakið er hér að framan. Að öðru leyti fékk Efling engin svör við tilboðum sínum, hvorki jákvæð né neikvæð, og gekk samninganefndin við svo búið af fundi.
Því eru það ekki nema 12 þúsund krónur sem ber á milli samningsaðilanna í umræddu dæmi
Ekki hefur verið boðaður nýr samningafundur í deilunni. Vekur það athygli í ljósi þess að ýmsum kann að finnast að ekki beri mikið á milli samningsaðila, sé horft til dæmisins sem borgin setti fram um ófaglærðan starfsmann á leikskóla og Efling hefur gert að tillögu sinni að verði grundvöllur samninganna. Aðeins er meiningarmunur um upphæð uppbótar vegna neysluhlés starfsmanna. Borgin hefur boðið að sú greiðsla verði 35 þúsund krónur en Efling fer fram á að uppbótin verði 47 þúsund krónur. Því eru það ekki nema 12 þúsund krónur sem ber á milli samningsaðilanna í umræddu dæmi.
Um 1.000 manns standa enn algjörlega út af borðinu
Í skjali samninganefndar Reykjavíkurborgar kemur fram að borgin ætli sér að hækka laun lægst launaða hópsins með sértækum aðgerðum en jafnframt að ekki sé hægt að láta þær sértæku aðgerðir ganga yfir öll störf.
Enn sem komið er hafa ekki komið nein tilboð frá borginni til samninganefndar Eflingar um endanlega útfærslu á launahækkunum til handa ríflega 1.000 félagsmönnum stéttarfélagsins, svo sem nefnt er í upphafi fréttarinnar. Samkomulag er um grunnlaunahækkun allra félagsmanna Eflingar upp á 90 þúsund krónur að fyrirmynd Lífskjarasamningsins. Þá hefur borgin kynnt jöfnun á bilum milli launaflokka sem muni leiða til hækkunar grunnlauna, mismikið eftir starfsheitum, en þó verði tryggt að sú hækkun verði aldrei lægri en 6.500 krónur. Um þessi atriði ríkir sátt.
Hins vegar hefur Reykjavíkurborg aðeins kynnt haldföst tilboð um launahækkanir til handa fólki sem ber fimm starfsheiti. Í fyrsta lagi er þar um að ræða fólk sem ber starfsheitið starfsmaður 2 á leikskólum og er þar um að ræða tæplega 400 manns. Hækkun á grunnlaun þeirra yrði auk þess sem nefnt er hér að framan 11 þúsund krónur. Fólk sem ber starfsheitið leiðbeinandi 1 á leikskóla fengi hækkun sem næmi 5.600 krónum en þeir starfsmenn eru um 150 talsins. Auk þess fengi ófaglærður deildarstjóri á leikskóla, deildarstjóri C, 12 þúsund króna hækkun auk hækkunar í anda lífskjarasamninga en ekki liggur fyrir hversu mikill hluti þeirrar hækkunar kæmi til vegna jöfnunar á launabilum í launatöflu.
Þá fengi starfsfólk með starfsheitið verkamaður við bæjarframkvæmdir og garðyrku um 13 þúsund króna hækkun en um er að ræða 34 starfsmenn. Þá fengju tveir starfsmenn sem bera starfsheitið kaffiumsjónarmaður um 11 þúsund króna hækkun grunnlauna. Önnur tilboð um launahækkanir til þeirra félagsmanna Eflingar sem út af standa hefur borgin ekki lagt fram. Í því ljósi ber að skoða yfirlýsingu Eflingar, sem send var út eftir samningafundinn 26. febrúar, þar sem sagði: „Á fundinum fékkst ekkert svar við því hvert væri raunverulegt inntak tilboðs Reykjavíkurborgar frá því fyrir helgi, en mikið ósamræmi var milli þess sem kynnt var á samningafundi og þess sem borgin lýsti í fjölmiðlum.“
Athugasemdir